Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Listin í fótboltanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Jón Ari Helgason, „creative director“ á auglýsingastofunni Brandenburg

Með fyrstu heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu árið 1930 hófst sú hefð að hanna sérstakt kynningarplakat fyrir hvert mót og hefur miklu púðri verið eytt í útfærslu þessara veggspjalda. Mannlíf fékk hönnuðinn og knattspyrnuáhugamanninn Jón Ara Helgason til að líta á opinberu HM-plakötin, 21 talsins, sem hönnuð hafa verið í gegnum árin og velja þau bestu og verstu.

„Maður kannast nú við flest þessi plaköt, en ég verð samt að játa að ég hef aldrei skoðað þau sem heild áður. Plaköt og merki stórkeppna á borð við HM og Ólympíuleika vekja alltaf faglegan áhuga hjá okkur hönnuðum,“ segir Jón Ari Helgason, „creative director“ á auglýsingastofunni Brandenburg, eftir að hafa grandskoðað kynningarplakötin sem hönnuð hafa verið fyrir HM í knattspyrnu í gegnum tíðina.
Knattspyrnuáhugamaðurinn Jón Ari segir einna fróðlegast að sjá útkomuna á HM-plakötunum þegar listamenn hafi fengið að spreyta sig á hönnun þeirra í stað grafískra hönnuða, til að mynda þegar spænski listmálarinn Miró gerði plakatið fyrir HM í heimalandi sínu árið 1982.
„Það plakat er vissulega eftirminnilegt og einnig hið afleita veggspjald sem Peter Max gerði fyrir HM í Bandaríkjunum árið 1994. En ég myndi segja að yfirleitt fylgi HM-plakötin tíðarandanum og stefnum og straumum hvers tíma nokkuð vel. Undantekningin er augljóslega nýja veggspjaldið fyrir HM í Rússlandi í sumar sem sækir í gamlan myndheim Sovétríkjanna,“ útskýrir Jón Ari.
Hann er hóflega bjartsýnn þegar hann er spurður um möguleika Íslands á HM í Rússlandi í sumar. „Þetta íslenska landslið kemur manni alltaf á óvart. Maður bjóst eiginlega við því að það færi allt loft úr liðinu eftir EM 2016 en svo rúllaði það bara upp undankeppninni fyrir HM. Ég ætla að spá því að Ísland verði í harðri keppni um að komast upp úr D-riðli fram á síðustu mínútu. Maður getur ekki beðið um meira í bili. Hvað önnur lið varðar þá var ég staddur í Þýskalandi sumarið 1990 þegar Þjóðverjar unnu mótið á Ítalíu og hef eiginlega alltaf haldið með þýska stálinu á stórmótum síðan þá,“ segir Jón Ari að lokum, spenntur fyrir sumrinu.

BESTU VEGGSPJÖLDIN
Ítalía 1934
„Þetta er æðislegt. Fas- og nasistar mega eiga það að þeir vissu sínu viti þegar kom að grafík. Art Deco-týpógrafían dansar þarna í kringum myndina sem er kannski ekki sú frumlegasta, en hún virkar. Ég mæti á þetta mót, ekki spurning.“

Suður-Afríka 2010
„Þetta veggspjald var vel heppnað og eftirminnilegt að mínu mati. Veggspjöld eiga að fá þig til að stoppa og skoða og þetta gerir það svo sannarlega. Mjög falleg og sterk litapalletta, fallega útfærð teikning og skemmtilega samtvinnað kort og höfuð. Myndastíllinn minnir svolítið á kosningamyndina sem Shepard Fairey gerði af Obama og eflaust kemur innblásturinn þaðan. Það er helst að maður geti fett fingur út í leturmeðferðina.“

Mexíkó 1970
„Merki Mexíkóa fyrir keppnina 1970 er klassískt og veggspjaldið er sterkt. Það er ekki að reyna neitt of mikið, er bara þarna öskrandi einfalt og fínt. Gott ef maður hefur ekki séð þetta í fleiri litaútgáfum. Þetta sómir sér vel á hvaða vegg sem er.“

- Auglýsing -

VERSTU VEGGSPJÖLDIN

Þýskaland 2006
„Merki keppninnar í Þýskalandi 2006 er eitt það versta sem gert hefur verið og því við hæfi að gera virkilega vont veggspjald með. Væntanlega á þetta að vera stjörnumerki í formi fótbolta. Er þetta Geimsmeistarakeppnin í knattspyrnu? Maður á einhvern veginn von á meiri fagmennsku frá Þjóðverjanum.“

Mexíkó 1986
„Í minningunni er keppnin í Mexíkó 1986 hin eina sanna heimsmeistarakeppni. Þetta veggspjald er ljósmynd en ekki myndskreyting, sem þarf nú ekki að vera slæmt út af fyrir sig, en þessi ljósmynd er hreint út sagt afleit. Teygð og toguð og furðulega skorin. Þessi skuggavera þarna er algjörlega sammála mér og hefur hnefann á loft í reiðikasti yfir þessu skammarlega veggspjaldi. Eða ef til vill er hún bara að barma sér yfir þessari bólgu í kálfanum.“

- Auglýsing -

Chile 1962
„Less is more á alltaf að virka, en HM í Chile 1962 afsannar þá kenningu. Ef veggspjaldið fyrir Þýskaland 2006 var fyrir Heimsmeistaramótið þá er þetta plakat fyrir Heimsendamótið. Risastór loftsteinn skellur á Suður-Afríku og eyðir öllu lífi á jörðinni. Mann langar ekkert til að horfa á fótbolta þegar maður sér þetta veggspjald. Maður faðmar bara börnin sín og bíður eftir höggbylgjunni.“

_________________________________________________________________

Rússland 2018 (sbr. aðalmynd)
„Framlag Rússanna fyrir mótið í ár er virkilega vel heppnað. Þarna er sótt beint í sovéskan konstrúktívisma og áróðursplakötin. Sólargeislarnir eru á sínum stað en í stað baráttuhnefans er komin gömul sovésk kempa, markvörðurinn Lev Yashin. Það er kannski ögn skrýtið að taka þetta svona retró alla leið en þetta er allt svo vel útfært að þetta veggspjald fer beint í topp fimm hið minnsta. Það eina sem truflar mann er þessi hálfa heimsmynd sem er sett á knöttinn ofanverðan með Rússland í forgrunni. Virkar eins og boltinn sé hreinlega við það að springa. En vel gert að öðru leyti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -