Laugardagur 23. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Lifði í stöðugum ótta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

James McDaniel varð fyrir kynferðisofbeldi á stúdentagörðum Háskóla Íslands eftir hrekkjavökupartí haustið 2016. Árásaraðilinn var kvenkynsnemandi við Háskólann sem James hafði farið á nokkur stefnumót við lauslega en þekkti ekki náið.

Það tók James átta daga að komast í samband við rétta aðila innan Háskólans eftir að hann ákvað að tilkynna brotið og niðurstaða Fagráðs háskólans um kynferðislega áreitni og ofbeldi, eftir margra mánaða umfjöllun, var að vísa málinu frá á þeim forsendum að James hefði hvorki verið starfsmaður né nemandi Háskólans þegar meint brot átti sér stað.

James segist hafa upplifað þessa niðurstöðu Fagráðsins sem annað áfall og það hafi leitt til þess að hann hafi ákveðið að hætta námi sínu við Háskólann. Hann þurfti einnig að fá þunglyndislyf í fyrsta sinn á ævinni og segist enn vera að vinna úr afleiðingum árásarinnar og eftirmála hennar.

„Ég var beittur kynferðislegu ofbeldi af konu sem var nemandi við Háskóla Íslands haustið 2016 á stúdentagörðunum,“ útskýrir James.

Ég var virkilega hræddur við þessa manneskju.

„Ég hafði tvisvar áður orðið fyrir kynferðisofbeldi, í bæði skiptin af hálfu karlmanna, en grafið afleiðingarnar og ekki tekist á við þær. Í þetta sinn gat ég það ekki. Kannski var þetta kornið sem fyllti mælinn, eða þá að ég var bara orðinn ófærari um að grafa tilfinningar mínar með árunum. Ég fór að ganga til sálfræðings og í samráði við hann ákvað ég að hafa samband við árásarmanneskjuna á Facebook og reyna að fá hana til að horfast í augu við gerðir sínar. Ég var á þeim tíma að hefja nám í íslensku fyrir útlendinga og þar sem hún var nemandi við skólann vildi ég tryggja að leiðir okkar lægju ekki saman innan veggja hans. Hún brást ekki vel við þegar ég ræddi þetta við hana og viðbrögð hennar hræddu mig og ollu mér næstum enn meiri vanlíðan en árásin sjálf. Ég var virkilega hræddur við þessa manneskju.“

Sagðist geta stoppað umsókn um ríkisborgararétt

Á þessum tíma var James að sækja um íslenskan ríkisborgararétt og hann segir stúlkuna sem beitti hann ofbeldinu hafa sagst hafa sambönd til að koma í veg fyrir að hann fengi hann, þar sem hún væri vel tengd inn í íslenska valdastétt. Það hafi enn aukið á vanlíðan hans og óöryggi.

- Auglýsing -

„Ég óttaðist að hún léti verða af þessum hótunum ef ég færi lengra með málið og lifði í stöðugum ótta við að verða vísað úr landi. Ég veit ekki hvort fólk sem aldrei hefur verið í þeirri stöðu að vera innflytjandi sem beittur er ofbeldi getur skilið þessar tilfinningar, en þessi ótti varð til þess að ég þorði ekki að kæra málið til lögreglunnar, þótt vinir og samstarfsfólk hvettu mig eindregið til þess.

Ég held að mjög margir hér á Íslandi upplifi mikil vanmátt við að reyna að ná fram réttlæti í kynferðisbrotamálum og á þeim tíma bara treysti ég mér ekki í þann slag vegna þess hversu brotinn ég var. Ég ákvað samt að tilkynna árásina til Háskólans, sem tók átta daga, eins og fram kom í fréttum á sínum tíma, og leiddi á endanum ekki til neins. Það upplifði ég eins og annað ofbeldi og bara gat ekki haldið áfram að sækja tíma í skólanum, enda var ég sífellt hræddur um að rekast á árásarmanneskjuna innan stofnunarinnar.“

Eftir árásina og viðbrögð Háskólans við tilkynningunni um hana hefur James unnið að því að koma á fót hóp fyrir fólk sem hefur svipaða reynslu og draumur hans er að koma kennslu um hvað kynferðisofbeldi feli í sér inn í alla skóla landsins.

- Auglýsing -

„Ég held við þurfum að opna umræðuna um samþykki í kynferðismálum,“ segir hann. „Ég vil reyna að koma fólki í skilning um að samþykki nær langt út fyrir kynlífsathöfnina sjálfa, það tengist öllum daglegum samskiptum; milli yfirmanna og undirmanna á vinnustöðum, mili lækna og sjúklinga, milli fólks í þjónustustörfum og viðskiptavina og svo framvegis. Og það snertir okkur öll. Ég opnaði Twitter-reikning í nafni átaksins, ConsentIceland, þar sem fólk sem vill hjálpa við að koma þessari hreyfingu á koppinn getur haft samband og vonandi verður þetta að öflugri hreyfingu á næstu árum.“

„Það slær mig að hver einasta kona sem hefur hjálpað mér hefur sjálf sögu um að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi,“ segir James.

Karlar segja þetta ekki samfélagslegt vandamál

James segir viðbrögð annarra við máli hans um margt hafa komið sér á óvart en það sé þó einkum tvennt sem hann sé mjög hugsi yfir.

„Í fyrsta lagi þá hafa konur verið í algjörum meirihluta þeirra sem hafa stutt mig mest, bæði með því að þýða fyrir mig bréfin til Háskólans, hlusta á mig, trúa mér og veita mér tilfinnningalegan stuðning. En það slær mig að hver einasta kona sem hefur hjálpað mér hefur sjálf sögu um að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi, flestar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ segir James.

Ég hef furðað mig á því að þeir hafa ekki hikað við að hella yfir mig svívirðingum og gera lítið úr reynslu minni.

„Hitt atriðið sem hefur sjokkerað mig dálítið eru viðbrögð karlmanna sem hafa tjáð sig um málið við mig. Ég hef furðað mig á því að þeir hafa ekki hikað við að hella yfir mig svívirðingum og gera lítið úr reynslu minni. Einn maður sagði hreint út að hann liti bara á reynslu mína eins og reynslu alkóhólista af áfengi; þótt ég hefði slæma reynslu af kynlífi þýddi það ekki að það væri eitthvert samfélagslegt vandamál eða að fólk þyrfti almennt að breyta hegðun sinni. Mér fannst þessi ummæli hans mjög truflandi og þau eru eiginlega ein ástæða þess að ég ákvað að stíga fram og tjá mig um málið í fjölmiðlum. Umræðan um samþykki, persónuleg mörk, og ofbeldi er allt í einu orðið eitthvað sem fólk telur sig mega hafa mismunandi skoðanir á og rökræða frá ýmsum hliðum. Þetta er ekki efni í rökræður, þetta er líf okkar og ég veit það af eigin reynslu að þolendur ofbeldis eiga betra skilið.“

James er tvíkynhneigður og hann segir að eins mótsagnakennt og það hljómi þá hafi það orðið til þess að hann sé tvisvar sinnum meira á varðbergi og líti á fólk af báðum kynjum sem hugsanlegt kynferðislegt ofbeldisfólk.

„Ég veit að mér ætti ekki að líða þannig þótt ég sé tvíkynhneigður, en stundum er það þannig sem mér líður eftir það sem ég hef lent í,“ útskýrir hann.

„Eftir síðustu árásina hætti ég að heilsa fólki með faðmlagi og mér er illa við að fólk sem ég þekki ekki snerti mig, mér finnst klapp á öxlina meira að segja óþægilegt núorðið. Ég byrjaði líka að reykja um það leyti sem ég reyndi að ræða við konuna sem beitti mig ofbeldinu, en hef verið að reyna að hætta því undanfarið. Fíkn er leið sem margir þolendur fara til að reyna að lifa með afleiðingum ofbeldis. Mér finnst að heilbrigðiskerfið ætti að horfa meira til þess þáttar í fíkn þar sem langtímameðferð hjá geðlækni eða sálfræðingi er allt of dýr til að venjulegt fólk geti nýtt sér hana. Mér finnst að við getum og ættum að standa okkur betur í þessum málaflokki.“

Sjá einnig: Karlar eiga alltaf að vera til í kynlíf

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -