Í síðustu verðkönnun er snéri að verði á húðvörum hjá Hagkaup og Fjarðarkaupum kom í ljós að röng verðmerking hafði verið sett við eina af vörunum sem athugaðar voru hjá Fjarðarkaupum. Varan sem um ræðir er Nip & Fab charcoal hreinsir 145 ml og var verðið á honum samkvæmt hillumiða 1.598 krónur en rétt er að verðið er 2.388 krónur. Hér má sjá verðkönnunina í heild sinni.
Því er alls ekki tæplega 63 prósent verðmunur á vörunni heldur tæplega 9 prósent.
Mannlífi barst ábending um ranga verðmerkingu hjá Fjarðarkaupum og auðvitað var brugðist hratt og örugglega við því að leiðrétta málið. Hér að neðan fylgir mynd sem blaðamaður tók í Fjarðarkaup við gerð verðkönnunar sem reyndist svo rangur.
Staðfesting á verði
Þegar blaðamaður var að vinna úr gögnunum fyrir verðkönnunina, hjó hún eftir þeim gríðarlega verðmun sem kom fram á áður nefndri vöru. Blaðamaður skoðaði aftur mynd af vörunni sem er hér að neðan en lét ekki þar við sitja heldur hringdi í Fjarðarkaup til þess að fá staðfestingu á því að um rétt verð væri að ræða og það var staðfest að verðið væri 1.598 krónur. Líklega hefur sá sem svaraði kíkt á hillumiða sem sannarlega segir að verðið sé 1.598 krónur.
Röng merking enn uppi
Mannlíf hringdi í Fjarðarkaup og byrjaði á því að fá uppgefið hilluverð einn ganginn enn, sem var sagt 1.598 krónur svo merkingar eru enn rangar hjá versluninni. Í kjölfarið óskaði blaðamaður eftir sambandi við verslunarstjóra vegna málsins og tjáði honum það að verðið væri rangt og að neytendur borga 2.388 krónur á kassa en ekki 1.598 krónur. Tekið skal fram að blaðamaður tók myndir af vörum í versluninni þann 5. júní eða fyrir 24 dögum síðan. Það er því alvarlegt mál að varan skuli hafa allan þennan tíma verið merkt vitlaust en neytendur greitt mun hærra verð á kassa.
Neytendur verða að vera á varðbergi
Þetta sýnir að það borgar sig að fylgjast með verðinu á strimlinum eða þegar neytendur skanna sjálfir inn vöruna á sjálfsafgeiðslukassa. Þetta er því miður allt of algengt og því miður taka viðskiptavinir yfirleitt ekki eftir þessu. Þetta þykir mjög vafasamt og ekki til fyrirmyndar. Mannlíf hvetur neytendur um að láta vita ef þeir verða varir við rangar verðmerkingar því einungis þannig geta þeir veitt aðhald.
Rétt skal vera rétt svo þetta leiðréttist hér með og Mannlíf biður Hagkaup afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.