Það brutust út mikil fagnaðarlæti á miðvikudaginn síðasta þegar Larry Nassar, fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að misnota tugi fimleikakvenna kynferðislega. Fórnarlömb hans og fjölskyldur þeirra féllust í faðma og felldu tár en það má með sanni segja að hugrekki og samstaða þeirra 156 kvenna sem stigu fram og sögðu frá ofbeldinu hafi ekki aðeins komið lækninum á bak við lás og slá það sem eftir er af ævi hans, heldur einnig veitt fjölda kvenna innblástur um allan heim til að opna sig um sína reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur“
Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar dómarinn Rosemarie Aquilina las upp sínar hugleiðingar um málið og síðan loks dóminn sjálfan.
„Ég hef sagt það sem ég þurfti að segja við fórnarlömbin. Ég hef samt aðeins meira að segja: Þið eruð ekki lengur fórnarlömb, þið eruð manneskjur sem lifðu af. Þið eruð mjög sterkar og ég hef talað við ykkur allar í einrúmi,“ sagði Rosemarie áður en hún sagðist hafa skrifað undir dauðadóm Larry Nassar.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur,“ sagði dómarinn og bætti við.
„Hvert sem þú myndir fara, myndir þú eyðileggja þá sem liggja best við höggi.“
Hægt er að lesa alla ræðu Rosemarie Aquilina þegar hún kvað upp dóm yfir lækninum með því að smella hér. En einnig er hægt að horfa á dóminn hér fyrir neðan:
Fyrsta fórnarlambið sem steig fram átti lokaorðið
Upphaflega áttu 88 stúlkur og konur að bera vitni gegn Larry Nassar í þessu máli sem talið er vera það stærsta sinnar tegundar innan bandaríska íþróttaheimsins, og þó víðar væri leitað. Þessi fjöldi vitna hins vegar næstum því tvöfaldaðist þegar yfirheyrslur hófust. Ein af annarri færðu þær réttarsalnum, og í raun öllum heiminum, vitnisburð sinn. Þær stóðu fyrir framan kvalara sinn og ávörpuðu manninn sem braut traust svo margra ungra íþróttakvenna og fjölskyldna þeirra.
Síðasta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin var fyrrverandi fimleikastjarnan Rachael Denhollander. Má segja að það hafi verið táknrænt að hún hafi átt lokaorðið þar sem hún var sú fyrsta sem kom opinberlega fram og sakaði lækninn um kynferðislegt ofbeldi, nánar tiltekið í viðtali við fréttamiðilinn Indianapolis Star í september árið 2016.
„Síðustu sextán árin hef ég gert mér grein fyrir því að ég ber ábyrgð, og hvort ég eigi að tala opinberlega eða ekki snýst ekki um hvað sé auðvelt fyrir mig að gera. Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að gera,“ sagði Rachael í viðtalinu á sínum tíma, en rannsóknarvinna Indianapolis Star var það sem sannfærði hana um að stíga fram.
Rachael kærði Larry Nassar vegna meðferðar sem hún fékk við mjóbaksverkjum þegar hún var fimmtán ára árið 2000. Hún sótti fimm tíma hjá lækninum og sagði að í hverjum tíma hefði hann orðið aðgangsharðari en þeim fyrri. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri sín, stungið tveimur fingrum upp í leggöng sín og endaþarm og tekið sig úr brjóstahaldara og nuddað brjóst sín. Í viðtali við Indianapolis Star sagði Rachael að móðir hennar hefði komið með henni í alla tíma en að læknirinn hafi snúið henni þannig að móðir hennar sá aðeins höfuð hennar og bak.
„Ég var logandi hrædd. Ég skammaðist mín. Ég fór svo mikið hjá mér. Og ég var mjög ringluð þegar ég reyndi að skilja það sem var að gerast í ljósi þess hvaða manneskja hann átti að vera. Hann var frægur læknir. Vinir mínir treystu honum. Aðrar fimleikakonur treystu honum. Hvernig gat hann verið í þessari stöðu innan læknastéttarinnar, hvernig gat hann náð til slíkra metorða ef þetta var sá sem hann var?“ sagði Racheal.
Þöggun innan fimleikastéttarinnar
Þetta viðtal og rannsóknarvinna Indianapolis Star afhjúpuðu Larry Nassar sem kynferðisabrotamann sem hafði fengið að brjóta ítrekað á fimleikakonum um árabil. Það sannfærði einnig fleiri konur að stíga fram, sem kom Rachael á óvart.
„Ég vissi hve margar konur Larry hafði brotið á. Hvort einhver af þeim myndi þora að stíga fram var alltaf óvissa,“ sagði Rachael.
Í þessu viðamikla máli hefur ekki aðeins óeðli læknisins verið afhjúpað heldur einnig þöggun innan fimleikastéttarinnar um hegðun hans. Eftir að Larry var dæmdur í fangelsi létu þrír stjórnarmenn bandaríska fimleikasambandsins af störfum, þau Paul Parilla, formaður fimleikasambandsins, Jay Binder, varaformaðurinn og Bitsy Kelley, gjaldkerinn. Þá hefur John Geddert, þjálfara fimleikalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og nánum samstarfsmanni læknisins, verið vikið frá störfum á meðan hann er rannsakaður. Svo var það Lou Anna Simon, rektor Michigan State-háskólans sem sagði af sér nokkrum klukkutímum eftir að læknirinn var dæmdur í fangelsi, en Larry starfaði við háskólann frá 1997 til 2016. Lou Anna hefur alfarið neitað því að hafa vitað af misnotkuninni.
Ljóst er að þetta mál er hvergi nærri búið þó að læknirinn sé kominn á bak við lás og slá. Rachael er meðal fjölmargra íþróttamanna sem hafa kært Michigan State-háskólann, fimleikasambandið og Twistars, æfingastöð sem beindi íþróttamönnum til Larry í meðferð. Íþróttafólkið heldur því fram að þjálfarar, lögregluyfirvöld, þjálfarar ráðnir af háskólanum og ráðgjafar hafi ekki rannsakað mál sem komu á borð til þeirra almennilega er varðaði hegðun læknisins. Þá hafa íþróttakonur á borð við Larissa Boyce og Tiffany Thomas-Lopez haldið því fram að þær hafi talað við þjálfara hjá Michigan State-háskólanum um Larry en að ekki hafi verið tekið mark á kvörtununum.
Fékk kraft í hvert sinn sem hann slapp
„Það gerðist ekkert þegar ásakanir höfðu verið settar fram,“ sagði saksóknarinn Angela Povilaitis í lokaræðu sinni áður en Larry var dæmdur í fangelsi. „Lygar hans virkuðu. Í hvert sinn sem hann slapp fékk hann kraft til að halda áfram, til að fullkomna aðferðir sínar og misnota fleiri.“
Hún þakkaði einnig rannsóknarblaðamönnum Indianapolis Star fyrir að hrinda þessu máli af stað.
„Án þessarar fyrstu greinar í Indianapolis Star í ágúst árið 2016, án greinarinnar þar sem Rachael steig fram opinberlega, þá væri hann enn að starfa sem læknir, að meðhöndla íþróttamenn og misnota börn,“ sagði hún og bætti við:
„Aðgerðarleysi er aðgerð. Þögn er skeytingarleysi. Réttlæti þarf aðgerð og rödd. Og það er það sem gerðist hér í réttarsalnum.“
Litlar stelpur verða sterkar konur sem eyðileggja heiminn þinn
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða dilk þessi fangelsisdómur dregur á eftir sér, en við skulum líta á nokkrar af þeim tugi frásagna sem komu fram við réttarhöldin.
„Ég bar vitni til að láta heiminn vita að þú ert viðbjóðslegur lygari og að „meðferðir“ þínar voru dulbúið kynferðislegt ofbeldi. Þú hefur kannski áttað þig á því núna, en litlar stelpur eru ekki litlar að eilífu. Þær vaxa úr grasi og verðar sterkar konur sem snúa aftur til að eyðileggja heiminn þinn,“ sagði Kyle Stephens, fyrsta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin. Hún sagði að Larry hefði misnotaði sig frá 6 ára aldri og þar til hún varð 12 ára.
„Hann var læknirinn. Ég var barnið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað mér ætti að finnast um þetta. Í langan tíma tókstu frá mér hamingjuna. Í hvert sinn sem einhver kallar mig „Kiddo“ hugsa ég um andlitið þitt þegar þú varst að misnota mig,“ sagði Maddie Johnson.
„Ég veit sannleikann. Ég man, alveg sama hvort hann man hvað hann gerði mér eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt. Það var ekki fyrr en þú varst gómaður að þú grátbaðst um fyrirgefningu,“ sagði Christine Harrison sem sagði Larry hafa misnotað sig þegar hún var 15 og 16 ára.
„Hann snerti saklausustu líkamsparta mína. Ég gat ekki verið venjuleg stelpa lengur og ég glataði stórum parti af barnæsku minni að eilífu vegna misnotkunar hans,“ sagði Jessica Thomashaw sem sagði lækninn hafa misnotað sig frá 9 til 12 ára aldurs.
Gina Nichols, móðir fimleikakonunnar Maggie Nichols, las frásögn dóttur sinnar í réttarsalnum. Hún sagði að það væri of sársaukafullt fyrir dóttur sína að gera það sjálf, en Maggie leitaði til læknisins þegar hún var 15 ára:
„Ég man að hann fór með mig inn í æfingaherbergi, lokaði hurðinni og dró fyrir glugga. Ég hugsaði þá að þetta væri pínulítið skrýtið en hélt að þetta hlyti að vera í lagi. Ég treysti því sem hann var að gera í fyrstu en síðan byrjaði hann að snerta mig á stöðum sem mér fannst ekki rétt af honum að snerta mig á. Hann var ekki með hanska og hann sagði mér ekki það sem hann var að gera. Það var enginn annar í herberginu og ég samþykkti það sem hann gerði því fullorðna fólkið sagði mér að hann væri besti læknirinn og gæti hjálpað við að lina sársauka minn.“
Texti / Lilja Katrín
[email protected]