Höfundur / Gunnar Dofri Ólafsson
Á gullaldarárum íslenskrar blaðamennsku, sem þýðir að sjálfsögðu alltaf: þegar ég var blaðamaður, festu dúxaviðtöl sig í sessi sem fastur liður á netmiðlunum. Eða ekki, kannski hafa þau alltaf verið þarna og ég fór að veita þeim athygli á þessari gullöld því ég tók nokkur sjálfur. Flest voru þau áhugaverð en dálítið einsleit.
Fúxaviðtöl litu hins vegar ekki dagsins ljós af neinni alvöru fyrr en í vikunni þegar nemandi sem rétt skreið gegnum lokapróf í latínu var í sviðsljósinu í einu skemmtilegasta viðtali síðan á gullöldinni. Samspil blaðamanns og viðmælanda var óaðfinnanlegt og gerði viðtalið ógleymanlegt.
Fúx er kannski ekki í virkum orðaforða annarra en sérvitra og rykfallinna MR-inga, en fúx scholae var í hugum nemenda hálfgoðsagnakennd vera, sem útskrifaðist úr Lærða skólanum með lægstu einkunn það árið. Aukastig voru gefin fyrir að útskrifast með slétta fimm komma núll. Það er því aðeins fært í stílinn að segja að viðmælandinn í viðtalinu hafi verið fúx. En það má líka stundum færa í stílinn.
Þegar ég las þetta viðtal, kófsveittur í flugrútu á leiðinni á flugvöllinn við Barselónaborg varð mér hugsað til þess hvað ég lærði eiginlega í MR. Eftir latínunám leit ég íslensku öðrum augum og lærði hana eiginlega upp á nýtt. Gott ef ég get jafnvel enn gert mig sæmilega skiljanlegan á þýsku og leiklistartilburðir Ármanns Jakobssonar þegar hann flutti Njálu fyrir tuttugu manna bekk á efstu hæð í Húsi Krists gleymast seint.
Lífslexíurnar og anekdóturnar, sem skipta kannski mestu máli, komu fæstar úr bókunum en flestar frá hinum goðmögnunum Menntaskólans, kennurunum. Þannig er mér minnisstætt þegar Bragi íslenskukennari minnti á mikilvægi þess að láta ekki sannleikann skemma góða sögu. Þessi lexía stendur mér nærri en skilin bókstaflega er hún það versta sem þú getur innrætt hverjum þeim sem leggur stund á blaðamennsku eða starfar fyrir hagsmunasamtök sem róa öllum árum að því að auka staðreyndadrifna umræðu.
En lexían sem gleymist að kenna er sú að greina á milli hvað er í raun saga og hvað er lífsins alvara. Þannig er ólíklegt að því fylgi verulegur skaði að þú ýkir eigin afrek í gamansömum pistli en leikir þú sama leik í Kastljósviðtali er voðinn vís. Mér verður stundum hugsað til Braga þessi síðustu misseri þegar sannleikurinn virðist ekki skipta alla sem taka þátt í þjóðfélagsumræðu neinu máli. Þegar sannleikurinn á svo mikið undir högg að sækja að blaðamenn leyfa sér ekki einu sinni saklaust grín á 1. apríl, eina daginn sem allir lesendur frétta hafa varann kyrfilega á fyrir falsfréttum, þurfum við að minna okkur á að stundum verðum við að láta sannleikann skemma góða sögu. Því jafnvel þótt sagan, eða málstaðurinn, verði aðeins minna krassandi fyrir vikið er til lítils að kenna allan heimsins fróðleik og vísindi ef lífslexíur og anekdótur ráða för þegar mest á reynir.