Lauren Dugas segist alltaf hafa verið í þyngri kantinum á fullorðinsárum, en að þyngdin hafi aldrei angrað hana mikið. Hún fór reglulega í megranir og léttist um nokkur kíló, en bætti þeim alltaf á sig aftur og meira til. Einn morguninn steig hún á vigtina og sá að hún var orðin rúmlega 125 kíló. Þá ákvað hún að gera eitthvað í sínum málum.
„Ég var miður mín. Ég trúði því ekki að ég væri svona þung. Ég vissi að ég þyrfti að gera eitthvað. Ég var aðeins 32ja ára en líf mitt valt á því að léttast. Ég þurfti að temja mér betri matarvenjur og byrja að hreyfa mig til að vera betri fyrirmynd fyrir krakkana mína,“ skrifar Lauren í pistli á vefsíðu Women’s Health.
Lauren fékk sér kort í líkamsrækt og sótti sérstaka tíma þar sem hún fékk bæði æfingar- og matarplan. Hún byrjaði að æfa þann 29. maí í fyrra og segir það hafa tekið mikið á.
„Þá var einblínt á fótaæfingar. Ég gat ekki gengið í viku eftir á. Ég grét á hverjum degi til að byrja með. Sársaukinn sem ég fann var ólýsanlegur,“ skrifar Lauren.
Aldrei verið jafn sterk
Hún fór þó fljótt að sjá árangur.
„Ég missti tvö kíló í fyrstu vikunni og á innan við mánuði var ég búin að léttast um sjö kíló og var búin að grennast um 21 sentímetra. Ég sá móta fyrir vöðvum. Buxurnar mínar urðu víðari. Eftir tvo mánuði var ég búin að léttast um rúm ellefu kíló og eftir fimm og hálfan mánuð var ég 27 kílóum léttari en þegar ég byrjaði,“ skrifar Lauren.
Í dag er hún búin að léttast um 45 kíló en vantar aðeins nokkur kíló uppá að komast í draumaþyngd sína, 77 kíló.
„Ég er 32ja ára og hef aldrei verið svona sterk. Mér finnst handleggsvöðvarnir mínir ótrúlegir. Ég horfi allt öðruvísi á mat núna og nú borða ég til að fá orku. En stoltust er ég af því að kenna börnunum mínum um holla lífshætti. Vonandi þurfa þau ekki að kljást við þyngdina þegar þau verða fullorðin.“
Hættið að búa til afsakanir
Lauren vaknar enn tæplega fimm á morgnana til að fara í ræktina þrisvar í viku. Þá heldur hún sig við mataræðið sem henni var kennt á í upphafi, en í því eru allar mjólkurvörur og salt bannað.
En hvað vill hún segja við aðra í sömu stöðu og hún var fyrir tæpu ári síðan?
„Hættið að búa til afsakanir. Þið getið allt sem þið viljið.“