Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að loka húsnæði leikskólans Efstahjalla í Kópavogi frá og með morgundeginum, og er það vegna myglu og rakaskemmda sem komið hafa í ljós í skólanum.
Í tilkynningu frá skólanum segir að „starfsemi skólans fellur niður í tvo daga meðan unnið er að endurskipulagningu. Þegar hefur verið hafist handa við að útvega starfseminni annað húsnæði.“
90 börn dvelja í leikskólanum og er hann fimm deilda. Ekki er vitað til þess að börn eða starfsmenn hafi veikst vegna myglunnar.
Mikil óvissa ríkir um hvenær skólinn komist í bráðabirgðarhúsnæði og eru foreldrar og forráðamenn barnanna þar áhyggjufull sem og starfsmenn skólans.