Laugardagur 21. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Margir listamenn óánægðir með samskiptin við Óperuna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ljóst að gildir kjarasamningar voru ekki virtir,“ segir Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH.

Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, hefur fyrir hönd Þóru Einarsdóttur óperusöngkonu stefnt Íslensku óperunni vegna vangoldinna launa Þóru við uppfærslu óperunnar Brúðkaup Fígarós síðastliðið haust. Málið hófst í haust þegar átta einsöngvarar í Brúðkaupi Fígarós tóku sig saman og leituðu til síns stéttarfélags, FÍH, um leiðréttingu launa sinna við sýninguna.

Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, segir að reynt hafi verið til þrautar að ná lendingu í málinu, hann hafi meðal annars lagt fram sáttatilboð, en Íslenska óperan haldi fast við þann skilning að samningurinn milli Óperunnar og FÍH gildi ekki í þessu tilviki þar sem söngvararnir hafi allir verið lausráðnir. Gunnar segir þá túlkun ekki standast.
„Við erum með undirritaðan samning milli aðila frá árinu 2000 sem er mjög skýr í lýsingu á því hvernig gera skuli hlutina. Hann er ekki virtur af hálfu Óperunnar, sem segir að þessi samningur eigi alls ekki við, en honum hefur aldrei verið sagt upp og er því gildur.“

„Á atvinnurekandinn að geta skilgreint samninga eftir eigin hentistefnu og borgað fólki bara eftir hendinni?“

Spurður hvort sú túlkun Íslensku óperunnar að samningurinn eigi ekki við í ráðningu lausráðinna söngvara standist segir Gunnar svo sem allt í lagi að takast á um það. „En þegar gerður er gildur samningur þar sem áskilið er að það skuli vera greitt samkvæmt honum og verkkaupanum beri að vera í samráði við stéttarfélagið um það hvernig sé greitt þá ber að fara eftir honum. Ef slíkur samningur heldur ekki hvaða samningar halda þá? Á atvinnurekandinn að geta skilgreint samninga eftir eigin hentistefnu og borgað fólki bara eftir hendinni? Ef maður skoðar þetta í stærra samhengi þá er þetta náttúrlega eitthvað sem allir launþegar þurfa að vera vakandi fyrir og berjast gegn.“

Þetta þarf að laga

Þótt stefnan sé gerð einungis fyrir hönd Þóru standa allir einsöngvarar sýningarinnar þétt við bakið á henni og Gunnar segir dóminn auðvitað verða fordæmisgefandi fyrir þá alla, lögfræðilega sé það bara þannig að það þurfi að stefna fyrir hönd hvers og eins. „Þóra er bara svo mikil kjarkmanneskja að hún tekur slaginn fyrir hina,“ segir hann.

- Auglýsing -

Spurður hvort fleiri stefnur á hendur Íslensku óperunni séu í farvatninu segir Gunnar að hann viti ekki til þess, en það sé ýmislegt sem þurfi að taka á varðandi samninga listamanna við Óperuna. „Þetta barst í tal milli listfélaganna, sem eru rithöfundar, leikstjórar, tónskáld, söngvarar og tónlistarmenn og svo vinafélag Óperunnar, og það kom í ljós að öll þessi félög hafa árum saman beðið um samning við Óperuna en ekki fengið og margir eru mjög óánægðir með sinn hlut í samskiptum við Óperuna hvað laun varðar. Það er náttúrlega draumaumhverfi atvinnurekandans að geta bara sagt að það gildi engar reglur og verktakinn verði bara að taka því sem að honum er rétt. Laun óperusöngvara hafa jafnt og þétt lækkað að raungildi undanfarin ár og það þarf að leiðrétta.“

Búið er að birta Íslensku óperunni stefnuna og Gunnar segir að FÍH geti ekki aðhafst annað í bili, nú sé bara beðið eftir því að málið verði dómtekið.

Nánar er fjallað um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -