Mánudagur 18. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum – Hann var í rauninni að segja mér að þetta væri búið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Daníel Örn Sigurðsson, sagði sögu sína í helgarviðtali Mannlífs. Hann talar um dauðann og sorgina og um hálfbróðir sinn sem framdi sjálfsmorð.

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá Daníel enda rósir almennt með þyrna. Það sama má segja um einn bróður hans, Steindór, sem var þremur árum yngri. Daníel er elstur bræðranna. Þeir voru fjórir í allt. Nú eru þeir þrír á lífi. Þeir Steindór voru hálfbræður. Sammæðra. Allir eru hálfbræður Daníels en þeir tveir yngstu eru þó albræður.

„Steindór dó 13. júní árið 2018. Hann var búinn að vera í gríðarlega mikilli fíkniefnaneyslu alveg frá því hann var 13 ára. Hann fór sínar eigin leiðir. Hann var rosalega ævintýragjarn en hann var á sama tíma ofsalega hlédrægur. Rosalega skrýtinn persónuleiki. En hann var fluggáfaður. Rosalega gáfaður strákur. Þetta var svo dýrt dauðsfall af því að hann var svo gáfaður. Og hann var svo klár. Hann var svo áhrifagjarn. Rosalega áhrifagjarn. Alveg svakalega. Og átti mjög auðvelt með að verða bara undir áhrifum. Hann leiddist fljótt út í viðurkenningu einhvers staðar annars staðar.“

Daníel Örn Sigurðsson
Steindór Smári

13 ára í neyslu.

„Þá var hann byrjaður að reykja hass en hann byrjaði að neyta kókaíns þegar hann var 16 ára og hann var byrjaður að sprauta sig 19 ára svo sem með læknadópi, kókaín og amfetamíni. Hann var orðinn svo sárþjáður sprautufíkill að það var orðið erfitt fyrir hann að finna æð. Hann sprautaði sig þangað til hann lést 32 ára.

Ég fékk að vita rosalega mikið eftir dauðsfall hans sem var ofboðslega sárt af því að hann sagði öðrum að hann langaði til að verða eins og stóri bróðir sinn. Eins og ég. Þetta vissi ég ekki vegna þess að hann gaf mér ekki tækifæri á því að umgangast sig vegna þess að hann var ekki í sama heimi og ég. Hann gaf okkur ekki tækifæri á að kynnast almennilega til þess að geta sagt að hann þyrfti hjálp. Hann lokaði sig af af því að hann var svo greindur. Hann vissi að það var ekki hægt að vera innan um okkur þegar hann var í neyslu þannig að hann lokaði okkur af.“

- Auglýsing -

Daníel talar um nýársdag árið 2018. „Hann kom til mín grátandi og skíthræddur með sitt eigið líf af því að vinir hans voru að hríðfalla. Detta niður dauðir. Hann sagði að hann væri vanur að sprauta sig með því sama og þeir og vissi hvað hann þyldi en að þeir væru að deyja og það væri einhver að útrýma þeim. Hann laug aldrei að mér. Hann hélt að einhver væri að útrýma þeim af því að þeir vissu eitthvað sem þeir máttu ekki vita. Það var hans kenning.“

Hann var í rauninni að segja mér að þetta væri búið.

Daníel segir að þeir Steindór hafi talað saman einni og hálfri viku áður en Steindór dó. „Ég var að skutla honum til mömmu viku áður en hann dó og þá sagði hann mér hvað hann væri kominn í mikið þrot. Hann sagðist ekki hafa meiri orku í þetta. Hann var í rauninni að segja mér að þetta væri búið. Ég fattaði ekki fyrr en eftir á að hann var að kalla á hjálp. Hann var að segja mér að hann væri að fara að hengja sig. Svo gerði hann það einni og hálfri viku síðar.“

„Drullaðu þér út, helvítis auminginn þinn,“ sagði ég.

Daníel segir að Steindór hafi beðið móður þeirra um að fá að vera hjá henni um helgina þar sem hann væri að bíða eftir félagslegri íbúð og fékk hann leyfi svo lengi sem hann væri edrú. Daníel bað móður þeirra um að passa dóttur sína á laugardeginum. „Svo þegar ég kom að sækja hana á sunnudeginum þá sagði mamma að Steindór hefði farið út og komið aftur aðfaranótt sunnudagsins dópaður. Ég var svo reiður þar sem stelpan mín var þarna að ég kallaði hann „helvítis drullusokk“ og gjörsamlega sparkaði honum út og henti í hann 2000 kalli til að komast með rútu í bæinn. „Drullaðu þér út, helvítis auminginn þinn,“ sagði ég og skellti hurðinni. Ég sá hann ekki eftir þetta. Viku seinna hengdi hann sig.“

- Auglýsing -

Daníel segir að Steindór hafi verið lifandi þegar hann fannst. „Það var hnoðað í tæpa tvo tíma. Það bar árangur en hann fékk púls en eftir fjóra daga í öndunarvél var ljóst hver niðurstaðan yrði svo hann var settur í líknandi meðferð og lést degi síðar.“

Daníel á erfitt með að halda tárunum í skefjum þegar hann talar um þetta. Þessi síðustu orð sem hann sagði við bróður sinn áður en hann lést valda honum mikilli vanlíðan.

Þetta er svo mikil vanlíðan að það er ógeðslegt.

„Þetta er hræðilegt. Það er hrikalegt að hafa skilið svona. Þetta er alveg skelfilegt. Þetta er svo skelfilegt,“ segir hann með áherslu, „að þurfa að lifa með þetta. Þetta er svo mikil vanlíðan að það er ógeðslegt.“

 

Daníel Örn Sigurðsson

Þetta nær engri átt

„Það er kannski líka rétt að nefna það að ástæðan fyrir því að Steindór lést var ekki af því að honum leið illa og líf hans var ömurlegt og allt það; hann var svo ósáttur við það hver hann var. Hann vildi ekki vera þessi maður sem var í fíkniefnum. Ég fékk að vita það eftir á hjá fólki sem var með honum á geðdeild að hann þráði ekkert heitar en að vera eins og bróðir sinn eins og ég hef sagt. Eins og ég. Eiga fjölskyldu og hús. Hann þráði bara eðlilegt líf. Hann vildi ekkert húllumæ. Hann vildi ekki þessa þráhyggju. Hann gat fengið hjálp við fíkn og hjálp við geðveikinni en ekki á sama tíma. Því miður.“

Var Steindór greindur með geðsjúkdóm?

„Nei. En þetta var orðin hálfgerð geðveiki þegar hann var búinn að búa á götunni frá því hann var krakki. Hann var kominn á götuna 21 árs og þá voru bara þrjú ár síðan hann varð lögráða. Þetta er byrði, sérstaklega fyrir svona óþroskaða einstaklinga.

Það þarf að stofna einhvers konar samtök.

Daníel segir að Steindór hafi stundum farið inn á geðdeild en að honum hafi verið hent út af því að hann var ekki í sjálfskaðahættu í augnablikinu, af því að hann var ekki að fara að drepa sig, af því að hann var ekki í maníu eða af því að hann var ekki öskrandi eða geðveikur. „Hann fékk ekki þá hjálp sem hann var að biðja um. Hann fór sjálfviljugur inn á geðdeild til þess að fá hjálp en af því að hann var ekki í „critical“ ástandi þá; „sorrí, út með þig, komdu þegar ástandið verður „critical“.“

En ef það var orðið of seint? Hvers lags… Hvers eigum við aðstandendur að gjalda þegar við getum ekki treyst á okkar eigin kerfi? Hvað eigum við þá að gera? Við verðum að geta treyst á okkar kerfi. Það er svo mikið í húfi. Á bak við hvern fíkil er fjölskylda sem situr eftir með alla sorgina. Þetta er bara galið og nær engri átt. Þetta getur ekki verið svona. Þetta verður að breytast. Þetta er ekki hægt. Það þarf að stofna einhvers konar samtök; það þarf að búa til einhvers konar konsept þannig að það sé hlustað. Það þarf eitthvað að gerast þangað til að þeir sem sjá um peningavöldin verða komnir upp að vegg og dæla pening í þetta. Við verðum að fara að skilja hvað þetta er mikilvægt.

Þegar einstaklingur fer þá eru margir skildir eftir í sárum. Margir fjölskyldumeðlimir þurfa kannski að taka sér frí í eina til tvær vikur og þurfa áfallahjálp eða á sálfræðingi að halda. Þetta er svo mikill kostnaður fyrir svo ofboðslega marga bara af því að heilbrigðiskerfið okkar er bara á rassgatinu. Þetta er stropað. Þetta nær engri átt. Sorrí. Ég er bara svo reiður.“

Kross í bandi hangir á vegg á heimili Daníels. Steindór átti þennan kross og hafði hann oft um hálsinn.

Jú, það er þessi sorg.

Hann var bara einn.

„Þetta var gríðarlega erfitt. Ég missti helminginn af sjálfum mér þegar Steindór dó. Ég á tvo aðra hálfbræður sem eiga aðra feður en ég hef ekki náð að tengjast þeim nógu vel af því að ég var svo lítið heima; þeir fæddust 1995 og 1997 og á þeim tíma var ég á svo miklu flakki út í sveit og hingað og þangað og bjó hjá ömmu og svona. Þannig að ég kynntist þeim lítið en ég ólst svolítið upp með Steindóri. Hann var svolítið hluti af mér. Að missa Steindór er það erfiðasta sem ég hef upplifað og gengið í gegnum vegna þess í fyrsta lagi hvernig við skildum. Og að vita það eftir á hversu mikið hann stóð einn í þessu. Ég vissi það ekki en ég hélt hann væri með einhverja vini þarna úti og væri með þeim að gera eitthvað. Hann var bara einn. Stóð bara einn. Og á jólum og á afmæli sínu.“

„Hann var einhvern veginn einn. Mamma varð aldrei söm eftir að hann dó. Hún lamaðist af gráti. Hún grét svo sárt þegar hann dó. Ég tók þetta svolítið út á vinnunni; ég fór að vinna mikið eftir þetta sem kom í bakið á mér en tveimur til þremur mánuðum síðar grét ég í mánuð. Ég grét hafsjó. Ég var eins og pínulítið barn. Ég syrgði hann svo svakalega. Ég samdi ljóð til hans. Ég vaknaði klukkan sjö um morguninn daginn sem jarðarförin var með þetta í hausnum og skrifaði niður. Ég lagðist síðan niður og sofnaði aftur. Síðustu orðin hafa svolítið gildi vegna þess að ég enda ljóðið á „mér var aldrei sama“. Ég man ekki einu sinni eftir því þegar ég las ljóðið upp í jarðarförinni. Fólk sagði að það hefði reglulega lekið tár eins og í takti. Ég man ekki eftir því. Það skilur enginn hvernig ég gat staðið í pontunni en það var einhver styrkur í mér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -