Þriðjudagur 7. janúar, 2025
-7.2 C
Reykjavik

Lætur allt flakka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jonathan Duffy frumsýnir nýja uppistandssýningu, It‘s been a while eða Það er svolítið síðan, í Tjarnarbíói í kvöld. Í samtali við Mannlíf segist ástralski grínistinn sem er nýkominn úr uppistandsreisu um heiminn með Hugleiki Dagssyni, ætla að vera samur við sig og láta allt flakka. En þó með nýju sniði.

 

„Þetta verður svolítið ólíkt öðru sem ég gert að því leytinu til að sýningarnar mínar hafa yfirleitt byggst á einhverju tilteknu þema,“ útskýrir Jonathan þegar hann spurður að því hvernig sýningin komi til með skera sig frá fyrri sýningum hans. „Sú síðasta, I wouldn‘t date me either eða Ég myndi ekki deita mig heldur, fjallaði til dæmis öll um stefnumót. Þessi sýning aftur á móti snýst meira um það sem ég hef verið að gera undanfarið og ýmis áhugaverð atriði sem ég hef veitt athygli. En gagnstætt því sem sumir virðast telja hef ég alls ekki setið auðum höndum frá seinustu sýningu heldur verið alveg á fullu að gera alls konar áhugaverða og spennandi hluti, eins og að heimsækja fjölskylduna mína í Ástralíu, setja saman minn eigin spjallþátt og að þjálfa fyrir hálfmaraþon – eða alla vega verið að reyna það. Þannig að þótt ég komi bara til með standa einn á sviði, með ekkert nema geislandi persónuleikann, verður af nógu að taka.“

Heilt ár er liðið síðan Jonathan tróð upp einn og segir hann að það sé í raun helsta ástæðan fyrir því að hann ákvað að semja nýja sýningu. „Eftir að áhorfandi kom upp að mér eftir uppistand á Kex og sagðist hafa haldið að ég væri fluttur aftur til Ástralíu þá fannst mér tímabært að henda í sólósýningu,“ segir hann léttur í bragði. „Þú veist, svona til að láta fólk almennt vita að ég er enn á Íslandi og að ég er ekki dauður.“

Jonathan Duffy mætir ferskur til leiks í Tjarnarbíói í kvöld, eftir að hafa túrað um heiminn með Hugleiki Dagssyni.

Hann segir að það sem geri sýninguna líka spennandi sé að efnið sé splunkunýtt. „Já, ég hef verið að skrifa það á síðustu vikum svo þetta verður ferskt og spennandi en skelfilega taugatrekkjandi líka.“

Óttaðist móttökurnar í Austur-Evrópu

Eins og áður sagði er Jonathan nýkominn til landsins eftir að túrað um heiminn ásamt Hugleiki Dagssyni. Spurður hvernig ferðalagið hafi gengið segir hann að í hreinskilni hafi þetta verið kreisí keyrsla. „Við náttúrlega tróðum upp í nýju landi nánast daglega og það kom nokkrum sinnum alveg fyrir að ég vissi ekki hvar við vorum að koma fram, ég var orðinn svo ringlaður,“ játar hann og hlær. „En þarna gafst gott tækifæri til að sjá hvort brandararnir mínir féllu í kramið hjá öðrum menningarsamfélögum, sem þeir gerðu nú, sem betur fer. Svo var líka spennandi og áhugavert fyrir mig persónulega sem samkynhneigðan karl að skemmta í löndum eins og Serbíu, Króatíu og Tékklandi þar sem samkynhneigð er ekkert sérstaklega samþykkt.“

„Við náttúrlega tróðum upp í nýju landi nánast daglega og það kom nokkrum sinnum alveg fyrir að ég vissi ekki hvar við vorum að koma fram, ég var orðinn svo ringlaður.“

- Auglýsing -

Hann segist til dæmis alls ekki hafa búist við að gríninu hans yrði vel tekið í Serbíu. Sem varð þó raunin. Áhorfendur þar hafi satt best að segja elskað brandarana hans. „Annað sem kom á óvart var að ég bjóst allt eins við því að það yrði einhver tími aflögu til að gera ekki neitt. En það gerðist aldrei. Maður bara vaknaði, fór á flugvöllinn, ferðaðist eitthvert, kom fram, fór að sofa og svo bara byrjaði ballið upp á nýtt. Þetta var alveg galið en nokkuð sem flesta grínista dreymir um að gera, svo í raun og veru getur maður ekki leyft sér að kvarta.“

Við nánari umhugsun segir hann að áhorfendurnir í Austur-Evrópu hafi reyndar um margt minnt hann á Íslendinga. Þeir séu með sama svarta húmorinn og finnist virkilega gaman þegar grínistar ganga eins langt og þeir geta. „Ég tók líka eftir því að þeir njóta þess að vera skotspónn grínsins, alveg eins og þið.“

Gisti á hryllingshóteli

- Auglýsing -

Jonathan segir að annars hafi margt stórfurðulegt komið upp í ferðalaginu. „Eins og til dæmis þegar við tékkuðum inn á hótel í Serbíu sem hefði getað verið úr Shining eða þegar rann upp fyrir mér að í raun og veru er ég ekki með neitt brjálæðislegt blæti fyrir Íslandi,“ segir hann og kímir. „Hins vegar ætla ég mér ekkert að fara nánar út í þá sálma að sinni, fólk verður bara að mæta á sýninguna mína ef það vill vita meira.“

Nánari upplýsingar um hana megi finna á vef Tjarnarbíós, www.tjarnarbio.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -