Landspítalinn tekur við skimunum á Keflavíkurflugvelli í dag. Hingað til hefur Íslensk erfðagreining séð um að greina öll sýni sem tekin eru á landamærunum.
Í gær ræddi fréttastofa Vísis við Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar í ljósi þess að Landspítalanum hafði ekki tekist að koma upp búnaði á spítalanum til að taka við skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir daginn í dag. Kári hafði gefið stjórnvöldum sjö daga til að klára verkið.
Í samtali við Vísi sagði Kári ákveðna dagsetningu ekki vera aðalatriðið heldur væri mikilvægast að flutningur vegna landamæraskimunar frá Íslenskri erfðagreining yfir á veirufræðideild Landspítalans gangi snurðulaust fyrir sig og skili sem bestum árangri. Kemur Íslensk erfðagreining til með að vera spítalanum og starfsfólki hans innan handar um sinn.