Lína Móey Bjarnadóttir, eiginkona John Snorra Sigurjónssonar fjallgöngugarps, segir að eiginmaður sinn, sem nú hefur verið tilkynntur látinn, verði í hjarta sínu að eilífu. Hún og börnin þeirra hjóna sendu frá sér yfirlýsingu á Facebook fyrir skömmu
„Íslensk hjörtu okkar slá með hjörtum Pakistana og Sílebúa. Við sendum þakkir til allra þeirra sem hafa tileinkað sig leitinni og gefið sér tíma til að senda okkur hughreistandi kveðjur og hugsanir á þessum erfiðu tímum. Ali, Joyn og Juan Pablo verða í hjörtum okkar að eilífu,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu John Snorra sem birt var á síðu Línu Móeyar.
Líkt og Mannlíf greindi frá er fjallgöngugarpurinn John Snorri nú talinn af. Ferðamálaráðherra Pakistan gaf það formlega út í dag að Íslendingurinn og tveir göngufélagar hans, heimamaðurinn Ali Sadpara og Sílemaðurinn Juan Pablo Mohr, væru látnir og leitað yrði nú áfram að líkum þremenninganna.
Sjá einnig: John Snorri látinn
Leit pakistanska hersins að John Snorra og félögum hefði staðið yfir í tæpar tvær vikur við afar erfiðar aðstæður á hinu mannskæða fjalli K 2. Félagarnir þrír lögðu upp í lokaáfangann á tindinn á fimmtudagskvöld 4. febrúar og er jafnvel talið að þeir hafi náð á tindinn en lent í ógöngum á niðurleið. Frá því snemma daginn eftir hefur ekkert spurst til þeirra og leit engan árangur borið.
Sjá einnig: „Í huganum sé ég sjálfan mig á tindinum og legg þess vegna óhræddur af stað“