Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Listakonan Miriam lifir draumalífi í Ölpunum: „Ísland er ljósið mitt. Mitt time out“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miriam Fissers er kona margra heima. Hún ólst upp í Belgíu og á Íslandi en býr nú í svissnesku Ölpunum þar sem hún annast börn sín og eldri borgara af alúð en dansar nakin þess á milli og málar og teiknar fallegar myndir. Mannlíf sló á þráðinn.

Þegar Miriam er spurð um það hver hún sé og hvar hennar rætur liggi kemur fyrst þögn. En svo svarar hún.

„Rætur? Það er stórt orð. Ég fæddist í Antwerpen, Belgíu og bjó þar fram að níu ára aldri. Það sem ég man er að ég var ósköp venjulegt borgarbarn. Átti foreldra, ömmur og afa, frændur og frænkur, þetta venjulega. En þađ var alltaf mikil spenna á heimilinu. Ég man eftir því. Og ég fann enga sérstaka tilfinningu, ađ tilheyra einhverju sem fór út fyrir veggi heimilisins. Pabbi minn átti erfitt međ ađ finna sig í lífinu og 1991 var ákveðið að flytja til Íslands. Breyta til. Byrja upp á nýtt. Mamma hafði mikinn áhuga á steinum og jarðfræði og fór ein til Íslands í frí 1987. Nokkrum árum síðar sýndi hún okkur Ísland og var þá ákveðið að flytja þangað. Skilja stress stórborgarinnar eftir og flytja í rólegra umhverfi.“

Reyðfirðingurinn Miriam

Fjölskylda Miriam flutti austur á Reyðarfjörð og var strax afar vel tekið af bæjarbúum.

„Það var í þessu litla þorpi fyrir austan að ég upplifði fyrst ađ vera frjálst barn sem kom bara heim til ađ borða og sofa. Lærði strax íslensku og varð bara Reyðfirđingur eins og ekkert væri. Enda voru með fyrstu orðunum sem ég lærði orð eins og „koma ađ leika?“ og „samferđa?“. Það segir margt um það hvernig tekið var á móti okkur.“

- Auglýsing -
Miriam Fissers
Mynd: Aðsend
Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

Miriam, sem var kennarabarn varð fljótlega eftir komuna til Íslands, einnig skilnaðarbarn, rétt eins og systir hennar sem er fjórum árum eldri. „Ég held að ég sé frekar mikið skólabókadæmi hvað það varðar, að vera skilnaðarbarn.“ Pabbi hennar flutti norður á Sauðárkrók en mamma hennar býr enn á Reyðarfirði þar sem hún er hamingjusamlega gift sönnum Reyðfirðingi en saman reka þau gistiheimili.

Örlagadísirnar snarvitlausu

Eftir menntaskóla flakkaði Miriam talsvert á milli beggja heimalanda sinna, Íslands og Belgíu eða þar til hún kynntist manni sínum.

- Auglýsing -

„Eftir margra ára flakk kynntist ég svo manninum mínum. Hann er Svisslendingur og ég var ekki lengi ađ ákveða að eiga bara heima þar. Þetta er ótrúlega fjölbreytt og fallegt land. Svo er Sviss eiginlega eyja í miðri Evrópu. Ég kann að vera eyjaskeggur. Það að vera kvennleg, frjálslynd skellibjalla sem segir oftar en ekki bara það sem hún hugsar er eitthvað sem suðurhluti Sviss á stundum erfitt með. En ég geri mitt besta ađ kenna þeim,“ segir Miriam og hlær.

Þegar Miriam fær hinu klénu spurningu hvert örlagadísirnar hafi leitt hana í lífinu stendur ekki á svörum hjá henni.

„Um allt held ég. Þegar ég flutti til Íslands. Þegar ég kynnist manninum mínum. Hann átti pantað borð á veitingastað í Antwerpen, ásamt vinnufélögum. Veitingastaðurinn var svo yfirbókaður og hann endaði við mitt borð á allt öðrum veitingastað. Þetta kvöld átti ég einnig ađ vera annarsstaðar. Ég elska örlagadísirnar. Þær eru snarvitlausar en ég treysti því að þær hafi alltaf leitt mig í rétta átt.“

Í dag á Miriam þrjú börn en hún furðar sig á hverjum degi hversu heppin hún sé.

„Ég á þrjú yndisleg börn og það líður ekki sá dagur að ég hugsa ekki að minnsta kosti einu sinni „Vá?! Hvernig í andskotanum fór ég að þessu? Geggjað!“

Börnin þrjú stilla sér upp
Mynd: Aðsend Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

En Miriam hefur upplifað sinn skerf að áföllum eins og flestir. Sjálfsmorð hafa verið partur af lífi hennar annað slagið í gegnum árin.

„Ef það er eitthvað sem hefur sett sitt mark á mig eru það þrjú sjálfsvíg sem fólk í kringum mig frömdu. Ungur strákur á Reyðarfirði, frændi minn og afi minn. Ég var of ung til að skilja lífið til fulls þegar ég fór í jarðarför 19 ára stráks heima. En að sjá heilt þorp gráta svona innilega, öllsömul, er eitthvað sem ég gleymi aldrei. Ég var svo komin sjö mánuði á leið međ mitt þriðja barn þegar afi minn fyrirfór sér. Að vera ólétt í jarðarför hans vakti tilfinningu sem ég hef ekki enn náð ađ nefna á nafn en þetta var auðvitað hrikalega erfitt.“

Lífið í Sviss

Aðspurð segir Miriam að lífið í Sviss sé henni gott þó það mætti vera meira jafnrétti milli kynjanna, „en þađ er svo sem ekkert nýtt.“

„Sviss er mjög skipt land og mismunandi lög gilda í hverju fylki. Síðasta fylkið sem veitti konum kosningarétt var að ég held árið 1991!. Hér eru töluð fjögur tungumál en ég tala tvö þeirra mjög vel, eitt þeirra illa og skil það fjórða. Tungumál eru að mínu mati mjög tengd menningu fólks og því einnig hugarfarið. Þetta segir margt um Sviss.

Svisslendingar eiga hreinlega erfitt með að tala sama tungumálið sín á milli en eru í heild mjög stolt af þessari heild sem kallast Sviss. Persónulega finnst mér „Svisslendingur“ svipað og að segja „Evrópubúi“. Þađ er varla nákvæmt.“En þrátt fyrir að því er virðist nokkuð flókið samfélag í Sviss, líður henni vel þar enda mikið náttúrubarn. Fjölskyldan býr í 30.000 manna borg sem heitir Bellinzona og er í Ölpunum þar sem Miriam vinnur á dvalarheimili aldraðra.

Náttúrubarnið Miriam
Mynd: Aðsend Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

„Ég er rosalega mikið náttúrubarn. Það er ein mesta ástæðan fyrir því að ég elska þetta land. Það er bara ótrúlega fallegt. Ef ég fengi ađ ráða væri ég löngu flutt í kofa upp í fjöllum með fléttur í hárinu, með geitur á beit á hallandi túni. En ég man hversu innilega ég hataði smábæjarlíf sem unglingur og mun halda mér nálægt menningu og mannlífi á meðan börnin eru að vaxa úr grasi. Þau hafa alltaf aðgang að bæði menningu jafnt sem nátturu og eru ansi heppin hvað það varðar held ég bara. Við eigum hús upp í fjöllum sem við notum stundum um helgar og í fríum.“Miriam segist ekki leiðast þegar hún hefur tíma fyrir sjálfa sig en hún hefur til að mynda mjög gaman af því að vera í „Carpool karaoki“ með sjálfri sér í bílnum þegar hún þeysist um hraðbrautirnar og svo á hún það til að dansa nakin inni á baði og ímynda sér að það sé jógaæfing. Og svo er það sköpunin.

„Mála, teikna, skapa eitthvað. Hendurnar eru oftast útataðar í málningablettum eða með flísar eftir föndur, nú eða með olíubletti á sér eftir ađ ég hef tekið eitthvað í sundur sem ég næ svo ekki ađ setja saman aftur. Svo elska ég fjallgöngur. Alls ekkert prófessjónal. Ég vil taka minn tíma og skoða allt í kringum mig.“

Listin og lífið

En hefur listin alltaf verið viðloðandi Miriam?

„Alltaf. Afi minn í föðurætt var snillingur og mamma mín er ótrúlega flink líka. Svo ólst ég upp sjónvarpslaus og mamma bara hvatti mig alltaf til ađ mála og teikna. Ef ég fæ ekki að gera jóga inni á baði þá er mitt innra „zen“ að mála. Skapa. Dreyma upphátt á blaði eða striga. Það sem ég hef alltaf elskað viđ Ísland er birtan og ef ég næ að koma þessari birtu fyrir á mynd þá hef ég náð einhverskonar nirvana.“

Málverk: Miriam Fissers Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra
Málverk: Miriam Fissers Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

Þegar Miriam er spurð að því hvort hún lifi af listinni er svarið aðdráttarlaust nei.

„Guð nei. Það er allt annað nirvana. Eitthvað sem mig dreymir um. Og ef ég myndi nú skipuleggja mig betur og komast inn í 21 öldina hvað varðar það að vilja nýta mér netið til fulls þá held ég ađ þetta tækist hjá mér. En ég er þrjósk. Og pínu hæna. Ég er jarðbundin og skipulögð þegar þess þarf. En athyglisbresturinn kemur alltaf upp þegar ég er í skapandi stuði. Húsið okkar er á þremur hæðum. Ég er međ vinnuherbergi upp í risi og vinnusvæði í kjallaranum. Þegar ég er í skapandi stuði fer ég á milli hæða og missi mig bara. Alltaf með 37 verkefni í gangi í einu, svo ég tala nú ekki um það þegar ég geng svo framhjá eldhúsinu og fer allt í einu ađ baka. Ég efast um ađ ég gæti staðið viđ einhver „deadline“ ef þetta yrði atvinnan mín. En ég læt mig samt dreyma. Alltaf.“

Teikning: Miriam Fissers Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

Ísland er ljósið mitt

Nú hefur Miriam búið í Sviss í um 15 ár en hugurinn leitar oft heim til Íslands.

„Ísland er ljósið mitt. Mitt time out. Eyjan þar sem ég varð ég. Þar er mamma. Þar er dekur. Þar er öll mín nostalgía. Æskan og svo margt sem tengist henni. Æskuvinir og æskuslóðir. Ævintýri, gömul og ný. Þar er ekki alltaf best að vera en þar er alltaf einhver heimatilfinning. Þegar einhver spyr mig hvaðan ég er þá svara ég alltaf stolt að ég hafi alist upp á Íslandi. Margir hafa sagt mér að það komi alltaf upp ljós í augun þegar ég tala um Ísland. Já, Ísland er ljósið mitt.“

Teikning: Miriam Fissers Ath. Klikka á mynd til að sjá hana skýra

Þegar Miriam er spurð út í framtíðina segist hún enn vera að hugsa hvað hana langi að verða þegar hún er orðin stór.

„Ég stend í skilnaði eins og er og þađ er tímafrekt og erfitt verkefni en ég treysti því að þetta muni ganga eins og það á að ganga fyrir sig. Ég hef aldrei hætt ađ sjá alla fegurðina og þá gæfu sem umlykur mig. Allt þarf tíma. Heilsan er mín megin. Ég mun njóta þess í botn að uppgötva nýjar leiðir, nýtt fólk, ný ævintýri, samferða börnunum mínum og læra vonandi sem mest af þeim. Þau eru eini skólinn sem hefur kennt mér allt það sem er mikilvægt og ég hlakka til að taka fleiri áfanga með þeim.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -