Útskrift flugfreyja hjá Icelandair fór fram í vikunni. Meðal þeirra sem útskrifuðust voru leikkonurnar María Heba Þorkelsdóttir og Laufey Elíasdóttir og mega því flugfarþegar búast við því að njóta flugsins með þessum tveimur kjarnakonum í nánustu framtíð.
María Heba er ein ástsælasta gamanleikkona ársins og hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló. María er hins vegar líka mjög slungin dramaleikkona, eins og þekkt er með gamanleikara, og hefur til að mynda leikið í sjónvarpsþáttunum Föngum, Pressu og Hamrinum sem og kvikmyndinni Eiðum.
Laufey er hluti af leikhópnum RaTaTam sem setti síðast upp verkið Ahh… sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Þá ættu kvikmyndahúsagestir einnig að kannast við hana úr kvikmyndunum Brúðguminn, Desember og Vonarstræti.
Þær María Heba og Laufey eru langt því frá að vera fyrstu leikkonurnar til að bregða sér í hlutverk flugfreyja þar sem landsþekktar listakonur hafa áður látið ljós sitt skína í háloftunum, þar á meðal Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Heiða Ólafsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir.
Aðalmynd / Leikkonan María Heba / Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir