Úrskurðarnefnd lögmanna úrskurðaði nýverið að lögmaður, sem nýtur nafnleyndar, hafi svikist um að greiða erfðaskatt vegna dánarbús sem hann hafði umsjón með. Lögmaðurinn var áminntur vegna þessa máls en hann hafði sagt nefndinni ósatt vegna þessa máls og kvaðst hafa greitt umræddan erfðafjárskatt. Morgunblaðið segir frá þessu.
Lögmaðurinn var skipaður skiptastjóri í opinberum skiptum á dánarbúi konunnar í júlímánuði árið 2020. Ágreiningur var milli erfingja í aðdraganda skiptanna og við sjálf skiptin. Deilt var um skiptingu innbús dánarbúsins og þurfti lögmaðurinn að leysa úr því máli. Þá voru eignir í búinu sem þurfti að koma í verð. Þar með talin fasteign í Reykjavík.
Skipti dánarbúsins stóðu yfir í hálft annað ár. Frumvarp til úthlutunar úr búinu var samþykkt á skiptafundi 4. janúar 2022 og síðar staðfest efnislega óbreytt á fundi án athugasemda. Samdægurs sendi lögmaður sem vann fyrir fjóra erfingja, tölvupóst á lögmanninn og vísaði til þess að frumvarpið hafi verið samþykkt án athugasemda fyrr þann dag og óskaði eftir úthlutun til þeirra erfingja sem hann starfaði fyrir.
Vangoldinn erfðafjárskattur
Í janúar 2023 barst erfingjum hinnar látnu innheimtubréf vegna vangoldins erfðafjárskatts. Við skiptalok hafði lögmaðurinn haldið eftir erfðafjárskatti og töldu erfingjar ljóst að lögmaðurinn hafði ekki staðið skil af honum. Í kjölfarið kvartaði afkomandi konunnar til úrskurðarnefndarinnar undan störfum lögmannsins við skipti dánarbúsins og skiptakostnaði sem hann þáði vegna skiptanna auk þess að lista upp kröfur sem hann vildi beina til lögmannsins og nefndarinnar í tengslum við skiptin. Erfingjanum misbauð þegar erfingjum barst innheimtubréf frá Skattinum vegna erfðaskatts sem lögmaðurinn hafði þó dregið af arfshluta erfingjanna við skiptalok ári fyrr en ekki staðið skil á.
Lögmaðurinn sagði ósatt
Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að kvörtunun hafi borist nefndinni janúar 2023 eftir að innheimtubréf vegna vangoldins erfðafjárskatts barst. Í greinargerð lögmannsins til nefndarinnar hélt hann því fram að erfðafjárskatturinn hefði verið greiddur áður en erindið var lagt fyrir nefndina og að hann hafi gert þeim grein fyrir því. Eftir ítrekuð tilmæli til lögmannsins bárust loks gögn sem sýndu að hann skilaði erfðafjárskattinum ekki fyrr en 31. janúar 2023 og hafði þannig sagt nefndinni ósatt.
„Varnaraðili veitti rangar upplýsingar til nefndarinnar sem voru til þess fallnar að villa fyrir nefndinni og hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi þannig bæði vanrækt skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt siðareglum lögmanna og lögmannalögum við skil vörslufjár auk þess að veita nefndinni rangar upplýsingar um málið í kjölfarið. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. Samkvæmt heimildum Mannlífs telur meirihluti úrskurðarnefndarinnar sér ekki vera heimilt að ljóstra upp nöfnum þeirra sem kærðir eru til nefndarinnar.