Gísli Rafn Ólafsson býr í Kigali í Rúanda og starfar fyrir stór hjálparsamtök sem styðja bændur við að losna úr viðjum fátæktar. Hann segir að þar hafi svipuðum aðferðum verið beitt í baráttunni gegn COVID-19 og á Íslandi og gengið vel.
„Hér eru hlutir á nokkuð góðu róli enda vel haldið utan um þessi mál, ólíkt flestum öðrum ríkjum í Afríku. Rúanda er eitt af fáum löndum í Afríku þar sem fjöldi smitaðra er á niðurleið. Hér var farið eftir sömu hugmyndafræði og á Íslandi; notast við sóttkví, rakningu og einangrun og rétt eins og á Íslandi hefur það gengið upp,“ segir Gísli Rafn, en þetta er ekki fyrsta farsóttin sem hann upplifir í Afríku, því fyrir fimm árum tók hann þátt í aðgerðum gegn ebólufaraldri í Vestur-Afríku og varði þar sex mánuðum í Líberíu, Sierra Leone og Ghana.
Gísli segir að þegar COVID-19 faraldurinn skall á í Rúanda hafi hann og kona hans ákveðið að hún færi til Íslands þar sem þau eiga fimm uppkomin börn. Hann hafi ákveðið að verða eftir, enda mikil vinna fyrir höndum. „Nokkrum dögum seinna, eða um 23. mars, var svo sett á útgöngubann og allar samgöngur, bæði á lofti og landi, stöðvuðust,“ segir hann. „Fólk mátti aðeins fara út í búð, í apótek eða til læknis. Það útgöngubann stóð alveg til 4. maí, en þá var rýmkað um reglurnar og nú er einungis útgöngubann eftir klukkan 20 á kvöldin og til 5 á morgnana.“
Að hans sögn var dálítið einkennilegt að vera meira og minna alveg innandyra í sjö vikur. „En það fór ekki illa um mig, enda rafmagn nokkuð stöðugt hér í Rúanda miðað við önnur lönd í Afríku, netið ágætlega hraðvirkt og vel þróuð smáforrit til þess að fá sendan heim mat frá helstu veitingastöðum borgarinnar. Það er þó ekki hægt að neita því að maður var orðinn dálítið þreyttur á inniverunni, enda fór ég fyrsta morguninn á fætur klukkan 5, fór beint út á vespu og keyrði upp á hæð sem er með gott útsýni yfir Kigali-á og horfði á sólarupprásina sem fékk mann til að gleyma allri inniverunni.“
Mannlíf ræðir við nokkra Íslendinga sem búa erlendis um upplifun þeirra á tímum COVID-19 en næstum fjórir milljarðar, eða meira en helmingur jarðarbúa, hafa sætt einhvers konar útgöngubanni eða takmörkunum á ferða- og samkomufrelsi í 90 löndum á meðan faraldurinn geisar.
Lestu öll viðtölin í helgarblaðinu Mannlíf.