Í morgun voru tískuvöruverslanir víða um England opnaðar aftur eftir þriggja mánaða lokun vegna kórnuveirufaraldursins.
Frekari tilslakanir á takmörkunum tóku gildi í Englandi í dag og mega nú allar verslanir opna aftur, þó með ákveðnum skilyrðum. Verslunareigendum er gert að sjá til þess að sóttvarnarreglum sé framfylgt, sem dæmi þarf að setja upp plastskilrúm við alla afgreiðslukassa og merkingar á gólf til að auðvelda viðskiptavinum að halda tveggja metra fjarlægð við aðra.
Það var greinilegt að margt fólk beið í ofvæni eftir að fá að versla föt, skó og annan varning aftur og langar raðir mynduðust fyrir utan margar verslanir, svo sem Primark, Zöru og Sports Direct.
Löng röð myndaðist fyrir utan verslun Nike í London og kvartaði einn viðmælandi BBC undan því að fólk væri ekki að viðhalda tveggja metra reglunni.