Lind Draumland Völundardóttir er nýráðinn skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu. Hún hefur starfað við skólann í fjögur ár, segist þekkja starfsemina og fannst hún eiga fullt erindi til að sækja um.
Á hvað vill hún leggja áherslu í starfinu svo sem varðandi nýjungar og þróun skólans?
„Það hefur verið unnið frábært starf í FAS á undanförnum árum og áratugum. Forverar mínir í starfi hafa ekki verið neinir meðalmenn og mun ég halda því góða starfi áfram. Áherslur mínar tengjast því að efla list, verk- og tækninám og efla fjarnámsmöguleika, styrkja fjallamennskunámið sem er einstakt nám á Íslandi og síðast en ekki síst taka lengra tilraunaverkefni sem hefur verið starfrækt innan skólans síðastliðnar þrjár annir. Verkefnið heitir „Jákvæð heilsuefling“ en þar erum við að hlúa meðal annars að velferð með aðferðum núvitundar, jóga og markþjálfunar.“
Að gera gott betra
Grunnmenntun Lindar tengist iðnnámi en hún er kjólameistari. „Eftir það nám þá fór ég í myndlistarnám við Listaháskóla Íslands og í framhaldsnám í Hollandi þar sem ég ílengdist, stundaði myndlist, gifti mig og gerði fleira skemmtilegt,“ segir Lind sem er með fjölbreytta menntun en hún er með MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst, M.Ed. í kennslufræði frá Háskóla Íslands og auk þess kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Þá er hún með diplómu í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands og svo hefur hún lokið markþjálfun, ACSTH, frá Profectus. Lind lýkur síðar á þessu ári M.S.-námi í jákvæðri sálfræði við Buckinghamshire New University.
Lind var forstöðumaður búningadeildar Íslensku óperunnar á árunum 2011-2015. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri félagslífs hjá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 2018 þar sem hún hefur meðal annars unnið að mótun lista- og menningarsviðs skólans. Þá hefur hún samanlagt níu ára kennslureynslu bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
Heimagangar á mínu heimili voru meðal annars Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson, Pétur Pálsson og Jónas Svafár.
Hvers vegna þessar áherslur í námsleiðum?
„Mitt bernsku- og uppvaxtarumhverfi var listumhverfið og það lá einhvern veginn beinast við að fara í þá átt; skrifa ljóð, búa til myndlist og falleg föt. En á leiðinni áttaði ég mig á því að hamingja, velferð og fegurð voru aðalviðfangsefnin. Pabbi minn, Völundur Draumland Björnsson, var myndlistarmaður og heimagangar á mínu heimili voru meðal annars Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson, Pétur Pálsson og Jónas Svafár og allt hafði þetta fólk mikil áhrif og töluverða viðveru á æskuheimilinu þar sem pabbi var alltaf með vinnustofu heima.
Félagslegar aðstæður ráða miklu um velferð fólks en þær aðstæður er hægt að bæta mikið með menntun. Við erum svo heppin í þessu landi að búa við opinbert skólakerfi sem á að tryggja öllum einstaklingum sömu menntun; það er grunnstefið. Ég er þeirrar skoðunar að í skólastarfi leggjum við of mikla áherslu á mælikvarða sem hafa ekkert með menntun að gera. Kennslufræði, stjórnun, markþjálfun og jákvæð sálfræði eiga mjög margt sameiginlegt, til dæmis það að setja manneskjuna í miðjuna og kraft hennar til að hafa áhrif á eigin líf. Í öllum þessum greinum er lögð áhersla á afl breytinga, að gera gott betra og miklu betra. Við getum sagt að „besta“ allt.“
Pírati
Lind var í framboði fyrir Pírata til Alþingis í Suðurkjördæmi í fyrra. Hvers vegna Píratar og hvers vegna gaf hún kost á sér?
„Ef við fylgjumst með pólitík þá er auðvelt að sjá kosti Pírata; málefnin ráða ferðinni, gagnsæi er baráttumál, heiðarleg stjórnmál og vönduð vinnubrögð. Það er helst þetta; fyrir utan það hversu frábærir Píratar eru. Eins og okkar ágæti heimspekingur Páll Skúlason sagði svo fallega eitthvað á þessa leið: „Við tökum öll þátt í pólitík alla daga, hvort sem við viljum það eða ekki.“ Þannig að gefa kost á sér, taka þátt, bjóða fram krafta sína til góðs og vera þátttakandi en ekki áhorfandi í lífi sínu og mótun umhverfisins.“
Segir hún að „þátttaka“ sé mottóið.
Lind hefur sinnt ýmsu í gegnum árin þegar kemur að félagsmálastarfi og segir hún að „þátttaka“ sé mottóið.
Listir, sköpun og menning
Lind er úr Reykjavík.
Ég ætlaði að bjarga plánetunni en á unglingsárum þá trúði ég á kraft ljóðsins til þess verks.
„Þorpið 101 Reykjavík eru mínar æskuslóðir en móðir mín, Steinunn Sveinbjarnardóttir, fæddist í Svefneyjum á Breiðafirði en bjó í Flatey til fermingaraldurs. Faðir hennar var eyjamaður en móðir hennar var frá Mjóafirði á Austurlandi. Faðir minn fæddist hins vegar og ólst upp í Reykjavík, 101 Reykjavík, en var frá Hornströndum í móðurætt og Langanesi í föðurætt. Í minni bernsku var kjarnorkuváin það hræðilegasta og ég ætlaði að bjarga plánetunni en á unglingsárum þá trúði ég á kraft ljóðsins til þess verks.“
Draumland. Hver er tilurð nafnsins?
„Þetta var millinafnið hans pabba míns. Okkur í fjölskyldunni finnst það fallegt svo sum okkar höfum tekið það upp. Þetta nafn var hins vegar málamiðlun því amma vildi að hann héti Völundur Brosandi land en presturinn þvertók fyrir það þannig að Draumland var lendingin.“
Lind á fjögur uppkomin börn og býr með eiginmanni sínum, Tim Junge, og íslenska hundinum þeirra, Káti, á Höfn.
Hver eru áhugamálin?
„Listir, sköpun og menning eru aðaláhugamálin. Á Höfn rekum við hjónin heimagalleríið MUUR í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Við höfum einnig, ásamt elstu dóttur minni, Perlu Torfadóttur, gefið nokkrum sinnum út listadagatalið List í 365 daga þar sem 365 listaverk eru til sýnis á jafnmörgum síðum.“
Langt á eftir
Það er ýmislegt sem mótar fólk á lífsleiðinni og aðspurð um það segir Lind:
„Það er svo margt sem mótar mann á lífsleiðinni; verkefnin sem líta út fyrir að vera óyfirstíganleg eru oft þau sem móta mann mest. Það var í mínu ungdæmi nær ómöguleg tilhugsun að stíga fram vegna kynbundins óréttlætis og áreitni. Þau áföll átti maður sjálfur og einn. Það voru ekki einu sinni til orð um þá reynslu. Það gefur svo mikla von að fylgjast með því hvernig hugrakkt fólk um allan heim hefur verið að opna á óréttlæti og kúgunarmynstur. Ég legg þeirri baráttu alltaf lið.“
Við erum langt á eftir í mannréttindamálum.
Barnabarn Lindar greindist með geðsjúkdóm á sínum tíma.
„Staða þeirra sem þjást af geðrænum veikindum á Íslandi í dag er að öllu leyti óásættanleg. Við erum langt á eftir í mannréttindamálum og lækningaaðferðum þegar litið er til þessa hóps. Veikindi eru alltaf áföll en við erum ekki áföllin sem við lendum í heldur miklu frekar vegurinn til bata og að þessu sögðu þá er ég sannfærð um að við þurfum að hætta að einblína á sjúkdóminn en einbeita okkur að bataferlinu. Allir eiga rétt á góðu lífi.“
Hverjir eru draumar nýráðins skólameistara?
„Að menntun geri okkur að því besta sem við getum orðið, að stríðin í heiminum hætti og að okkur takist að bjarga plánetunni.“