„Ástandið hjá mér er skelfilegt og ekkert í stöðunni nema að athuga hvort að einhver geti hjálpað mér.“
Svona hefst færsla Laufeyjar nokkrar í Facebook-hópnum Hjálparhönd þar sem fólk í neyð getur óskað eftir hjálp almennings. Sífellt fleiri færslur birtast þar nú enda versnar ástandið dag frá degi.
Laufey segir í samtali við Mannlíf að hún sjá enga aðra leið greiða en fara þessa leið Hún segist þó skammast sín og biðst undan að koma fram undir fullu nafni. „Venjulega er það ég sem hjálpa öðrum,“ segir Laufey. Hún er í skelfilegri stöðu nú í upphafi mánaðar. Hún gerði þau „mistök“ að vera í hlutastarfi og vera öryrki. Því býðst henni engin aðstoð frá yfirvöldum.
„Þessi mánaðamótin fékk ég 190 þúsund útborgað og bara leigan er 220 þúsund. Þannig að dæmið gengur ekki upp. Ástæðan er að ég er öryrki og var að reyna að vera í hlutastarfi, það var láglaunastarf, en TR metur það sem svo að ég hafi verið of launahá. Ég fæ 152 þúsund frá þeim fram yfir áramót og svo fæ ég 35 þúsund úr lífeyrissjóð,“ segir Laufey.
Hún hafi þó þurft að hætta nýlega. „En ég varð að hætta að vinna vegna þess að ég hafði ekki heilsu í það, líkaminn er bara búinn. Fyrir utan leigu er mjög mikilvægt fyrir mig að borga lyfin mín en þau kosta níu þúsund á mánuði í lyfjaskömmtun. Ég er 60 ára og bý ein, ég er með sykursýki og er mjög mikilvægt að ég borði reglulega og ég má ekki borða hvað sem er,“ segir Laufey.
Hún segist hafa lent á milli skips og bryggju hvað varðar aðstoð ríkisins. „Ég fæ ekki húsaleigubætur því ég er búin að vera of „launahá“ og fæ ekki aðstoð hjá hjálparstofnunum af sömu ástæðu,“ segir Laufey.
Þeir sem vilja aðstoða Laufey geta lagt inn á bankabók hennar hér fyrir neðan.
0314-13-146007 KT 161060-3569