Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,50 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 2,25%. Þetta kemur fram á vef bankans en ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands var birt áðan.
Til stóð að birta vaxtaákvörðun marsmánaðar þann 18. mars en vaxtaákvörðun var flýtt vegna útbreiðslu COVID-19.
Jafnframt hefur nefndin ákveðið að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr 1% niður í 0%. Föst bindiskylda verður áfram 1%. Lækkun meðaltalsbindiskyldunnar og breytt meðferð á föstu bindiskyldunni í lausafjárreglum munu rýmka lausafjárstöðu bankanna og auka svigrúm þeirra til að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðarbúskapnum.
1. Daglán 4,00%
2. Lán gegn veði til 7 daga 3,00%
3. Innlán bundin í 7 daga 2,25%
4. Viðskiptareikningar 2,00%
5. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00%
„Með þessum aðgerðum er slakað nokkuð á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn,“ segir á vef bankans.
Klukkan 10:00 hefst þá vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og nefndarmaður í peningastefnunefnd, gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar.
Sjá einnig: Birta vaxtaákvörðun viku fyrr – Flýta birtingu vegna útbreiðslu COVID-19