Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Litríkur og flippaður kokteill á glimmerbarnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á barnum er hægt að blanda sér litríkan kokteil úr glimmeri, límmiðum og skrautsteinum svo fátt eitt sé nefnt. Tara segir að glimmerið höfði til fólks á öllum aldri, bæði karla og kvenna.

„Þetta er í raun eins og nammibar, nema þetta er glimmerbar,“ segir förðunarfræðingurinn Tara Brekkan Pétursdóttir. Tara hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðustu ár undir vörumerkinu Törutrix, þar sem hún kennir áhugasömum að mála sig á einfaldan hátt. Þá kennir hún einnig förðun og framleiðir snyrtivörur undir eigin nafni. Nýjasta uppátæki Töru er að bjóða upp á fyrrnefndan glimmerbar, sérbúinn vagn með glimmeri, steinum, límmiðum og ýmsu skrauti sem hún getur flakkað með á milli viðburða.

Þekktur glimmerbrjálæðingur

„Ég er þekkt fyrir að vera glimmerbrjálæðingur,“ segir Tara og hlær.

„Ef vinir mínir sjá flott glimmer einhvers staðar þá senda þeir strax myndir á mig. Ég fann hins vegar aldrei glimmer sem mér fannst nógu flott þannig að ég hannaði mitt eigið. Ég legg mikið upp úr því að vörur frá mér séu vandaðar þannig að glimmerið, og allt annað skraut í glimmerbarnum, er án eiturefna og umhverfisvænt. Síðan fannst mér hugmyndin um að vera með barinn á vagni sem ég gæti farið með í partí sniðug þannig að ég lét slag standa,“ bætir hún við.

Tara verður með alls kyns skraut á barnum.

Verið er að leggja lokahöndina á fyrrnefndan glimmervagn en Tara ætlar ekki að láta staðar numið þar. „Í framhaldinu langar mig að útbúa sérstakan glimmerbíl, með glimmerstöfum og neon-skiltum. Þá er hugmyndin að fólk geti komið við í bílnum og látið mála sig. Ég ætla að búa til eitthvað skemmtilegt í kringum bílinn og ég er mjög spennt fyrir því. Ég hef aldrei séð neitt líkt því sem ég er að plana.“

Íslendingar þurfa glimmer í lífið

Fyrir stuttu opnaði Tara sína fyrstu Törutrix-verslun á Laugavegi 51, en verslunin er inni í 24 Iceland og Massän-versluninni. Eins og með glimmerbarinn er Tara með stóra viðskiptadrauma.

„Mig langar í framtíðinni að opna verslanir um allt land,“ segir Tara en eiginmaður hennar, Hlynur Örn Kjartansson, er einnig viðskiptafélagi hennar. „Hann er með mér í öllu. Hann gerir heimasíðuna og hannar allt í kringum þetta. Við getum gert allt saman og það er svo þægilegt. Við þurfum engan annan,“ segir Tara og bætir við að hún elski að vinna fyrir sig sjálfa. „Ef maður vinnur við það sem maður elskar þá vinnur maður aldrei neitt því það er alltaf gaman.“

- Auglýsing -

Þó að aðeins nokkrir dagar séu síðan Tara byrjaði að auglýsa glimmerbarinn á samfélagsmiðlum hafa pantanir og fyrirspurnir hrúgast inn. Á þjóðhátíðardeginum,17. júní, ætlar Tara að vera með einhvers konar útgáfu af barnum fyrir utan verslunina á Laugaveginum og stefnir enn fremur að því að vera á einhverjum útihátíðum í sumar, þar á meðal Þjóðhátíð í Eyjum. En telur hún að Íslendingar þurfi allt þetta glimmer í líf sitt?

„Já, þetta er svo gaman. Ég held að glimmer geri lífið betra. Það verða allir svo glaðir og flippaðir þegar þeir eru komnir með smávegis glimmer á sig,“ segir Tara og bætir við að glimmeráhuginn einskorðist ekki bara við kvenfólk. „Ó nei, strákarnir eru alveg jafnvitlausir í glimmer og stelpurnar. Og bara fólk á öllum aldri.“

Glimmer hressir, bætir og kætir.

Tara á samfélagsmiðlum

Snapchat: tara_makeupart
Facebook: @torutrix.is
Instagram: @torutrix.is

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -