Ólafía Kvaran stóð sig frábærlega í hindrunarhlaupum á alþjóðlegum vettvangi á síðasta ári og varð til dæmis fjórða í sínum aldursflokki á síðasta heimsmeistaramóti í Spartan-hlaupi. Ólafía prýðir forsíðu Mannlífs sem kemur út í fyrramálið.
„Árið 2017 bauðst mér og tveimur vinum mínum sem ég hef æft með í mörg ár að koma og keppa á heimsmeistaramóti í Spartan-hlaupi í Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Ég held að við höfum verið valin af því að sú sem forsvarsmenn Spartan töluðu við til að fá íslenska þátttakendur þekkti okkur öll og hafði æft með okkur, þannig að þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap.
En allavega mættum við þarna til Lake Tahoe alveg blaut á bak við eyrun. Höfðum aldrei farið í Spartan-hlaup og höfðum ekki einu sinni vitað af þessu hlaupi fyrr en fjórum til fimm vikum áður en mótið hófst. Þetta var samt sjúklega spennandi og gaman og við kepptum í tvo daga. Annan daginn hlupum við sem einstaklingar einhverja 29 kílómetra í fjöllunum þarna og yfir fullt af hindrunum. Seinni daginn kepptum við fyrir hönd Íslands í liðakeppni.
Þannig að þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap.
Svo kom maður í mark, hafði aldrei gert þetta áður, en var samt samkeppnishæfur við hitt fólkið sem hafði gert þetta árum saman og var búið að vinna sér inn rétt til þátttöku á heimsmeistaramóti. Þarna kviknaði einhver neisti og ég fann að ég vildi gera meira af þessu þannig að fljótlega eftir þetta fór ég að tala um að fara að æfa Spartan-hlaup og reyna að komast á fleiri mót. Þetta var svo skemmtilegt.“
Ólafía skráði sig í Spartan-hlaup í Boston í mars og gekk svo vel að hún fann að ekki varð aftur snúið.
„Ég endaði þarna í þriðja sæti í mínum aldursflokki og vann mér þar með inn rétt til að taka þátt í meistarakeppni Norður-Ameríku í ágúst. Þannig að ég var strax komin með annað hlaup til þess að stefna að. Það var í lok ágúst í West-Virginia og ég var eiginlega ákveðin í því að það yrði síðasta hlaupið sem ég tæki þátt í enda mjög sátt við árangurinn minn að ná inn á þetta mót.
Svo gekk mér bara svo rosalega vel á þessu móti, lenti í fimmta sæti í mínum aldursflokki og með því var ég komin með þátttökurétt á heimsmeistaramótinu, svo það kom auðvitað ekki til greina að hætta þarna,“ segir hún og skellihlær.
Þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi og engin leið að hætta.“
„Heimsmeistaramótið var svo haldið í Lake Tahoe mánuði seinna, í lok september, og þar lenti ég í fjórða sæti í mínum aldursflokki. Þannig að ég er hrikalega ánægð með hvað þetta eina hlaup sem ég ætlaði að prófa þarna í mars hefur leitt mig út í. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi og engin leið að hætta.“
Ítarlegt viðtal er við Ólafíu Kvaran í Mannlífi sem kemur út í fyrramálið.
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme