Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Leyndardómurinn á bak við hönnunina – MIAMI BAR

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á fallegum góðviðrisdegi heimsóttum við nýjan lífsstílsstað í hjarta miðborgarinnar, Miami Bar við Hverfisgötu 33, sem mun verða opnaður von bráðar. Einstök sjón blasti við þegar inn kom, alveg nýtt útlit á stað sem á sér engan líkan. Hönnunin, stíllinn, munirnir, allt nýtt fyrir augað og upplifunin sömuleiðis. Okkur lék forvitni að vita allt um hönnunina, innanstokksmuni og hvaðeina sem fyrir augum bar. Við hittum þá Daníel Frey Atlason og Ivan Svan Corvasce og spjölluðum um tilurð staðarins og hugmyndafræðina sem liggur að baki.

Þeir félagarnir, Ivan Svanur, Gunnsteinn Helgi, einn af eigendum Miami Bar, og Martin Cabejšek, yfirþjónn á Miami Bar, eru afar ánægðir með útkomuna á staðnum og hlakka til að taka á móti gestum.

Daníel Freyr hönnuður er annar stofnenda og eigandi að hönnunarfyrirtækinu Döðlur, sem hannar allt milli himins og jarðar; frá ljósmyndum, myndböndum, auglýsingum, innsetningum á listaverkum, fatnaði, húsgögnum, hönnun á hótelum, hostelum og eru núna að klára að hanna sitt fyrsta verksmiðjuframleidda hús. Nafnið Döðlur kemur frá nöfnunum Daníel og Hörður. Bakgrunnur Daníels og meðeiganda hans Harðar kemur úr auglýsingageiranum. Það sem þeir gera að er að búa til hugmyndir, útfæra þær og hanna og koma þeim í framleiðslu. Starfsfólkið hjá Döðlum er þekkt fyrir að vera duglegt að framkvæma hina ótrúlegustu hluti og koma frjóum og stórum hugmyndum á blað og fara alla leið, það er ekkert sem stoppar þau. Starfsmennirnir hjá Döðlum eru sex talsins.

Hönnunin á Miami Bar er nýjasta afurð Daníels og félaga hjá Döðlum og vel hefur tekist til. Miami Bar, lífsstílsbar, mun verða opnaður á næstunni og lofar góðu. Staðurinn er á tveimur hæðum, fyrsta hæð og kjallari og einkenni staðarins er stíllinn en hann er með sérhönnuðum og sérsmíðuðum húsgögnum. Staðurinn er mjög framúrstefnulegur í módernískum stíl, lögun og stíll húsgagnanna vekur athygli, litirnir, formið, eins konar þrívíddarhönnun, fangar augað. Einnig er þar að finna marga athyglisverða muni og ljósin vekja eftirtekt.

Getur þú, Daníel, sagt okkur frá hönnuninni og hvaðan þið fenguð innblásturinn?

„Í fyrsta lagi þurftum við að taka mið af húsinu, en húsið er í svona póstmódernískum stíl og er frekar umdeilt hús. Í kringum húsið eru byggingar eins og Þjóðleikhúsið, danska sendiráðið, Þjóðmenningarhúsið og ýmsar aðrar opinberar byggingar. Eina húsið sem er skylt þessu húsi er bílastæðahúsið ská á móti sem mér finnst líka fallegt.Við þurftum svolítið að leggja höfuð í bleyti og það passaði ekki að hafa hvað sem er þegar inn er gengið gegnum dyrnar eins og skipulag rýmisins er. Við hefðum aldrei getað gert þarna svona týpískan bar, viðarklæddan með hipster-stemningu eins og margir barir eru. Þá kviknaði sú hugmynd að láta eins og það hafi alltaf verið staður þarna frá svona 1980, 80´s- tímabilið og fylgja því tímabili. Það var sú nálgun sem við tókum í upphafi. Kjallarinn hafði sterkan svip frá Memphis Milanó-tímabilinu sem einnig hafði sterk áhrif á Miami Vice-þættina sem gerðir voru í Bandaríkjunum á sínum tíma. Eigendur staðarins höfðu mikinn áhuga á að horfa til þess að hafa staðinn í Miami Vice anda og 80´s-tímabilið í forgrunni og við unnum út frá því. Við drukkum í okkur Miam Vice-þættina og horfðum á þá til að fá innblástur fyrir hönnunina,“ segir Daníel og brosir.

Hugguleg stemning.

Miami Vice- og Memphis Mílanó-stíllinn í forgrunni

„Þegar Miami Vice-þættirnir voru gerðir urðu ákveðin straumhvörf í amerískri þáttagerð varðandi hönnun og útlit því framleiðendur þeirra tóku þá ákvörðun að gera flottasta sjónvarpsþátt sem gerður hafði verið í Bandaríkjunum og lögðu mikið undir. Yfirhönnuðir þáttanna fóru til Mílanó til að ná sér í hugmyndir. Þar voru ungir hönnuðir að stiga sín fyrstu skref eins og Armani. Þess vegna eru til dæmis aðalleikarnir ekki í sokkum, það kemur fram hönnun frá Armani á þessu tímabili. Tískan þá var að ganga berfættur í skónum, mokkasíurnar voru móðins, tvíhnepptir jakkar og uppbrettar ermar, axlapúðar í tísku og pastellitirnir áberandi. Þetta blandast við Memphis Mílanó-tímabilið, en húsgagnahönnuðir þáttanna tóku inn þennan stíl í þættina með stórkostlegri útkomu. Miami Vice- þættirnir eru innblásnir af Memphis Mílanó-stílnum og kemur það sterkt inn í hönnunina á Miami Bar. Eins og áður sagði þá koma pastellitirnir sterkir inn, formin eru í anda Memphis Mílanó og allur fatnaður starfsfólks á staðnum er í anda Miami Vice-þáttanna og hannaður af okkur. Starfsmenn staðarins ganga í tvíhnepptum blazer-jökkum með axlapúðum, með uppbrettar ermar, brot í buxum og svo má lengi telja.

Brjóstlamparnir eru hannaðir af Studio Job og Venini, sérstaklega fyrir Miami Bar. Studio Job er einn virtasti glerframleiðandi í heiminum.

Sæbláir hlýrabolir koma sterkir inn sem og bleikir stuttermabolir, allt í anda Miami Vice. Gaman er að segja frá því að Don Johnson einn af aðalleikurunum í Miami Vice ætlaði ekki í fyrstu að taka að sér aðalhlutverk vegna þess að honum fannst fötin svo hallærisleg, tveimur árum eftir að þættirnir fóru í loftið þóttist hann hafa fundið upp þennan fatastíl og mæti ávallt klæddur í Miami Vice-stílnum í viðtöl, lét ekki sjá sig í sokkum og bar sig vel í jökkunum með axlapúðunum góðu,“ segir Daníel og hlær.

- Auglýsing -

Daníel og félagar hjá Döðlum sáum um alla hönnun og útfærslu á húsnæðinu, litaval, lýsingu, húsbúnað, fatnað sem og útlit á grafískri hönnun lógó staðarins og vín- og kokteilseðlum hans í samráði við eigendur. Hugmyndafræðin og nálgunin kemur frá eigendum staðarins. Blaðamanni finnst útkoman vægast sagt hin glæsilegasta og telur líklegt að þessi staður eigi engan sér líkan. Daníel segir að staðurinn eigi sér enga fyrirmynd úti í heimi. Hönnunin er þeirra hugarfóstur þar sem óskir eigenda eru hafðar í forgrunni, en þeir vildu hafa staðinn í anda Miami Vice og vilja endurvekja þessa stemningu sem var á 80´s-tímabilinu. „Ætlunin er að koma aftur með kokteilana sem voru á þessum árum og endurvekja upplifunina sem var á 80´s-tímabilinu í nútímaformi,“ segir Daníel.

Módernískur skúlptúr

Listaverkið, myndin, með flamengófuglunum og kvenlíkamanum er einnig nýtt verk hannað fyrir Miami Bar í samstarfi við Döðlur og nýtur sín mjög vel á staðnum.

Módernískur skúlptúr kemur sterkur inn við hönnun staðarins. Barinn vekur strax eftirtekt þegar inn er komið á efri hæðina, sjónhverfing sem verður í kubbunum sem setur sterkan svip á staðinn. Staðurinn er teppalagður með skærgrænu teppi sem mjúkt er að ganga á og sófarnir eru í Memphis Mílanó-stíl, áklæðin mjúk og þægileg og öll form fanga augað.

Gestir geta eignast hluti sem þeir hafa áhuga á

Í kjallaranum er borðtennisstofa sem ber nafnið Ping Pong og er búið að hanna sérspaða og kúlur sem fólk mun geta keypt sér á heimasíðu staðarins. Einnig munu gestir geta keypt það sem þeim líst vel á, á heimasíðu staðarins hvort sem það er húsgagn eða fatnaður. Telja eigendur að staðurinn sé fyrsti sinni tegundar til að vera með sína eigin húsgagna- og fatalínu.

- Auglýsing -

Barinn uppi og barinn niðri ásamt snyrtiborðunum eru smíðuð hérlendis en húsgögnin í Póllandi. Daníel efast að það séu til margir staðir sem innihalda jafnmarga hluti sem hannaðir hafa verið sérstaklega fyrir þá eins og Miami Bar.

Ein sú besta vinnuaðstaða á landinu – Barinn á Miami Bar

Ivan Svan Corvasce er einn af eigendum Miami Bars en Ivan Svanur hefur verið áberandi í veitinga- og næturlífinu í Reykjavík síðustu árin en hann hefur verið barþjónn á mörgum veitingahúsum sem bjóða upp á hágæða kokteila í bland við góðan mat, unninn af ástúð úr hágæða hráefni. Einnig hefur hann tekið þátt í og unnið til verðlauna í keppnum í faginu bæði innanlands sem utan. Hann tók við hinum svokölluðu Eagle Award sem er gefið á hverju ári til ungs barþjóns í Evrópu sem er talinn hafa skarað fram úr hjá Alþjóðasambandi barþjóna.

Vinnuaðstaðan á Miami bar er ein sú besta á landinu að sögn Ivans Svans og hönnuð af honum sjálfum. Ivan Svanur segir að markmið hönnunarinnar sé það að barþjónninn á ekki að þurfa að hreyfa sig mikið og því er allt sem hann notar við höndina. Barinn inniheldur tvær stöðvar með möguleika á þeirri þriðju.

Ping Pong Club.

„Ef tveir til þrír barþjónar eiga að geta gert yfir fimm hundruð kokteila á dag þarf skipulagið og samstarfið á milli þeirra að vera eins nálægt því að vera fullkomið og mögulegt er,“ segir Ivan Svanur. En barþjónar staðarins hafa unnið saman í mörg ár og þekkja stíl og hreyfingar hverra annarra í þaula.

Segðu okkur aðeins frá því sem í boði verður, kokteilunum og öðru skemmtilegu?

„Þegar fyrsta hugmyndin að Miami kom var það strax ljóst hver stefnan í drykkjaframboði staðarins yrði, að gera kokteila sem samsvara þema staðarins, drykki sem allir þekkja og voru á öllum helstu kokteilbörum Miami á níunda áratugnum. Drykkirnir urðu að klassík, gleymdust svo með tímanum og urðu seinna taldir hallærislegir. Við á Miami ákváðum að endurlífga þessa drykki á okkar eigin hátt úr hráefni í hæsta gæðaflokki. Við kynnum því með stolti, klassíska kokteilseðilinn okkar,“ segir Ivan Svanur og brosir breitt.

Sköpunargáfan fær að njóta sín í botn

„Barþjónarnir okkar bjóða einnig upp á „signature“-seðil þar sem sköpunargáfa þeirra fær að njóta sín í botn. Sá seðill breytist þrisvar til fjórum sinnum á ári og breytist þá einnig þema matseðilsins. Ekkert er til sparað í framsetningu á drykkjunum og eru þeir bragðmiklir og krefjandi. Skoða má seðilinn okkar á www.miamihverfisgata.com.

Hvert er leyndarmálið bak við kokteilana ykkar?

„Hráefnið og vinnubrögðin eru leyndarmálið. Það auðveldar manni lífið rosalega mikið að nota hráefni í hæsta gæðaflokki. Hvort sem við erum að tala um ferskt hráefni eins og ávexti, blóm og jurtir, áfeng hráefni eða blöndu af þessu öllu. Allt það hráefni sem við notum er sérvalið af yfirbarþjóninum Martin sem vinnur svo úr þeim þau innihaldsefni sem fara í drykkina. Við stoppum aldrei. Alla daga lítum við yfir lagerinn, líkjörana, safana og sírópin og hugsum hvernig við getum gert betur,“ segir Ivan Svanur og leggur mikla áherslu á hversu miklu máli hráefnið skiptir.

„Vinnubrögð, skipta öllu máli. Þegar góður barþjónn býr til drykk er hann með alla einbeitingu sína á því sem hann er að skapa. Ástríða fyrir sköpun drykkjarins finnst í áferð, bragði og lykt, þó svo að við tökum ekki alltaf eftir því.“

Ivan Svanur er einbeittur, vandar til verka og blandar kokteilana af hjartans list.

Hvaða kokteill er líklegastur til að verða vinsælastur?

„Ég bind miklar vonir við Sex on the Beach. Enda einn hallærislegasti drykkur allra tíma og er það því gott markmið. Að taka eitthvað svo hrikalega hallærislegt og gera það það vel að fólk panti drykkinn sama hvað nafnið á honum er. Svo er hann líka gott dæmi um það hver stefnan okkar er.“

Venjulegur Sex on the Beach inniheldur:

vodka
ferskjulíkjör
appelsínusafa
trönuberjasafa

Í okkar Sex on the Beach á Miami bar er:

vodka
Martini Bianco sem legið hefur með appelsínuberki og rósablöðum
ferskjupúrra
ferskur límónusafi
ferskur ananassafi
húsgert trönuberjasíróp
fersk ferskja
rósavatn

Hver er markhópurinn sem þið eruð að höfða til á Miami Bar?

„Allir eru velkomnir, markmið staðarins er að gleðja fólk. Ein ástæða þess að staðurinn er svona rosalega litríkur er sú að á meðan að fólk er hjá okkur viljum við að það gleymi öllu öðru, lifi algjörlega í núinu og gleðjist með okkur.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -