Gwilym Pugh rak fyrirtæki í fjármálageiranum þegar fjármálahrunið gekk yfir. Hann vann myrkanna á milli, oft heima við, og hafði ekki einu sinni orku til að sinna vinum sínum og fjölskyldu.
Gwilym byrjaði að þyngjast og varð þyngstur tæplega 130 kíló. Hann fékk áfall þegar hann skráði upplýsingarnar sínar inn í tryggingakerfi og sá það svart á hvítu að lífslíkur hans væru minni en meðalmanneskju. Þá ákvað hann að breyta um lífsstíl, eins og hann segir frá í viðtali við tímaritið People.
„Mér fannst ég koma að krossgötum. Annað hvort héldi ég áfram að versna eða ég gerði eitthvað í mínum málum,“ segir Gwilym sem er 33 ára í dag.
Gwilym er nú 84 kíló og segir að það hafi tekið hann fimm til sjö ár að komast á þann stað sem hann er á í dag. Hann segir það hafa hjálpað sér mikið að finna hreyfingu sem hæfði honum.
„Vegna meiðsla á ég erfitt með hreyfingu sem veldur miklu álagi en ég fann æfingar með minna álagi sem eru frábærar að gera fyrir morgunmat,“ segir hann og bætir við að mataræðið skipti líka miklu máli.
„Ég er meðvitaður um það sem ég borða miðað við hvað ég hef hreyft mig yfir daginn og hvað ég er búinn að láta ofan í mig.“
Í miðri lífsstílsbreytingunni ákvað Gwilym að stofna hljómsveit og safna skeggi. Hann stofnaði í kjölfarið Instagram-reikning sem hefur vakið mikla athygli, þar á meðal hjá umboðsskrifstofum. Í dag hefur hann náð að landa fyrirsætuverkefnum hjá GQ og Belstaff og er sendiherra fyrir vörumerkið House 99 á vegum David Beckham.
„Mér hefði aldrei getað dottið í hug að lífið yrði svona. Allar hliðar lífs míns hafa batnað, allt frá líkamlegri og andlegri heilsu til einka- og vinnusambanda,“ segir hann.