Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefði viljað fullt gagnsæi í ráðningarferli útvarpsstjóra.
„Það hefur þegar komið fram í þessu máli að ég hefði kosið fullt gagnsæi í ráðningarferlinu öllu og það á líka við um ákvörðun stjórnar að rökstyðja ekki,“ segir Lilja í skriflegu svari til mbl.is og vísar þar til ákvörðunar stjórnar RÚV að vilja ekki veita rökstuðning fyrir ráðningu Stefáns Eiríkssonar í starf útvarpsstjóra. Eins og kunnugt er hefur ráðningarferlið verið mjög umdeilt.
Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi útgefandi Fréttablaðsins og ein þeirra sem sóttist eftir starfinu, óskaði eftir rökstuðningi frá stjórn RÚV vegna ráðningar Stefáns og upplýsinga um umsóknarferlið en því var neitað.
Kolbrún Halldórsdóttir, sem sótti einnig um stöðuna, hefur sömuleiðis óskað eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar. Hún íhugar nú að kæra ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála.