Sjö þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks.
Með tillögunni er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks.
Flutningsmenn tillögunnar eru Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.
Tilgangur launasjóðsins yrði að skapa afreksíþróttafólki í landinu fjárhagslegan grundvöll til iðkunar á íþrótt sinni.
Í tillögunni segir að horfa mætti til launasjóðs stórmeistara í skák og launasjóða listamanna, þar sem starfslaun eru greidd umsækjendum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
„Með því að greiða afreksíþróttafólki starfslaun aukast réttindi og öryggi þess. Mikilvægt er að við undirbúning og við útfærslu starfslaunasjóðs afreksíþróttafólks verði unnið náið með Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sveitarfélögunum,“ segir í tillögunni.
Áratug á eftir jafnöldrum sínum
Umræða um réttindi og aðbúnað íþróttamanna hefur verið hávær í samfélaginu að undanförnu. Hópur íþróttamanna afhenti í desember Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra áskorun um að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks.
Mannlíf ræddi fyrr í mánuðinum við þrjá íslenska afreksíþróttamenn í einstaklingsgreinum, sem hafa þurft að fóta sig í samfélaginu í nýju hlutverki eftir farsælan íþróttaferil. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa rekið sig á hindranir sem eru beinar afleiðingar íþróttaferils þeirra, sérstaklega hvað varðar réttindi sem launafólki þykja sjálfsögð. Þar má nefna rétt til fæðingarorlofs, lífeyrisréttindi og réttindi sem fylgja stéttafélagsaðild.
Íþróttamennirnir sem Mannlíf ræddi við eru Hrafnhildur Lúthersdóttir, afrekskona í sundi og tvöfaldur Ólympíufari Þormóður Árni Jónsson júdókappi og Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona.
Þau lýstu öll þeirri upplifun að vera áratug á eftir jafnöldrum sínum, hvað áunnin réttindi og starfsframa varðar, nú þegar ferillinn er á enda.
Sjá einnig: Ragna um fjárhagsáhyggjurnar eftir að ferlinum lauk: „Þetta var sárt, eftir allt sem maður lagði á sig“