Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-4.7 C
Reykjavik

„Langar enn að verða rannsóknarlögreglumaður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björn Þór Sigurbjörnsson, umsjónarmaður Morgunvaktarinnar á Rás 1, segist lesa talsvert og íslenskar skáldsögur verði helst fyrir valinu, enda sé af nægu að taka, nýju og gömlu. Spurður hvaða bækur hafi haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina, er hann ekki lengi hugsa sig um.

Bækurnar um Frank og Jóa

„Ætli fyrstu bækurnar sem höfðu rík áhrif á mig – og þeirra gætir enn – séu ekki sögurnar af ævintýrum og afrekum þeirra Hardy-bræðra Franks og Jóa. Þeir voru klárir náungar en ekki síður faðir þeirra rannsóknarlögreglumaðurinn. Bækurnar skipta tugum en ég veit ekki hve margar komu út á íslensku.

Mamma vann á Amtsbókasafninu á Akureyri og þar las ég þær flestar, helst uppi á háalofti þar sem ég faldi mig milli bókastafla og enginn mátti sjá mig. Það jók auðvitað á spennuna. Áhrifin voru tvíþætt, ég sökk inn í atburðarásina við lesturinn og reyndi að leysa ráðgáturnar með þeim bræðrum en svo var það hitt, sögurnar gerðu það að verkum að mig langaði, og langar enn, að verða rannsóknarlögreglumaður. Ótti við að standast ekki þrekprófið í inntökuferlinu í Lögregluskólanum hefur alla tíð aftrað því að sá draumur rætist.“

Bróðir minn Ljónshjarta

„Önnur bræðrasaga en af öðrum toga hafði líka mikil áhrif á mig. Hana las ég í rúminu heima og hún kom mér til að gráta. Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren sem Þorleifur Hauksson íslenskaði er einstaklega falleg en um leið afar sorgleg bók. Það er mikið á þá bræður Jónatan og Snúð lagt, bæði í ævintýraheiminum Nangijala og utan hans. Snúður með sinn ólæknandi sjúkdóm og Jónatan sem fórnar lífi sínu fyrir litla bróður.“

Stormfuglar

- Auglýsing -

„Að lokum nefni ég bók sem hafði hrein og bein líkamleg áhrif á mig. Lýsingar Einars Kárasonar á veðri og aðstæðum um borð í síðutogaranum Máfinum gerðu að verkum að mér varð beinlínis kalt. Ég las Stormfugla um leið og hún kom út síðasta vor og lifði mig þannig inn í frásögnina af hremmingum áhafnarinnar í fárviðrinu þarna úti fyrir Nýfundnalandi að ég man ekki annað eins. Auk kuldans fann ég fyrir veltingnum, heyrði í vindinum og óttaðist næsta brot. Munum við hafa þetta af, hugsaði ég. Það eru aldeilis áhrif.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -