„Að vera með krakkafréttir er hneyksli í sjálfu sér,“ skrifar meðlimur baráttuhópsins Orkan okkar vegna innslags Krakkafrétta RÚV um þriðja orkupakkann. Hópurinn er samtalsvettvangur andstæðinga EES tilskipunarinnar.
„Hérna hefst forritunin. Herjað á ungar sálir, sem eiga að vera börn í friði,“ segir sami meðlimur en tekur þó fram að innslag Krakkafrétta um orkupakkann sé „frekar hlutlaus, aldrei þessu vant.“ „Eins og í öðrum sósíalistaríkjum þar á meðal Norður-Kóreu, Venesúela byrjar innrætingin á barnsaldri, ekki seinna vænna,“ segir annar. „Sorglegt. Þegar ég var barn þá hafði ég engan áhuga á stjórnmálum bara að leika mér,“ bætir sá þriðji við.
Andlegt ofbeldi sem verður að stöðva
Tilvist Krakkafrétta virðist fara verulega fyrir brjóstið á meðlimum hópsins. „Þetta er nú orðið einum of. Þetta er andlegt ofbeldi sem beinist að æsku landsins og verður að stöðva tafarlaust,“ segir einn meðlimur svo undir er tekið „Nákvæmlega strax.“
Ísland á hraðri kommúnistaleið
„Ísland er á hraðri leið að verða kommúnistaríki,“ segir enn annar notandi. „Já þetta er eins og hvert annað trúboð. Enda hvatinn sá sami – að fá aðra á sitt band.“ er bætt við. „Þetta er einfaldlega gengið allt of langt. Hvers konar áróðursstarfsemi er RÚV eiginlega farið að stunda?“ spyr enn einn meðlimur. „Krakkafréttir… það er enginn vafi á að börn sem horfa á þessa ræpu hafa ekki skilning á orðavali eins og t.d. orðið „innleiðingu“ þvílíkt rugl og þvílíkar predikanir.“
Tímaskekkjan RÚV
Upphafsmaður þráðarins skrifar grein um málið. Honum líst ekki á stöðu tjáningarfrelsis á Vesturlöndum. „Háskólarnir hafa verið að unga í gegnum vinstrisinnaða prófessora sína, Ný Marxisma. Þessir vinstrisinnuðu háskólar, unga út síðan blaðamenn og embættismenn sem vinna hjá hinu opinbera. Þannig hafa hafa þessir forrituðu einstaklingar úr háskólunum, komið sér fyrir á mikilvægum stöðum og náð yfirhöndina í umræðunni,“ segir í greininni. Um RÚV segir hann að stofnunin sé litaða af rétttrúnaði og ný-marxisma. „Það þarf ekki að horfa lengi á fréttir RÚV, til að átta sig á að þarna er haldið uppi ströng rétttrúnaðarstefna vinstrimanna.
Allur fréttaflutningur er afbakaður í anda rétttrúnaðarins. Og ef þeir ná ekki að flytja fréttir í þeirra anda. þá fer ríkisfjölmiðillinn í þöggun. Þá skal málefnið þaggað í hel. Þrátt fyrir að allir samfélagsmiðlar og aðrir fjölmiðlar eru að fjalla um eitthvað tiltekið mál, þá er það hunsað. Og þetta á ekki aðeins við um íslenskar fréttir, heldur stór mál utan úr heimi. Þar sem allir fjölmiðlar heimsins eru að fjalla um málið.“
Krakkafréttir fara yfir orkupakkann
Í innslagi Krakkafrétta um þriðja orkupakkann segir að málið sé umdeilt og mikið fjallað um. „Orkupakkinn er í raun safn af sameiginlegum reglum um þá sem búa til rafmagn og dreifa því til okkar,“ segir í innslaginu. „Reglurnar eru búnar til í Evrópu og eru teknar upp hér á landi vegna þess að Ísland er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu eða EES. Alþingi samþykkti að Ísland yrði hluti af EES og það gekk í gildi árið 1994.“ Krakkafréttir segja fá því að EES sé sameiginlegur markaður þar sem gildi sameiginlegar reglur. Ísland fái undanþágur frá mörgum reglum vegna þess að landið sé eyja. Þar á meðal hluta orkupakkans vegna þess að landið sé ekki tengt inn á rafmagnsmarkað Evrópu. „Þriðji orkupakkinn var svo kynntur fyrir tíu árum, árið 2009, og öll ríki Evrópusambandsins og EES hafa samþykkt alla þrjá pakkana nema Ísland.“
Spurt er hvers vegna Íslandi hafi ekki samþykkt pakkann? „Ísland framleiðir mikið rafmagn. það þykir eftirsóknarvert vegna þess að hér er það búið til á umhverfisvænni hátt en í mörgum löndum. Við fylgjum reglum EES til dæmis með því að láta sum fyrirtæki búa til orkuna og önnur dreifa henni. Í Evrópu má sá sami ekki bæði búa til orkuna og dreifa henni. Við fáum undanþágu frá því sem þýðir að íslenska ríkið má eiga bæði orkuframleiðanda og dreifingu. Það sem er nýtt í þessum pakka og það sem sumir eru á móti er að stofnuð hefur verið sameiginleg stofnun sem heitir ACER. Eitt af hlutverkum hennar er að sjá til þess að farið sé eftir reglunum. Hún á að vera nokkurskonar dómari ef það koma upp deilur á milli ríkja. Sumir eru ósáttir við að ísland heyri undir ACER og segja að reglurnar eigi ekki við okkar aðstæður og Ísland tengist ekki þessum sameiginlega markaði sem hin löndin gera. Þau vilja ekki að þessi stofnun ráði yfir okkur en af því að við tengjumst ekki hinum löndum og getum ekki flutt orkuna okkar yfir til Evrópu þá eiga reglur ACER ekki við um okkur núna.“
Sæstrengur ekki hluti af pakkanum
Krakkafréttir fjalla líka um hugmyndir um að leggja sæstreng. „Sæstrengur er ekki hluti af pakkanum þannig að ef það ætti að leggja hann þyrfti Alþingi að ákveða það sérstaklega.“ Fram kemur að ef sæstrengur verður lagður þá tengist Ísland markaði Evrópu og falli þá sjálfkrafa undir ACER. „Sumir hafa áhyggjur af því að þá værum við búin að gefa öðrum of mikið vald yfir okkur og eru þess vegna á móti því. Þeir sem vilja innleiða þriðja orkupakkann hafa áhyggjur af samstarfi EES ef við tökum ekki þátt. EES er mjög mikilvægt samstarf sem þau vilja ekki stofna í hættu og segja ekki víst hvað verður um það samstarf ef við samþykkjum þetta ekki eins og öll hin löndin.“