Sunnudagur 5. janúar, 2025
-11.2 C
Reykjavik

„Lærdómsríkt ferðalag“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

RVK Feminist Film Festival er brakandi ný alþjóðleg kvikmyndahátíð sem hófst í gær og stendur fram á sunnudag, 19. janúar. Hátíðin er haldin í Bíó Paradís, Icelandair Hótel Marina og Norræna húsinu og segja skipuleggjendur hennar að viðtökurnar hafi eiginlega farið fram úr björtustu vonum.

 

„Ég er með fiðring í maganum af spenningi en annars er svo mikið sem þarf að gera að maður hefur varla tíma til þess að hugsa um það,“ segir Lea Ævarsdóttir, hátíðarstjóri RVK Feminist Film Festival, í samtali við Mannlíf og játar að það sé eiginlega svolítð skrítið að sjá hvernig þetta draumaverkefni hefur tekist á loft.

Hátíðin, sem hóf göngu sína í gær, er að sögn þeirra Leu og Nöru Walker, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. „Það var að vísu haldin sérstök kvikmyndahátíð kvenna á Listahátíð kvenna árið 1985,“ tekur Lea glaðlega fram, „en þetta er fyrsta feminíska kvikmyndahátíðin sem hefur verið haldin á Íslandi.“ Hún segir hátíðina vera hugsaða sem andsvar við þeim kynjahalla sem ríkir meðal kvikmyndaleikstjóra á heimsvísu. „Það er nefnilega sláandi hversu lítil prósenta af konum leikstýrir kvikmyndum á heimsvísu miðað við karla,“ bendir hún á. „Okkur langar að taka þátt í því að jafna þennan kynjahalla,“ segir Nara, „og þess vegna verða bara sýndar kvikmyndir eftir kvenkynsleikstjóra.“

Lea segir að kjarninn í hátíðinni sé að efla konur í kvikmyndagerð, styrkja tengslanetið með því að skapa rými fyrir konur í bransanum til að kynnast, hvetja til umræðna og samvinnu, fá fleiri fyrirmyndir fyrir ungar upprennandi kvikmyndagerðarkonur og koma kvikmyndum eftir kvenleikstjóra frekar á framfæri. Á hátíðinni sé mikið lagt upp úr fjölbreytni og því verði alls kyns spennandi myndir og viðburðir í boði. Í því samhengi nefnir hún fyrirlestur Wendy Gurrero, hjá Geena Davis Institute on Gender in Media, sem mun fjalla um hvernig staðalímyndir kvikmynda og fjölmiðla hafa áhrif á líf og metnað stúlkna og kvenna, og vinnustofu í stuttmyndagerð með Gabrielle Kelly, virts framleiðanda hjá American Film Institute. Að ógleymdri FEM Circle-ferð um Suðurlandið með Pink Iceland sem verður með „einstöku feminísku ívafi“. Þar fyrir utan verði aragrúi áhugaverðra kvikmynda til sýnis og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Ég er með fiðring í maganum af spenningi.“

Ótrúlegar undirtektir

En hvernig kviknaði eiginlega hugmyndin á hátíðinni? „Ætli það megi ekki segja að lítill neisti hafi kviknað þegar ég kynntist hátíðarstjóra Stockholm Feminist Film Festival fyrir þremur árum. Ári áður hafði ég komið heim úr kvikmyndanámi og fannst þá skorta almennilegt tengslanet hérna, og þessi kynni urðu til þess að mig fór að dreyma um að gera eitthvað í málunum. Sama ár kynntist ég Nöru og var alltaf að tala um þessa hátíð. Loks sagði maðurinn minn mér að kýla bara á þetta og þá fékk ég auðvitað Nöru með mér í verkefnið.“

- Auglýsing -

„Já, ég var mjög spennt fyrir því að taka þátt,“ segir Nara glöð.

Lea viðurkennir að hún hafi ekki tekið þátt í að skipuleggja hátíð af þessu tagi áður, það komi sér því vel að hafa Nöru sem hafi meiri reynslu en hún af því að setja upp listasýningar. Sjálf komi hún þó með sína reynslu af kvikmyndaframleiðslu að borðinu. „Nara hefur verið með mér í þessu frá byrjun og það hefur gengið á ýmsu en við erum svoddan skörungar að við látum fátt aftra okkur. Saman erum við óstöðvandi,“ segir hún hlæjandi og nefnir að ekki sé lengra síðan en haustið 2018 sem forvinna að uppsetningu hátíðarinnar hófst, þegar m.a. var hafist handa við að sækja um styrki og leitað eftir samstarfsaðilum.

Og að sögn þeirra beggja hafa undirtektirnar ekki látið á sér standa. „Viðbrögðin hafa verið sterk og komið úr ýmsum áttum,“ segir Lea. „Við vorum til dæmis varla fyrr búnar að setja upp vefsíðu og Facebook-síðu þegar konur fóru að hafa samband og við höfum kynnst mörgum kjarnakonum í bransanum og höfum lært mikið af þeim. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg. Þetta hefur verið vægast sagt lærdómsríkt ferðalag.“

- Auglýsing -

En stendur til að gera halda hátíðina árlega? „Já, þetta verður árlegur viðburður,“ segir hún. „Það er nauðsynlegt að vinna að því að konur og aðrir minnihlutahópar fái vettvang til að láta raddir sínar heyrast.“

Gabrielle Kelly

Virtur framleiðandi og handritshöfundur

Laugardaginn 18. janúar munu þátttakendur vinna í að þróa stuttmyndahandrit sín með Gabrielle Kelly, handritshöfundi og framleiðanda, sem starfar við Amerísku kvikmyndastofnunina í Los Angeles. Gabrielle hefur áralanga reynslu af því að leiða handritsnámskeið um heim allan. Hún hefur meðal annars starfað hjá HBO, CBS Films, Eddie Murphy Productions og Warner Bros. Gabrielle er höfundur bókarinnar Celluloid Ceiling; Kvenleikstjórar bjótast í gegn – Byltingarkennd rannsókn kvenleikstjóra víðsvegar að úr heiminum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -