Rannsóknir á leghálssýnum munu hefjast á Landspítalanum eftir rúma viku. Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana segir biðtímann eftir niðurstöðu styttast lítillega.
Unnið er að því að manna og þjálfa starfsfólk við skimanirnar en á meðan verði helmingur sýna send út til Danmerkur þar sem þau verða rannsökuð.
Búist er við að skipulagið muni vara í allt að ár. Notast verður við sitthvor sýnaglösin og ákveðið þannig fyrirfram hvert sýnin verða send. Sagði Ágúst í viðtali við Vísi að honum þætti líklegt að sýni sem tekin eru hjá kvensjúkdómalæknum verði rannsökuð hér heima en sýnaglösin sem þeir nota passi í vélarnar á Landsspítalanum.
„Það er ekki ólíklegt að þetta styttist um einhverja daga að meðaltalið því við spörum okkur flugið til Danmerkur,“ segir Ágúst um biðtímann eftir að Landspítalinn hafi tekið við öllum sýnatökum. Það sé þó ekki á næsta leyti.