Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„LEGO er frábær leið til að tengjast og skemmtilegt áhugamál“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Oddur Eysteinn Friðriksson állistamaður er einn helsti áhugamaður á Íslandi um LEGO og heldur úti Facebook-hópi um áhugamálið. Hann segir aðdáendur vera á öllum aldri, enda einblíni fyrirtækið á hönnun fyrir fullorðna og safnara en ekki bara börn. Helsti bandamaður í söfnun Odds er tengdafaðir hans.

„Ég stofnaði hópinn Áhugafólk um LEGO á Íslandi fyrir fimm árum eftir að hafa leitað að sambærilegum hópi á Facebook en ekki fundið neinn. Mér fannst vanta vettvang fyrir unga sem aldna LEGO-aðdáendur til að kaupa, selja, deila myndum og fréttum af því nýjasta sem væri að gerast hjá LEGO,“ segir Oddur.

LEGO-fyrirtækið hefur á síðustu árum sett meiri fókus á hönnun fyrir fullorðna og safnara, sem gerir það að verkum að aðdáendur eru á öllum aldri, að sögn Odds. „Fullorðnir sækja nú í settin sem aldrei fyrr bæði vegna þess skemmtanagildis sem felst í því að setja þau saman og einnig söfnunina. LEGO fyrir fullorðna er ekkert ósvipað æðinu þegar litabækur fyrir fullorðna komu út,“ segir Oddur.

Oddur Eysteinn Friðriksson heldur úti Facebook-hópi áhugafólks á Íslandi um LEGO.

Lego er gátt til fortíðar

„Við elskum að detta í barndóminn og upplifa ánægjutilfinningar sem við áttum þegar við vorum yngri. LEGO hefur reynst mörgum gátt aftur til fortíðar. Það gefur fólki líka meira frelsi að hlutir séu hannaðir fyrir fullorðna. Nördismi hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og fleiri komið út úr nördaskápnum. Maður sér það á hópnum sem hefur vaxið með hverju ári og telur nú 1.300 manns,“ segir Oddur, sem segir LEGO hafa verið vinsælasta leikfangið á heimilinu þegar hann var krakki.

„Ég á skemmtilegar minningar af því að byggja LEGO sjóræningjaskip með föður mínum heitnum. Í þá daga var maður annaðhvort LEGO- eða Playmo-safnari.“

- Auglýsing -

Star Wars er í uppáhaldi

Oddur á sjálfur langmest af Star Wars LEGO-köllum, eða 233 talsins, sem hann hefur sankað að sér síðustu fimm árin. Kallanna hefur hann getað keypt á sölusíðum, eignast sett og jafnvel fengið gefins. „Ég veit ekki hvers virði safnið er en það hlýtur að hlaupa á tugum, ef ekki hundruðum þúsunda. Dýrasti kallinn sem ég á er um það bil 15 þúsund króna virði.“

En hvað finnst fjölskyldunni um áhugamálið?

- Auglýsing -

„Eftir að ég kynntist kærustunni minni, Ólöfu Þóru Sverrisdóttur, hefur hópurinn tekið flug. Það tók smátíma að koma henni inn í áhugamálið en hún er mjög virk í dag. Það mætti segja að við séum LPC, eða „LEGO Power Couple.“ Hún á gott safn af LEGO-köllum, og síðasta settið sem hún byggði var eftir Friends-þáttunum,“ segir Oddur.

Oddur er búinn að koma kærustunni Ólöfu Þóru inn í LEGO áhugamálið.

„Minn helsti bandamaður í söfnun á LEGO-köllum er þó tengdapabbi, Sverrir Þórarinn Sverrisson. Safnið hans hefur margfaldast á þessu ári, en hann safnar mest Simpsons-köllum. Bart Simpson á hjólabretti er nýjasti kallinn. Þetta er frábær leið til að tengjast og skemmtilegt áhugamál. Við vorum einmitt að ræða mögulegt verkefni fyrir sumarið, að smíða hillur sem myndu henta fyrir LEGO-kallasöfn,“ segir Oddur og bætir við í gamansömum tón: „Áður en maður veit af verða allir pakkar til allra frá öllum undir jólatréinu orðnir LEGO!“

„LEGO hefur reynst mörgum gátt aftur til fortíðar.“

Hvað er skemmtilegast við að kubba?

„Ég persónulega hef gaman af því að setja saman settin, koma köllunum fyrir í safninu og svo sel ég settin án kallanna aftur frá mér. Þannig næ ég að fjármagna áhugamálið og stækka safnið. Auðvitað fá krakkarnir líka sitt eigið LEGO og jújú krakkarnir fá stundum að fikta í mínu,“ segir Oddur.

Ýmir Kaldi með LEGO.
Bræðurnir Ýmir Kaldi og Þrymur Blær að kubba.

Hann býður alla nýja meðlimi velkomna í Facebook-hópinn Áhugafólk um LEGO á Íslandi. „Hópurinn er frábær hópur fólks á öllum aldri, samheldinn og vinalegur. Öllum nýjum meðlimum er vel tekið og persónulega finnst mér alltaf skemmtilegast að sjá söfn annarra,“ segir Oddur.

„Ég á langt í land að eiga stærsta LEGO-safn Íslands, en fólk má endilega hafa mig í huga ef það finnur Star Wars LEGO-kalla í geymslunni og vill losa sig við.“

Hluti af safni Odds

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -