Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra menningarmála segir áríðandi að tryggja innflytjendum íslenskukennslu og öll börn þurfa að geta rætt við snjalltæki á íslensku:
„Það eru að eiga sér stað breytingar á samfélögum hér og alls staðar. Það er að segja þetta mikla aðgengi að ensku alls staðar.“
Bætir við:
„Tölvuspilin, YouTube og allt þetta hefur auðvitað áhrif á málþroska og orðaforða. Börn eru að tala við Siri og spyrja um allskonar hluti gegnum símann sinn. Þetta þurfum við að geta gert á íslensku til að varðveita tungumálið.“
Ráðherrann segir áríðandi að tryggja börnum innflytjenda íslenskukennslu, strax á leikskólaaldri:
„Það er þannig að ef við hugsum ekki um þetta og gerum þetta vel er sú hætta að það verði tvær þjóðir í þessu landi. Annars vegar þeir sem eru mjög góðir í íslensku og eiga til að mynda íslenska foreldra og svo hinir sem fengu ekki tækifæri með þessu tungumáli í þessu landi þar sem þau búa.“