Mánudagur 13. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Ljóngáfaður, réttsýnn, hreinskilinn og stríðinn forsetaframbjóðandi sem spilar spil við aldraða móður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Franklín athafnamaður segir spillingu ríkja á Íslandi og boðar breytingar verði hann forseti. Í viðtali við Mannlíf segir hann frá pöddusöfnun í æsku, skemmtilegum samskiptum við Björgólf Thor og erfiðu gjaldþroti. Hann viðurkennir að honum hætti til að taka „örlítið sterkt til orða“.

Enginn Wallstreet-töffari

„Guðmundur Franklín er að mínu mati réttsýnn og segir hlutina eins og þeir eru,“ segir Hildur Sif Thorarensen, kosningastjóri Guðmundar. „Þegar maður talar við Guðmund þá veit maður að það er ekkert leikrit í gangi, ekkert glimmer, engin reykvél, hann er hreinn og beinn. Ég kann að meta það.“

Hildur segir að hans helsti galli sé að vera mennskur og gera mistök en hann komist síður upp með það en þeir sem hafi fjölmiðlana með sér. „Eins á hann það til að taka of djúpt í árinni í hita leiksins, eins og gengur. Það er þó að slípast af honum.“

Hún bætir við að Guðmundur sé mjög skemmtilegur. „Hann er svolítið stríðinn og ósjaldan förum við út af sporinu og dettum í góðlátlegt grín. Það sem mér finnst merkilegast við hann er hversu margir misskilja hann og halda að þetta sé töffari frá Wallstreet. Sá Guðmundur sem ég þekki er hins vegar sá sem spilar skrafl á hverju kvöldi við 92 ára gamla móður sína til að hjálpa henni að halda minninu við. Sá Guðmundur sem ég þekki kallar fyrrverandi konuna sína enn „Dísu mína“ og maður heyrir í röddinni hvað honum þykir vænt um hana. Sá Guðmundur sem ég þekki býðst alltaf til að hjálpa ef maður á í vandræðum með eitthvað.

Það sem ég dáist sérstaklega að í hans fari er að hann talar alltaf vel um alla. Jafnvel þótt ég gagnrýni hann þá reiðist hann mér ekki heldur er þakklátur fyrir. Það er að mínu mati mikill mannkostur því fæstir átta sig á því að vinur er sá er til vamms segir. Manni fer fljótt að þykja vænt um Guðmund því hann er eitthvað svo einlægur og góður. Það er í raun svolítið sárt fyrir okkur sem þekkjum hann að sjá þá útreið sem hann fær á samfélagsmiðlum.“

- Auglýsing -
Hildur Sif Thorarensen, verkfræðingur og kosningastjóri Guðmundar.

Óþægilega hreinskilinn

„Guðmundur Franklín er einhver gleggsti greinandi á fjármálaheiminn sem ég hef kynnst og virðist alltaf vera nokkrum mánuðum, ef ekki misserum, á undan markaðnum með sínar greiningar,“ segir Anna María Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. „Hann er hreinskiptinn og þorir að segja sannleikann, líka þegar hann er óþægilegur. Þegar maður kynnist manninum betur sér maður mýkri mann sem hugsar vel um börnin sín og aldraða móður sína.“

Anna María Sigurðardóttir viðskiptafræðingur.

„Alveg eldklár“

- Auglýsing -

Ásgeir Bolli Kristinsson kaupmaður hefur verið vinur Guðmundar Franklíns síðastliðin 40 ár. Hann hefur ekkert annað en gott að segja um forsetaframbjóðandann. „Hann er alveg ótrúlega skemmtilegur og með mikið ímyndunarafl. Ljóngáfaður er hann, alveg eldklár. Það er alltaf skemmtilegt að umgangast hann því hann sér hlutina oft frá öðrum sjónarhornum og með einföldum hætti. Guðmundur er mjög lausnamiðaður líka. Í raun er það bara þannig að ég hef ekkert nema gott um hann að segja.“

Ásgeir Bolli Kristinsson kaupmaður

Sorgarsaga

Margrét Friðriksdóttir, grafískur hönnuður, starfaði fyrir kosningaframboð Hægri grænna fyrir alþingiskosningarnar 2013. Hún segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við forsetaframbjóðandann þar sem hún hafi ekki fengið greidd umsamin laun. Guðmundur Franklín hefur sjálfur lýst því yfir að hún hafi verið í sjálfboðaliðastarfi. „Þetta er í raun sorgarsaga frá upphafi til enda og ég var mjög vonsvikin yfir framkomu Guðmundar Franklíns eftir næstum ársvinnu fyrir hann þar sem ég hafði treyst honum og var alltaf fullviss um að hann myndi borga mér á endanum eins og hann hafði lofað frá upphafi,“ sagði hún á Stjórnmálaspjallinu á Facebook. „Guðmundur hefur aldrei beðið mig afsökunar á þessari framkomu, en ég hefði alveg tekið hana góða og gilda ef hann hefði sýnt þann manndóm af sér.“

Margrét Friðriksdóttir

Hrókur alls fagnaðar

„Ég get ekki sagt mikið um hann, annað en að hann var alltaf glaður piltur og hress,“ segir Jón Ragnarsson, fyrrum viðskiptafélagi Guðmundar Franklíns. Hann virkaði vel í viðkynningu og var alltaf hrókur alls fagnaðar. Það sem mér fannst áberandi var hvað hann var allaf hress og glaður, hann er svoleiðis týpa. Ég hef ekkert nema gott að segja og hef ekkert undan honum að kvarta, nema síður sé.“

Lestu viðtal við verðbréfasalann sem vill verða forseti í Mannlífi sem kom út í gær.

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -