Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Leikdómur: Sex í sveit – „Blessunarleg hlátursprengja nú sem fyrr“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Silja Aðalsteinsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri skrifar á heimasíðu Tímarits Máls og Menningar leikdóm um Sex í sveit sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu laugardaginn 5. október.

Höfundur: Marc Camoletti
Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson
Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson
Leikarar: Haraldur Ari Stefánsson, Jörundur Ragnarsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir
Leikmynd: Petr Hlousek
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir
Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson

Sex í sveit í uppsetningu Borgarleikhússins er blessunarleg hlátursprengja nú sem fyrr. Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri hefur valið vel í hlutverkin, þarna eru leikarar sem víla ekki fyrir sér að halda uppi sturluðu fjöri í hátt í þrjá klukkutíma en fá að vísu vel þeginn matartíma í miðju kafi. Verkið er eignað franska farsaskáldinu Marc Camoletti en eins og Þórhildur Þorleifsdóttir sýnir fram á í nýlegri færslu á Facebook er leikritið sem við sjáum hér og nú – alla vega flest það sem við hlæjum mest að – eftir Gísla Rúnar Jónsson þýðanda og staðfæranda. Það hefur meira að segja verið bætt inn nýjum ferskum bröndurum sem komu áhorfendum svo á óvart í gærkvöldi að þeir köfnuðu næstum því úr hlátri.

Jörundur og Sólveig í hlutverkum sínum.

Benedikt (Jörundur Ragnarsson) er með allt á hreinu: Hann er kominn norður í glæsibústaðinn þeirra hjóna sem er reistur á leifum af sveitabæ með fjósinu undir baðstofunni. Þórunn kona hans (Sólveig Guðmundsdóttir) ætlar til mömmu sinnar á Egilsstöðum og Benni hefur boðið flottu hjákonunni sinni norður, fyrirsætunni Sóleyju (Vala Kristín Eiríksdóttir). Til að gera meira úr skemmtuninni hefur hann líka boðið Ragnari vini sínum (Sigurður Þór Óskarsson) sem má auðvitað taka með sér eina gellu ef hann vill, og til að vera flottur á því hefur Benni pantað kokk frá Saxbautanum á Akhureyri til að elda lúxúsmat handa þeim. Hljómar fullkomið.

En Þórunn steinhættir við að fara þegar hún fréttir að Ragnar sé á leiðinni því þau hafa verið að krunka saman. Hún sýkir mömmu sína umsvifalaust af inflúensu og um leið er áætlun Benna ónýt. Þegar hjónin fara að kaupa í matinn brýnir Benni fyrir Ragnari að setja Sóleyju inn í málin af því að þau verði að þykjast vera par til að blekkja Þórunni. Ragnar hlýðir auðvitað en stúlkan sem kemur fyrst í hús er alls ekki Sóley heldur harðmælti kokkurinn Sólveig (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) sem skilur ekkert í því hvers vegna henni er ætlað að vera kærasta einhvers! Þegar svo Sóleyjarpæjan kemur er ekkert hlutverk eftir handa henni í vitleysunni nema kokksins – og kann hún að elda? Þið megið giska.

- Auglýsing -

En bíðið við, þetta eru bara fimm persónur. Enda er von á einum enn undir lok kvölds, nefnilega eiginmanni Sólveigar, Benóný (Haraldur Ari Stefánsson), sem kemur til að sækhja konu sína. Þá kemst allt upp en það gerir ekkert til lengur. Og endirinn sendir mann glaðan út í nóttina.

Hér er allt sem þarf í brjálaðan skemmtileik og hann er líka algert drep. Kannski tóku þau aðeins of mikið út af orkubankanum, Jörundur og Sólveig, á fyrsta hálftímanum, maður vissi ekki alveg hvernig þau ætluðu að halda út á þessum hraða allt kvöldið. En Sigurður Þór sló strax á æsinginn með því að dæsa yfir flóknum fyrirmælum Benna og taka þreytulega um höfuð sér og Vala Kristín og Katrín Halldóra voru alveg pollrólegar þó að kröfurnar til þeirra væru gersamlega stjórnlausar. Það var sönn nautn að fylgjast með þeim báðum vinda sig inn og út úr hringleik blekkinganna.

Leikmynd Petrs Hloušek er hárrétt. Opið rými með fimm útgönguleiðum, fernum dyrum og einum stiga upp á efri hæð. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur hæfa týpunum vel. Þórunn er einkar kvenleg og svolítið miðaldra miðað við glæsigelluna Sóleyju sem er fullir tveir metrar á hæð í upphækkuðu skónum sínum, þráðmjó og geislandi. Benedikt reynir sitt besta til að samsvara henni frekar en eiginkonunni í tauinu, streitist við að yngja sig, en Ragnar er í slökum sumarbústaðastíl. Akureyringarnir eru svo sér á báti enda töff týpur og mótorhjólakappar. Hljóðstjórnin er flókin vegna afskipta herra Google en Þorbjörn Steingrímsson sigrar í þeirri baráttu. Og lýsinguna sjá þeir herra Google og Þórður Orri Pétursson um og má ekki á milli sjá hvor er snjallari!

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -