Kristján Óli Sigurðsson kveðst hafa leitað svara hjá Vöndu Sigurgeirsdóttir formanni KSÍ um fjarveru Sverris Inga Ingasonar í landsliðinu. Um þetta var fjallað í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin í gær.
Þrír leikmenn gáfu ekki kost á sér í núverandi verkefni landsliðsins en liðið mætir Finnum síðar í dag.
Mikael Neville Anderson er að verða faðir en aðeins var sagt að persónulegar ástæður væru fyrir fjarveru Sverris og Guðlaugs Victors Pálssonar sem ekki gáfu kost á sér.
„Þú sendir skriflega spurningu á formann KSí, spurðir út í valið á landsliðshópnum. Það er enginn Sverrir Ingi, það var gefið upp að hann hefði ekki gefið kost á sér, Fékkstu svör,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason í þættinum um Sverrir Inga sem leikur með PAOK í Grikklandi.
Kristján Óli segist hafa fengið svar frá Vöndu. „Ég fékk svar, ég er gáttaður eftir þetta svar. Í svarinu stendur að þjálfari A-landslið karla velur leikmannahóp sinn og að honum hafi ekki verið bannað að velja tiltekna leikmenn í hópinn. Samkvæmt svarinu formanns KSÍ var Sverrir Ingi, besti hafsent Íslands ekki valinn í hópinn.“
Telja þeir félagar að ekki allur sannleikurinn í þessu máli hafi komið fram.
Íslenska liðið mætir Finnum síðdegis og svo er æfingaleikur við Spán í næstu viku.