Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Leiktækið L-200

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

L-200 er einkar skemmtilegur pallbíll. Hann er einhvern veginn hæfilegur að flestu leyti. Góð blanda krafts, eyðslu og notagildis. Svo er hann líka fallegasti pallbíllinn á markaðnum í dag.

L-200 kallar á að maður fari út að leika sér. Finni fólk sem þarf aðstoð við að flytja eitthvað, eða finni síðasta skaflinn á suðvesturhorninu að festa sig í.

Áður en lengra er haldið verð ég að koma hreint fram. Ég elska pallbíla. Ekki amerísku drekana sem taka fjögur bílastæði í miðbænum og eyða á við meðalskuttogara, heldur nettari útgáfurnar sem flestar er runnar undan rifjum asískra bílaframleiðanda. Ég var því einkar ánægður með kostinn þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina á móti rísandi sól á Mitsubishi L-200.

Kraftur og praktík
L-200 er heiðarlegur bíll. Þegar inn í hann er komið er innréttingin látlaus enda er hann laus við flestallt prjál. Auðvitað er hægt að fá endalausa aukapakka og auka þannig lúxusinn, en það er eitthvað við bílinn sem kallar á mann að sleppa því. Láta bakkmyndavélina og bluetooth-kerfið nægja og flýta sér bara út úr bænum og í eitthvað drullumall.
Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall, sem fyrr segir, og í bústað.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var. Er ég renndi fram hjá Hveragerði var meðaleyðslan langt fyrir neðan 7L/100 km, sem er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Vel hefur tekist til að kreista sem mest afl úr einungis 2,4 L-vél bílsins og er veskið afar þakklátt fyrir það.

Ég verð samt að taka fram að það er sama með L-200 og flesta pallbíla í hans flokki. Hann er örlítið hastur og fjaðrirnar að aftan hjálpa ekki.

Bakkmyndavélin, auk bluetooth-útvarps og stillihnappa þess í stýrinu, er um það bil eini lúxusinn sem er að finna í L-200. En það þarf ekki meira.

Kostir þess að vera á pallbíl
Á Selfossi komu fjaðarirnar og stífu dempararnir sér hinsvegar afar vel. Það er ekki hægt að vera á pallbíl án þess að nýta pallinn. Gera fólki greiða og flytja allskonar furðulegt dót.
Í þetta skiptið var bónin að flytja um það bil 300 kg af sandi og slatta af gegnvörðum við í sandkassa, bara rétt síðasta spölinn í Grímsnesið. Auðvitað sagði ég já og það er í svona tilvikum sem pallbílar eins og L-200 skína.

Ég var reyndar ekki viss um hvað umboðið sem lánaði mér bílinn til reynsluaksturs myndi segja, en fölskvalaus gleði yngsta sumarbústaðareigandans yfir nýja sandkassanum fyllti mig vissu um að ég hefði tekið rétta ákvörðun.

- Auglýsing -

Leiktækið L-200
Helgin leið og eftir góðan rúnt um sveitina með skyldustoppinu í Friðheimum hélt ég aftur á heiðina heim á leið. Ég ákvað að leggja eina lokalykkju á leið mína upp á reginheiðinni. Ég fann mér vegslóða að fylgja en þar sem leysingar síðustu daga höfðu gert veginn gljúpan og skaflana að krapahindrunum ákvað ég að snúa við eftir fyrsta skaflinn, enda einbíla.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var.

En auðvitað þurfti ég aðeins að spólast í krapaskaflinum til að sjá hvort ég næði ekki góðum myndum af bílnum í alltumlykjandi þokunni. Að sjálfsögðu festi ég mig auðvitað í asnaskapnum, þurfti að hlaupa upp á veg og veifa næsta bíl. Þar voru á ferð heiðurshjón á besta aldri sem skemmtu sér konunglega yfir því að losa kokhrausta bílablaðamanninn á nýja bílnum í miðjum reynsluakstri. Höfðu þau á orði að það þyrfti fólk á eftirlaunum á bíl á eftirlaunum til að bjarga mér.
En þannig er að vera á pallbíl. Maður lendir í alls konar ævintýrum og kynnist alls konar skemmtilegu fólki. Það er eitthvað frelsi fólgið í því og einhver undarleg framkvæmdagleði sem fylgir því.
Ef á annað borð er verið að velta fyrir sér að festa kaup á pallbíl er L-200 á lista þeirra bíla sem þú ættir ef til vill að skoða fyrst.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -