Lady Gaga og Madonna virðast verða orðnar vinkonur ef marka má samskipti þeirra í eftirpartýi eftir Óskarsverðlaunahátíðina á sunnudaginn.
Tónlistarkonurnar Lady Gaga og Madonna hafa eldað grátt silfur saman allt frá árinu 2012, frá því að Madonna bað fólk um að varast eftirlíkingar og gaf í skyn að Lady Gaga reyndi að líkjast sér í einu og öllu. Þá benti hún á að lag Gaga, Born This Way, væri nauðalíkt hennar eigin lagi, laginu Express Yourself frá árinu 1989.
Lady Gaga gaf lítið út á þessa gagnrýni og vildi meina að Madonna væri afbrýðisöm. Í öll þessi ár hafa þær svo gagnrýnt hvor aðra reglulega í fjölmiðlum.
Á sunnudaginn hlaut Gaga Óskarinn fyrir besta frumsamda lagið, lagið Shallow úr kvikmyndinni A Star Is Born. Eftir hátíðina fór hún svo í eftirpartý á vegum Madonnu þar sem allt lék í lyndi og Madonna virtist samgleðjast henni innilega.
Margir ráku upp stór augu þegar þær féllust í faðma og létu mynda sig saman.
Myndinni deildi Madonna á Twitter.
Don’t Mess with Italian Girls……,,..,,,,,,, @ladygaga #winner #starisborn #oscar #theparty @JRart pic.twitter.com/n5Gev7icqj
— Madonna (@Madonna) February 25, 2019
Mynd / Twitter