Ólafur Halldórsson gjörbeytti lífi sínu eftir bakpokaferðalag um Afríku sem endaði með því að hann stofnaði munaðarleysingjaheimili í Kenýa sem hann rekur enn.
Ólafur er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar:
,,Ég hef stundum sagt að ég hafi einfaldlega fengið köllun. Ég átti í raun ekkert val eftir að þessi hugmynd var komin í hausinn á mér. Ég var upphaflega kominn þarna bara til að ferðast og ætlaði að skoða Afríku betur þegar ég fékk gistingu á munaðarleysingjaheimili nálægt Viktoríuvatni.
Ég vaknaði umkringdur vannærðum og illa höldnum börnum allt í kringum mig. Það var einn lítill strákur frá Uganda sem algjörlega töfraði mig og eftir það var ekki aftur snúið. Ég hætti við öll frekari áform um ferðalög og ákvað að nota ferðapeninginn frekar í að reyna að bæta aðbúnað þessarra barna. Svo þegar ég kvaddi gerði ég samkomulag við forstöðumanninn um að ég myndi senda pening í hverjum mánuði sem færi í morgunmat.
En peningurinn myndi bara koma gegn því skilyrði að aldrei yrðu lagðar hendur á börnin, sem er því miður allt of algengt.
Næsta ár kom ég aftur og sá strax að peningurinn var ekki að fara í rétta hluti og meðferðin á börnunum var ekki nógu góð. Þá fann ég að ég yrði að gera eitthvað drastískt í þessu af því að það var ekki val fyrir mig að yfirgefa bara þessi börn án þess að gera neitt í málunum. Ég sagði við sjálfan mig:
,,Ef þú gerir ekkert í þessu skalt þú hundur heita,” segir Ólafur og heldur áfram:
,,Ég náði að fá öll leyfi til þess að stofna munaðarleysingjaheimili sjálfur án þess að múta neinum, sem þykir merkilegt í þessum heimshluta. Ég hef líklega verið í hálfgerðu geðrofi þegar ég ákvað að gera þetta og í raun er ótrúlegt að ég hafi náð að koma þessu í gegn af því að ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Rekstur á munaðarleysingjaheimilum er því miður oft á tíðum bara stór bisness í þriðja heiminum.
Þá er enginn hvati að ná að bæta aðbúnað barnanna eða koma þeim út í lífið. Dæmið gengur bara út á að sýna illa haldin börn og fá reglulegt fjármagn sem fer síðan bara í allt aðra hluti en það sem þeir eiga að fara í.”
Ólafur hefur átt ótrúlegt lífshlaup, sem meðal annars leiddi hann til Marokkó og Pakistan til þess að komast í hreinustu fíkniefni heims á meðan hann var í neyslu:
,,Ég fór á sjóinn mjög ungur eftir að hafa hætt í Hagaskóla og 13-14 ára gamall var ég bara kominn í þann heim. Ég var föðurlaus og sjóararnir voru í raun mín föðurímynd og ég tók við því sem þeir réttu mér. Hvort sem það voru sígaréttur, vískiglas eða annað.Ég byrjaði að drekka 13 ára gamall og fór mjög fljótt að drekka illa. Svo kom hassið inn þegar ég var 14 ára og ég var farinn að sprauta mig 15 ára gamall. Þannig að þetta var mjög hröð þróun sem vatt síðan bara enn frekar upp á sig.
Ég var til skiptis á sjónum eða á flakki um heiminn í áraraðir. Ég veit ekki alveg hverju ég var að leita að, en ég var í það minnsta að leita að góðum fíkniefnum. Þegar ég komst að því að besta hassið væri í Marókkó fór ég þangað í margar ferðir og bjó þar til að vera nálægt besta efninu,” segir Ólafur, sem segir að svo hafi leiðin legið austur á bóginn.
,,Þegar ég fór svo að fara í harðari efni lá leiðin svo austur, fyrst til Indlands, en síðar Burma, Kína og Pakistan. Ég var ópíóðafíkill í mjög mörg ár og í þessum löndum var hægt að fá bestu efnin mjög ódýrt. Fyrir mér var hreinlega ekkert vit í því að vera í neyslu á Íslandi. Bæði mun verri efni, allt of dýr og svo var líka skömm yfir því. Það var auðveldara að vera bara einn af öllum hinum fíklunum í þessum löndum og maður hvarf í fjöldann.”
Ólafur náði á ótrúlegan hátt að komast á beinu brautina eftir áraraðir af mikilli neyslu:
,,Í restina var ég orðin algjör alæta á fíkniefni, hvort sem það var læknadóp eða ólögleg efni og það var versti staðurinn. Á þessum tíma kunni enginn á Íslandi að eiga við fíkla sem voru komnir svona langt. Á endanum komst ég í meðferð í Danmörku, en klúðraði því mjög hratt, en eftir þriðju atrennuna náði ég loksins vopnum sem náðu að koma mér burt frá áfenginu og öllum sterku efnunum. Það tók aðeins lengri tíma að losna við grasið. En líkamlegu fráhvörfin frá öllum þessum efnum voru gríðarleg í mínu tilfelli. Ég var með hausverk og magakrampa meira og minna í heilt ár og ég hélt að það yrði alltaf þannig, en það var samt skárra en ástandið á mér í neyslunni. En smátt og smátt fór ég að lagast. Eitt af því sem hjálpaði mér var trúin og ég tók út mikið af fráhvörfunum með hausinn í jörðinni þar sem ég bað mörgum sinnum á dag.”
Ólafur hefur sem fyrr segir ákveðið að helga líf sitt munaðarleysingjaheimilinu sem er rekið undir nafninu Björt Sýn. Hann segir reksturinn ekki alltaf auðveldan, en einhvern vegin hafist það alltaf:
,,Ég fékk sanngirnisbætur fyrir einhverjum árum vegna slæmrar meðferðar og ofbeldis sem ég sætti sem barn í Landakotsskóla. Það kom sér vel að geta nýtt stóran hluta af þeim í að byggja upp munaðarleysingjaheimilið og var í raun það sem gerði mér kleyft að láta þetta gerast. Mér fannst það táknrænt eftir mína æsku að geta notað þetta fjármagn fyrir börnin í Kenýa. Það hefur tekst núna að búa til betra líf fyrir um 70 börn sem eru þarna núna og það er alveg frábært. Þetta starf hefur gefið mér alvöru tilgang í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef ekki lengur tíma til að vera fastur í eigin rassi daginn út og inn, af því að núna er eitthvað mikilvægara sem þarf að gera.
Það er engin smá gjöf sem ég hef fengið til baka frá þessum börnum. Reksturinn er stundum erfiður frá mánuði til mánaðar, en sem betur fer hefur verið að koma fjármagn úr alls kyns áttum á Íslandi og ég er alltaf jafnþakklátur fyrir það.”
Viðtalið við Ólaf og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á solvitryggva.is.