Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Lalli Johns verið edrú í 15 ár og sér eftir áratuga glæpaferlinum: „Mér leið illa á Litla-Hrauni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lárus Björn Svavarsson. Lalli Johns. Einn þekktasti afbrotamaður á Íslandi á síðustu öld. Hann ólst upp að miklu leyti á stofnunum, fór ungur að drekka og dópa og hann sat reglulega inni á Litla-Hrauni fyrir afbrot sín. Rúmlega 40 refsidómar nær eingöngu fyrir þjófnað. Síafbrotamaður í um 40 ár. Fangelsisvistin samsvarar um 20 árum í allt. Hvar er hann í dag? Hver er hann í dag? Hann er búinn að vera edrú í um 15 ár. Er rólegur og ljúfur eldri maður.

 

Lalli Johns. Blaðamanni verður á björtum vordegi allt í einu hugsað til Lalla Johns. Upp úr þurru. Hvar er hann nú? Hver er hann nú? Ætli hann sé til í viðtal?

 

Jú, hann er til í viðtal.

 

- Auglýsing -

Lárus Björn Svavarsson, Lalli Johns, er sonur Ólafíu Sigurbjörnsdóttur og Svavars Björnssonar sem bæði eru látin. Hann fæddist í Reykjavík árið 1951 og er einn af fimm systkinum. Faðirinn var á sjónum. Drakk. Leiðir hjónanna skildu. Ólafía vann við ræstingar. Fjölskyldan bjó við þröngan kost á nokkrum stöðum í Reykjavík meðal annars Kamp Knox og Pólunum.

 

Systkinin fóru á flakk. Send á barnaheimili og stofnanir.

- Auglýsing -

 

Það hefur verið gerð mynd, heimildarmynd, um Lalla. Hana gerði Þorfinnur Guðnason. Blaðmaður horfir á myndina til að kynnast viðmælandanum. Lalli var augljóslega undir áhrifum á meðan á tökum hennar stóð. Það kjaftaði á honum hver tuska. Hress. Almennilegur við mann og annan. Skemmtilegur.

 

Vildi bæta ráð sitt.

 

Hann er í myndinni oft í svörtum leðurjakka sem skreyttur er litlum hjörtum og ýmsum orðum svo sem LOVE og FASHION. WILD FREE stendur stórum stöfum á bakinu. Þar er líka mynd af hauskúpu. Rauður litur í tómum augnatóftunum.

 

Þar sagði Lalli meðal annars eftirfarandi og er þetta tekið hér og þar í myndinni. Hist og her:

 

„Númer eitt, tvö og þrjú að hata engan nema þá sjálfan sig. En það er fyrirgefið.“

 

„Hann er ágætis maður. Fínn kall. Hann er léttur á því,“ sagði maður einn í myndinni um Lalla Johns.

 

Kona heilsar Lalla með kossi á bar. „Ekki setja tunguna upp í mig,“ segir Lalli.

 

Í eitt skiptið þegar hann kemur af Litla-Hrauni:

„Heyrðu Siggi, viltu gá hvort ég hafi gleymt Biblíunni inni?“

„Ég ætla að geyma hana þar til þú kemur aftur,“ segir fangavörður.

Lalli er ekki sáttur við þetta svar; að gert sé ráð fyrir að menn komi aftur og aftur á Hraunið. Spyr hvort maðurinn geti sent Biblíuna niður í Fangelsismálastofnun.

 

„Ég er búinn að vera í edrú í rúma viku og er að reyna að gera eitthvað í mínum málum.“

Mig dreymdi nú bara að ég væri staddur einhvers staðar í einhverju húsi og það var mikill gleðskapur. Það var verið að bjóða mér í glas og ég sagði „nei, takk“.

Hann gengur að keri fullu af sígarettustubbum. „Það er ekkert varið í þessa stubba. Það er ekki einu sinni hægt að reykja þá.“

 

Í einu skotinu er hann leiddur í handjárnum út úr fangelsinu við Skólavörðustíg. Jólalag spilað undir. „I wish you a Merry Christmas.“ Hljóðfæri eingöngu. Enginn söngur.

 

Lalli afhendir dómara jólakort. Ekki í fyrsta skipti virðist vera sem hann fær jólakort frá Lalla.

 

Lalli les æðruleysisbænina að hluta:

Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli

„Jú, ég kann þetta alveg,“ segir hann í lok lestursins.

 

„Ég er ekki hræddur við neinn einasta mann nema sjálfan mig. Ég veit ekkert hver ég er,“ segir Lalli þar sem hann gengur á gangstétt í huggulegu íbúðahverfi. Býður eldri manni góða kvöldið sem stendur fyrir framan hús sitt.

 

Hann talar um að hafa verið sendur hingað og þangað á sínum tíma og aldrei spurður. Og þegar móðir hans dó þá missti hann besta vin sinn. Talar um að enginn muni syrgja sig þegar hann deyr.

 

Kirkjuklukkur klingja.

 

Lalli fer í kirkjugarð. Stendur við ómerktan viðarkross við leiði móður sinnar. Kyssir á krossinn.

 

Eftir að hafa horft á myndina er augljóst að Lalli er ljúfur og glaðlyndur. Hann sýndi að sögn kunnugra ekki ofbeldishegðun í gegnum áratugina, og er þá átt við líkamlegt ofbeldi, og þegar neysla og afbrot einkenndu líf hans þá var hann gjafmildur og þá sérstaklega þegar kom að börnum og þeim sem áttu erfitt.

Umfjöllunin um Breiðavíkurmálið fyrir um tveimur áratugum hafði svo mikil áhrif á Lalla að hann fór í meðferð og hætti allri neyslu; hefur einu sinni fallið síðan þá. Og síðan ekki söguna meir.

Býr á Draumasetrinu

Sólríkur vordagur í maí 2021. Systir Lalla kemur til dyra á heimili sínu en Lalli tók leigubíl þangað til að hitta blaðamann. Hvítur, lítill hundur heilsar blaðamanni með því að standa á tveimur fótum og leggja framfæturna á fætur blaðamanns. Tík. Hún heitir Birta.

 

Herðabreiður maður situr í stól í stofunni. Snýr baki í þá sem koma inn í stofuna.

 

Lalli Johns.

 

Hann lítur upp. Heilsar. Ljósblá augu. Góðlegur. Ljúfur. Rólyndur. Hann er allt öðruvísi en maðurinn sem heimildarmyndin er um en áður var það spíttið og önnur eiturlyf sem breyttu persónuleika hans. Lalli Johns er allt annar maður í dag. Allt annar persónuleiki.

 

Hann er snyrtilega klæddur.

 

Í dökkri skyrtu. Grár hattur liggur á borðinu.

 

Winston-sígarettupakki fyrir framan hann.

 

Lalli hefur undanfarin ár búið á áfangaheimilinu Draumasetrinu sem ætlað er fyrrverandi fíklum. Þess má geta að hið opinbera styrkir ekki Draumasetrið.

 

„Það er mjög gott að vera þar. Þar er öll þjónusta. Ég er með ræstingakonu og svo er ég með hjúkrunarkonu,“ segir Lalli en fyrir utan að fá þjónustu hjúkrunarfræðings reglulega fer hann auk þess reglulega í sjúkraþjálfun. Og svo er hann með liðveislu. „Svo eru fundir á mánudögum, þriðjudögum, svo miðvikudögum, fimmtudögum, föstudögum,“ segir Lalli. „Svona klukkutíma fundir og þá er lagt fyrir hvað maður þarf að gera. Og málin tekin fyrir. Það hefur gengið mjög vel fram að þessu. Og allir voða ánægðir með það og allir mæta á þennan fund. Það er eiginlega húsfundur á miðvikudögum. Einn og hálfur eða tveir tímar. Það koma allir saman í eitt herbergi í stofunni niðri. Og þá eru málin rædd, sko. Það hefur gefist vel fram að þessu. Það er alltaf fólk að koma og fara þarna hjá Draumasetrinu. Það stoppa sumir lengi og aðrir lengur.“

 

Lalli er spurður hvernig hann verji almennt deginum burtséð frá fundunum.

 

„Ég labba í kringum staðinn og hef gripið í bækur og eytt deginum innan um liðið niðri.“

Hvað með ráð til ungs fólks sem er að feta sömu braut? „Ég myndi segja við það að það ætti nú bara að fara sér hægt. Líta til hægri og vinstri. Þetta er hættulegur heimur.“

Hann er spurður hvernig bækur hann lesi aðallega. Það eru spennu- og glæpasögur.

 

Lalli býr við mikið öryggi á Draumasetrinu; það má jafnvel segja að það sé fyrsta heimilið sem hann eignast.

 

Hjá Ólafi Hauki og Elínu Örnu sem reka Draumasetrið fékk blaðamaður þær upplýsingar að Lalli sé hvatning fyrir stóran hóp af ungu fólki sem er að taka sín fyrstu skref í nýju lífi án áfengis og fíkniefna.

 

„Það hefur komið fyrir að þeir hafa spurt mig til vegar. Hafa spurt að því hvernig ég hafi farið að því að hætta að drekka og dópa.“

„Lalli á það til að slökkva á ljósum ef kveikt er á þeim um miðjan dag og gengur hann oft um húsið og slekkur þau. Svo fer hann með bolla og glös inn í eldhús sem aðrir hafa skilið eftir,“ segir Ólafur Haukur. „Við hér á Draumasetrinu erum afar þakklát að Lalli ákvað að vera hér þrátt fyrir önnur boð um búsetu og þjónustu og teljum við að þessi vilji hans sé vegna þess kærleika og vináttu sem ríkir hér, enda er Lalli kærleiksbolti sem allir elska.“

Lalli er spurður hvort hann sjái eftir innbrotunum.

„Já,“ segir hann.

Samviskubit?

„Já.“

Breiðavík

Jú, Lalli fæddist í Reykjavík árið 1951. Fjölskyldan bjó á nokkrum stöðum og þar á meðal í bragga í Kamp Knox.

 

Heimilisaðstæður voru erfiðar og var Lalli órólegur og ódæll. ADHD? Þess má geta að meirihluti fanga er með ADHD. Hann fékk ekki neina aðstoð í æsku svo sem greiningu eins og gert er í dag. Hann var einfaldlega vistaður tveggja til þriggja ára gamall á barnaheimilinu Silungapolli, síðan sendur sjö ára gamall á barnaheimilið Reykjahlíð í Mosfellsdal og svo á heimavistarskólann að Jaðri.

 

Hann man lítið eftir dvölinni á þeim stöðum þar sem hann var vistaður.

 

„Ég man eftir að það var sundhöll í Reykjahlíð en heil hlaða hafði verið gerð að sundhöll. Og við lékum okkur mestmegnis þar.“

 

Hann átti þar tvo vini. Rúnar og Valda.

 

„Við vorum þrír saman þar.“

 

Lalli var svo 10 ára gamall þegar hið opinbera sendi hann á Breiðavík þar sem hann var í nokkur ár og fékk hann ekki að hitta fjölskyldu sína allan þann tíma. Lögreglan sótti hann heim til hans og fór með hann. Það fór lítið fyrir námi og segist hann hafa unnið myrkranna á milli. Hann var beittur ofbeldi og voru það eldri drengir sem það gerðu.

 

Hann segist ekki muna mikið frá þessum tíma.

 

„Þegar maður hugsar um það þá man maður kafla og kafla. Ég fór þangað af því að ég átti að hafa verið baldinn unglingur. Ég var sendur út af því að ég hlustaði ekki á fólk og fór mínar eigin leiðir. Og það mátti ekki. Ég átti bara að fara eftir því sem þau sögðu. Þá var ég bara sendur á Breiðavík. Ég fékk aldrei neina almennilega skýringu á því hvers vegna ég var sendur þangað.“

Ég var svona 17-18 ára þegar ég braust inn í fyrsta skipti. Svona þróaðist þetta bara og ég reyndi að fylgja þessu einhvern veginn. Þetta var einhver ævintýraþrá. Eitthvað til að gera öðruvísi en aðrir.

Ofbeldi. Ofbeldi á Breiðavík.

Lalli ræskir sig.

 

„Það voru eldri og yngri strákar. Ég var í yngri hópnum. Svo voru þeir yngri svo hræddir þegar eitthvað kom fyrir; þá voru þeir læstir inni í herbergi. Þá pössuðu þeir eldri að það kæmist ekki upp.“

 

Svo var farið að fjalla um Breiðavíkurmálið áratugum síðar.

 

„Það var svo mikil leynd yfir staðnum. Það kom ekki allt fram sem átti að koma fram. Uppeldið á krökkunum þarna var ekki alveg í lagi.“

 

Jú, Breiðavík komst í fréttirnar á sínum tíma vegna harðneskju þeirrar sem íbúar voru beittir og bað Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, vistheimilabörn afsökunar fyrir rúmum tveimur áratugum þegar farið var að fjalla um málið. Hún gerði það í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 12. mars 2009:

 

„Ég vil fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar biðja fyrrverandi vistmenn á Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þeir voru látnir sæta. Ég vil sömuleiðis biðja alla þá afsökunar sem hafa sem börn verið vistaðir á stofnunum eða heimilum fyrir tilstuðlan opinberra aðila hér á landi og sætt þar illri meðferð eða ofbeldi.“

 

Jóhanna sagði þá frá viðræðum forsætisráðuneytisins og forsvarsmanna Breiðavíkursamtakanna um hugmyndir að bótagreiðslum til handa þeim sem voru á vistheimilum og einu ári síðar voru sett lög um greiðslu sanngirnisbóta. Þeir áttu rétt á bótum sem höfðu orðið fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða vistheimilum á vegum hins opinbera.

 

Lalli Johns var einn af þeim. Hann fékk eina og hálfa milljón en átti víst að fá meira. Þá peninga hefur hann aldrei séð.

 

Umfjöllunin um Breiðavíkurmálið fyrir um tveimur áratugum hafði svo mikil áhrif á Lalla að hann fór í meðferð og hætti allri neyslu; hefur einu sinni fallið síðan þá. Og síðan ekki söguna meir.

 

Síafbrotamaður í um 40 ár

Lalli er spurður um draumana á æsku- og unglingsárunum.

 

„Maður spáði lítið í það hvað væri fram undan. Hvað tæki við. Ég bjóst kannski við því að það væri það sama og væri búið að vera og svo sem sagt að eitthvað annað tæki við. Eitthvað betra.“

 

Hann losnaði frá Breiðavík 14 ára gamall og staðfesti í kjölfarið fyrir Guði og mönnum að hann vildi þiggja þá samfylgd með Guði sem beðið var fyrir í skírninni.

 

Hann var kominn í fullorðinna manna tölu.

 

Barnið Lárus fékk sér fyrsta sopann níu ára gamall.

 

Fór að reykja. Reykti fyrst njóla.

 

Sopunum fjölgaði á unglingsárunum og varð Lalli tíður gestur á skemmtistöðum borgarinnar. Austurbarinn var í uppáhaldi. Þar fékk Lárus nafnið „Johns“. Það tengist sennilega því að hann hafi verið hliðhollari Lyndon B. Johnson, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, heldur en Kennedy.

 

Síðan var það Silfurtunglið.

 

Brennivín. Hass. Amfetamín.

 

Innbrot.

 

„Ég var svona 17-18 ára þegar ég braust inn í fyrsta skipti. Svona þróaðist þetta bara og ég reyndi að fylgja þessu einhvern veginn. Þetta var einhver ævintýraþrá. Eitthvað til að gera öðruvísi en aðrir.“

 

Lalli var að sögn kunnugra ekki ofbeldisfullur og er þá átt við líkamlegt ofbeldi. Þetta voru mest auðgunarbrot.

 

Lalli hefur lítið unnið á almennum vinnumarkaði í gegnum tíðina. Hann vann hins vegar þegar hann var vistaður á Litla-Hrauni. Hann lenti í slysi þegar hann var 35 ára og hefur síðan verið á örorkubótum.

 

Lalli sat reglulega inni á Litla-Hrauni fyrir afbrot sín. Rúmlega 40 refsidómar nær eingöngu fyrir þjófnað. Síafbrotamaður í um 40 ár. Fangelsisvistin samsvarar um 20 árum í allt.

 

„Það var skrýtið að vera á Litla-Hrauni,“ segir hann. „Mér leið illa þar. Já, það var voðalega misjafnt að vera þar. Það var aldrei eins.“

 

Hann teygir sig eftir Winston-sígarettupakkanum. Stendur upp og fer út á svalir til að reykja.

 

Reykurinn úr sígarettunni liðast upp í loftið eins og minningar.

 

Hann kemur síðan inn og sest aftur við borðið.

 

Setur fljótlega hattinn á sig. Gráa hattinn.

 

Birta stendur fyrir framan hann og hann klappar henni. Hann er dýravinur. Þekktur fyrir að vera slíkur. Þekktur fyrir að vera ljúfur. Sagan segir að hann hafi tekið málstað kvenna í undirheimum áður fyrr.

 

„Já, það var stundum sem ég gerði það. Þá var eins og ég væri einhver bjargvættur.“

 

Las ljóð eftir Stein Steinarr

Talið berst aftur að Litla-Hrauni þegar Birta er lögst undir borð.

 

„Mér leið nú ekkert vel þar,“ segir Lalli en Hraunið var eins og hans annað heimili. Eða bara sem hans aðalheimili í áratugi en þess á milli var hann oft húsnæðislaus og gisti í gistiskýlum eða hjá vinum. „Það kom oft fyrir að mér leiddist á Litla-Hrauni. Dagarnir liðu misjafnlega. Það var misjafnt hvað ég hafði fyrir stafni. Tíminn var misjafnlega lengi að líða. Fangaverðirnir voru allt í lagi, sko. Þeir voru nokkuð liðlegir og tóku þátt í starfinu. Ef maður þurfti þá voru þeir mjög liðlegir að hjálpa manni. Þeir voru misjafnir eins og þeir voru margir. Þetta eru tvö aðskilin hús sem sagt. Maður gat um frjálst höfuð strokið.“

„Mér leið nú ekkert vel þar,“ segir Lalli en Hraunið var eins og hans annað heimili. Eða bara sem hans aðalheimili í áratugi en þess á milli var hann oft húsnæðislaus og gisti í gistiskýlum eða hjá vinum. „Það kom oft fyrir að mér leiddist á Litla-Hrauni.“

Svo vann hann á Hrauninu eins og þegar hefur komið fram..

 

„Maður reyndi að vinna bara sem sagt allan daginn og þá var ég að vinna úti í steypuskálanum. Vann sem sagt frá níu á morgnana til fimm á daginn. Fimm sex á daginn.

 

Hann var oft undir áhrifum þegar hann sat inni.

 

„Já, maður var nú ekki alltaf allsgáður þarna,“ segir Lalli. „Það var allur gangur á því. Maður reyndi að vera öðruvísi en maður átti að vera. Reyndi aldrei að vera eins.“

 

Tvisvar flúði hann úr fangelsinu.

 

Blaðamaður spyr hvernig honum hafi tekist að strjúka.

 

„Það var bara af því að það var einhver bilun í kerfinu.“

 

Í heimildarmyndinni segir félagi Lalla frá því að einn fanginn hafi brotið rúðu í klefa Lalla og hann hafi verið tilneyddur til að taka þátt.

Sagan segir að hann hafi tekið málstað kvenna í undirheimum áður fyrr. „Já, það var stundum sem ég gerði það. Þá var eins og ég væri einhver bjargvættur.“

Og svona var mynstrið í áratugi. Inn og út af Hrauninu fyrir alls kyns afbrot. Auðgunarbrot.

 

„Stundum fylgdi maður bara straumnum og stundum þegar atburðir voru að ske þá leiddist maður með viðtakanda og svona; eins og maður segir – maður tók þátt og var ekkert að hugsa hvað var að gerast í þetta og þetta skiptið og allt í einu var ég búinn að lenda í einhverjum ógöngum eða einhverju atviki sem ég ætlaði kannski ekki að taka þátt í.“

 

Nokkrar sögur af Lalla eru frægar svo sem þegar hann var búinn að brjótast inn í hús, búinn að koma ránsfengnum fyrir á gangi þar inni og beið eftir að félagi sinn myndi sækja sig en þá náði hann sér í ljóðbók eftir Stein Steinarr og var að lesa uppi í sófa þegar lögreglan kom. Í annað skipti var hann að fara að brjótast inn í hús í Hveragerði. Húsráðandi varð var við hann og spurði hvað hann væri að gera. Lalli sagðist hafa ætlað að hrigja á leigubíl.

 

Fólk brosir kannski út í annað, hlær kannski, en fólki sem hefur orðið fyrir tjóni vegna þessara innbrota kemur hins vegar ekki hlátur í hug.

 

Lalli er spurður hvort hann sjái eftir innbrotunum.

 

„Já,“ segir hann.

 

Samviskubit?

 

„Já.“

 

Lalli er spurður hvernig hann myndi vilja lifa lífinu ef hann væri ungur maður í dag.

 

„Ég myndi vilja hafa það öðruvísi en það var. Ég myndi gera hellings breytingu. Ég gengi menntaveginn sem ég fór á mis við.“

 

Segja má að Lalli Johns sé „fagmaður“ í sínu fagi; hann þekkti undirheima inn og út á árum áður en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hvað með ráð til ungs fólks sem er að feta sömu braut?

 

„Ég myndi segja við það að það ætti nú bara að fara sér hægt. Líta til hægri og vinstri. Þetta er hættulegur heimur.“

„Draumurinn er að vera frjáls og hafa svona speis fyrir sig og sína. Það er það sem ég mest hugsa um.“

Hvað með erlendar glæpaklíkur hér á landi?

 

„Mér finnst það eiginlega vera rugl.“

 

En hvað með menn sem stela jafnvel milljörðum eða koma undan milljörðum og komast undan með það?

 

„Mér finnst það vera óréttlátt. Það segir sig sjálft.“

 

Lalli er spurður hvort hann hafi orðið fyrir fordómum. Aðkasti.

 

„Já, eitthvað. Ég tek það ekki nærri mér.“

 

Hann er spurður í hverju þeir fordómar hafi falist.

Nokkrar sögur af Lalla eru frægar svo sem þegar hann var búinn að brjótast inn í hús, búinn að koma ránsfengnum fyrir á gangi þar inni og beið eftir að félagi sinn myndi sækja sig en þá náði hann sér í ljóðbók eftir Stein Steinarr og var að lesa uppi í sófa þegar lögreglan kom.

„Það er voðalega hversdagslegt.“

 

Hann á fjögur börn og er í sambandi við þrjú þeirra. Barnabörnin eru þrjú. Þetta fólk er auður Lalla Johns.

 

Birta geltir. Skjannahvít.

 

Jú, Lalli vill verða betri maður en hann var. Og hann er orðinn betri maður heldur en hann var.

 

Lalli fékk hjartaáfall fyrir nokkrum árum síðan. Hann var við dauðans dyr. Lá á hjartadeild. Og það var síðan settur í hann gangráður.

 

Lalli er spurður hvort hann hafi verið hræddur við að deyja.

 

„Já, svona, mér leið öðruvísi. Mér var eiginlega smábrugðið. Ég vissi bara ekki hvernig það færi.“

 

Svo hefur hann verið slæmur af asma undanfarin ár. Asmapústið er eina lyfið sem hann tekur í dag.

 

Lárus Björn Svavarsson, Lalli Johns, átti sér enga drauma á æsku- og unglingsárunum. Hann er spurður hvort hann eigi sér einhverja drauma í dag.

 

„Draumurinn er að vera frjáls og hafa svona speis fyrir sig og sína. Það er það sem ég mest hugsa um.“

 

Hann er spurður hvort hann hafi dreymt eitthvað um nóttina áður en viðtalið var tekið.

 

„Það var nú lítið. Mig dreymdi nú bara að ég væri staddur einhvers staðar í einhverju húsi og það var mikill gleðskapur. Það var verið að bjóða mér í glas og ég sagði „nei, takk“.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -