Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Leikstýrir fyrstu sjónvarpsmyndinni 74 ára gömul

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjónvarpsmyndin Sveinsstykki verður frumsýnd á RÚV að kvöldi annars páskadags. Myndin byggir á samnefndu leikriti Þorvalds Þorsteinssonar, Arnar Jónsson leikur eina hlutverkið, Svein, og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir. Þetta er í fyrsta sinn sem Þórhildur leikstýrir sjónvarpsmynd og hún hefur ekki leikstýrt kvikmynd síðan hún leikstýrði hinni geysivinsælu mynd Stella í orlofi árið 1986. Er hún að hasla sér völl á nýjum vettvangi 75 ára gömul?

„Ég veit það nú ekki,“ segir Þórhildur og hlær þegar ég ber þessa spurningu upp við hana. „Þetta var að frumkvæði Egils Eðvarðssonar upptökustjóra og okkur Arnari leist vel á hugmyndina þannig að við lögðum hana fyrir Skarphéðin Guðmundsson, dagskrárstjóra Sjónvarpsins, sem ákvað að gera þessa mynd.“

Þórhildur og Egill Eðvarðsson skrifuðu sjónvarpsgerð leikritsins í sameiningu en uppruni leikritsins var hugmynd sonar þeirra Þórhildar og Arnars, Þorleifs Arnar leikstjóra, árið 2003.

„Það er svo sem engin ofsaleg eftirspurn eftir fullorðnu fólki, en við erum alltaf til í slaginn ef einhver leitar eftir því.“

„Þorleifur Örn talaði við Þorvald og bað hann að skrifa verk fyrir Arnar vegna fjörutíu ára leikafmælis hans og sextíu ára afmælis,“ útskýrir Þórhildur. „Það var svo sýnt í Reykjavík undir leikstjórn Þorleifs á þeim tímamótum og tíu árum seinna ákváðum við að halda aftur upp á afmæli Arnars með því að sýna verkið aftur og þá setti ég það upp en ekki Þorvaldur og það er sú sýning sem liggur þessari sjónvarpsgerð til grundvallar.“

Voldugasta verk Þorvaldar

Spurð hvort verkið tali sérstaklega sterkt til þeirra hjónanna, slettir Þórhildur í góm og hugsar sig um smá stund.

- Auglýsing -

„Ég veit ekki hvort það talar eitthvað sérstaklega til okkar persónulega,“ segir hún. „En þetta er ofsalega flott verk og vel skrifað og að mínu áliti voldugasta verk Þorvaldar, eitt af þessum verkum sem getur talað til fólks hvar sem er og hvenær sem er.“

Titilpersóna verksins, Sveinn, er að halda upp á afmælið sitt og hefur skrifað ræðu til að flytja í afmælisveislunni sem haldin er í matsal fyrirtækisins sem hann hefur unnið hjá áratugum saman, S. S. Eyfjörð, nafn sem Þórhildur segir ansi auðvelt fyrir þá sem eitthvað vita að lesa í. Við lestur ræðunnar ryðjast ýmsar minningar farm í huga Sveins og eru ekki allar í samræmi við það sem hann hefur skrifað í ræðuna. Þórhildur segir verkið fjalla um mann sem horfist í fyrsta sinn í augu við sjálfan sig og hvernig lífi hann hefur lifað.

„Það lýsir afskaplega tragískum manni sem aldrei hefur horfst í augu við eigin ágalla og afleiðingar þeirra og þar af leiðandi aldrei getað bætt neitt eða gert neitt betur,“ segir Þórhildur. „Þannig að það kraumar ýmislegt undir þótt á yfirborðinu sé líf hans slétt og fellt.“

- Auglýsing -

Engin ofsaleg eftirspurn eftir fullorðnu fólki

Samstarf þeirra Þórhildar og Arnars hefur staðið í áratugi, bæði innan leikhúss og utan, þótt minna hafi borðið á þeim í leiklistinni undanfarin ár. Eru þau sest í helgan stein?

„Ekki alveg,“ segir Þórhildur og hlær. „Það er svo sem engin ofsaleg eftirspurn eftir fullorðnu fólki, en við erum alltaf til í slaginn ef einhver leitar eftir því. Arnar hefur til dæmis verið að lesa heilmikið fyrir Storytel og fleiri og lék í uppsetningu Þjóðleikhússins á Útsendingu áður en sýningar féllu niður vegna sammkomubannsins. Og ég setti upp sýningu fyrir Söngskólann í vetur, þannig að það er svona ýmislegt sem til fellur, þótt það hafi kannski verið mun minna en við hefðum bæði kosið.“

Spurð hvort hún sé með einhver verkefni í siktinu eins og er segir Þórhildur að það sé ýmislegt í pípunum, en hún hafi þá reglu að ræða aldrei um fyrirhuguð verkefni fyrr en allt sé klappað og klárt og öruggt að úr þeim verði.

Sveinsstykki verður, eins og áður sagði, frumsýnt á RÚV á mánudagskvöldið, verður það sýnt víðar? Hafa til dæmis norrænu sjónvarpsstöðvarnar keypt það til sýningar?

„Það veit ég ekkert um,“ segir Þórhildur snögg upp á lagið. „Mínu hlutverki er lokið og ég mun bara sjá það í sjónvarpinu eins og þið hin og horfa á hann Svein okkar eins og við köllum hann gjarnan í fjölskyldunni. Hann er eiginlega orðinn heimilisvinur og sest ansi vel að í manni og hefur áhrif á mann.“

„Ætli Hollywood verði ekki bara næst“

Þórhildur segist hafa haft mjög gaman að því að vinna í Sjónvarpinu, þar sé gott fagfólk sem gaman sé að vinna með. Sérstaklega Egill Eðvarðsson, en þau eigi sér reyndar langa samstarfssögu og hafi þekkst síðan þau voru ung.

„Við Egill höfum unnið ansi mikið saman,“ útskýrir hún. „Það hafa verið teknar upp mjög margar óperur sem ég hef leikstýrt og Egill hefur oft stjórnað upptökunum. Fyrir utan það að hann var náttúrulega undir, yfir og allt um kring í Sjónvarpinu og ég var mjög mikið þar í ýmsum þáttum, þangað til ég varð of gömul fyrir það líka,“ bætir hún við og skellir upp úr.

Þórhildur hélt upp á 75 ára afmæli sitt á dögunum og það hlýtur að teljast til undantekninga að 74 ára gamalt fólk sé að leikstýra sinni fyrstu sjónvarpsmynd. Er nýr ferill í uppsiglingu á þeim vettvangi?

„Já, já, er það ekki bara? Svo er ég farin að leika í kvikmyndum, hef leikið lítil hlutverk í tveimur sjónvarpsseríum, og grínast með það að nú stefni ég stíft á annan karríer innan kvikmyndaheimsins. Ætli Hollywood verði ekki bara næst,“ segir hún og skellihlær aftur. Það er auðheyrt að hún er ekkert á þeim buxunum að leggja árar í bát þótt árunum fjölgi og það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum hennar á nýju brautinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -