Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var við æfingar í gærmorgun þegar í ljós kom að mikilvægur sendir á Straumnesfjalli væri orðinn óvirkur. Gæslan gekk í málið.
Fram kemur á heimasíðu Landhelgisgæslunnar að á æfingu áhafnarinnar á TF-GRO í gærmorgun hafi verið flogið vestur að Straumnesfjalli. Þar er staðsettur svokallaðaur AIS sendir, sem sendir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar mikilvægar upplýsingar um staðsetningu skipa í Ísafjarðardjúpi og út af Vestfjörðum. Var hann orðinn óvirkur vegna straumleysis.

Ljósmynd: Landhelgisgæslan
Fékk áhöfnin þær upplýsingar frá tæknimönnum Neyðarlínunnar að líklegasta skýringin væri sú að rafstöð á fjallinu væri orðin olíulaus og mikilvægt að koma henni aftur í gang. Á heimasíðunni segir að þyrlunni hafi verið lent á fjallinu rétt við endurvarpann og að hluti áhafnarinnar hafi farið að stöðinni til að kanna ástand hennar.
Olíu var dælt af tunnum yfir á olíutank rafstöðvarinnar og skömmu síðar fengust þær upplýsingar að sendirinn væri kominn aftur í samt lag.

Ljósmynd: Landhelgisgæslan
Áhöfnin tók þá aftur á loft og hélt æfingunni áfram.