Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Leitt að vera leiksoppur í refskák

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef það gott en mér var rosalega brugðið. Þessu átti ég alls ekki von á og mér finnst það rosalega leitt að vera leiksoppur í svona refskák,“ segir Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur hjá SÁÁ, þegar hún er spurð um líðan sína eftir að hafa nýlega verið sagt upp starfi sínu. Hún segist gífurlega ánægð með meðbyrinn síðustu daga og segir augljóst að mjög margir vilji halda í sem bestu þjónustu fyrir fólk með fíknisjúkdóma.

Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur hjá SÁÁ, var nýlega sagt upp starfi.

Kerfisvilla

Ingunn segir sálfræðinga því miður hafa átt stundum erfitt uppdráttar innan heilbrigðisstofnanna þar sem margar fagstéttir koma saman. Sem betur fer séu viðhorfin að breytast. „Þetta kalla ég einfaldlega kerfisvillu, að nýta ekki fagþekkingu sálfræðinga í heilbrigðisþjónustu í miklu meiri mæli en gert er í dag. Við teljum okkur vera grunnstoð í heilbrigðiskerfinu á SÁÁ og sálfræðiþjónustan hefur of lengi þurft að dúsa úti í horni,“ segir Ingunn og leggur áherslu á að það sé krafa samfélagsins að heilbrigðismeðferðir séu færðar í nútímalegt horf með þverfaglegum teymum.

Sjá einnig: Dropinn sem fyllti mælinn

„Við vorum á fleygiferð í því að breyta hlutunum til enn betri vegar. Það er alltaf hægt að bæta og við höfum verið eins og ferskir vindar inn í þessa starfsemi. Mergur málsins er bara sá að framkvæmdastjórn SÁÁ hefur verið að grípa fram fyrir hendurnar á Valgerði, meðal annars með ákvörðun sinni um hvaða stétt það er sem eigi að koma að meðferðinni. Það er vandamálið og togsteitan í hnotskurn. Það er ekki hægt að taka ákvarðanir með þessum hætti.“

„Mergur málsins er bara sá að framkvæmdastjórn SÁÁ hefur verið að grípa fram fyrir hendurnar á Valgerði.“

Óttast breytingar

- Auglýsing -

Aðspurð telur Ingunn deilurnar nú snúa að því að hinir eldri óttist breytingar og það sem hún kallar ferska vinda. Hún bendir á að það hafi einmitt verið Þórarinn sem réði hana til starfa en fyrir einhverja hluta sakir hafi hann breytt um skoðun á leiðinni.

„Það er alltaf erfitt að stíga inn í breytingar og fólk er oft tortryggið þegar gera á hluti með breyttum hætti. Það má segja að hinir eldri séu hræddir við ferska vinda. Þórarinn treysti mér fyrir þessu í upphafi en síðan hefur það verið alveg ljóst að honum hefur ekki fundist þetta vera leiðin í rétta átt. Hann hafði væntingar um að hlutirnir eða áherslur yrðu öðruvísi,“ segir Ingunn og viðurkennir að hún hafi þurft að sæta ítrekuðum aðfinnslum Þórarins undanfarin misseri. Hún veltir fyrir sér hvort þessar deilur séu mögulega tilkomnar vegna þess að karlar upplifi ógn af sterku kvennateymi stjórnenda Vogs. „Ég held að það sé hluti af vandamálinu. Það hefur alltaf verið unnið gott starf hjá SÁÁ en núna voru komnir nýir stjórnendur sem hafa viljað þróa hluti áfram í góða átt með hagsmuni fíknisjúklinga að leiðarljósi. Okkar heitasta ósk er að fá starfsfrið til þess.“

Úti í miðri á

- Auglýsing -

Innan SÁÁ hefur verið boðið upp á þriggja ára starfsnám vímuefnaráðgjafa og því starfi hefur Ingunn stýrt. Hún segir námið nú í uppnámi ásamt sálfræðiþjónustu til barna og aðstandenda fíknisjúklinga. „Það er nú fólk í miðju námi sem ekki veit hvað gerist næst og er statt úti í miðri á. Þarna höfum við sálfræðingarnir komið mikið að málum í námi og fræðslu,“ segir Ingunn sem vonast til að framkvæmdastjórn SÁÁ sjái að sér fljótlega.

„Það er augljóslega verið að reyna koma höggi á Valgerði og mér finnst það ekki góð stjórnun að segja upp einum af yfirmönnum faglegrar meðferðar á svona krísustundu. Ég skil að það vanti peninga en þetta er bara gert til að grafa undan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -