Fulltrúar Orkunnar okkar hafa kært fundarstjórn forseta til Vinnueftirlitsins. Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur hjá BSRB segir þingmenn ekki vera hefðbundna starfsmenn. „Þingmenn eru sérstaklega undanskildir starfsmannalögum.“
„Þetta eru Evrópureglur sem þeir eru að vísa í. Reglurnar er búið að innleiða í íslensk lög, kölluð vinnuverndarlögin“ segir Dagný og bætir við: „Lög um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Þetta kemur upp úr Evróputilskipun sem var fyrst innleitt í kjarasamninga og svo inn í þessi lög.“
Dagný furðar sig á orðalagi tilkynningarinnar, sem segir að það sé mikilvægt að starfsmenn og sérstaklega alþingismenn fái hvíldartíma. „Það er alveg á hreinu að starfsmenn alþingis falla undir þessar reglur. Manneskja sem til dæmis situr við hlið forseta alþingis er almennur starfsmaður“ segir hún og bætir við að vinnutíma þess einstaklings eigi að skipuleggja í samræmi við vinnuverndarlög. „Þingmenn sjálfir falla ekki þarna undir.“
Yfirlýsing Orkunnar okkar ekki í samræmi við lögin
„Nú hagar svo til að nefnda- og þingfundir á Alþingi hafa staðið yfir nánast samfellt sólarhringum saman“ segir í yfirlýsingu Orkunnar okkar. „Fundað er á víxl í nefndum og í þinginu, hvíldarlaust. Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11 klst. hvíldartími er órafjarri því að vera virtur.”
Í 52. gr. a. í IX kafla segir: „Ákvæði þessa kafla gilda ekki um æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir.“ Lögin í heild má sjá hér. Þess má til gamans geta að ákvæði um hvíldartíma eru innleiðing á EES tilskipun líkt og Þriðji orkupakkinn. Þar líkur því sem líkt er með þessum tveimur málum sem eru afar ólík að efnisinnihaldi. Dagný segir vinnubrögðin „ógeðslega fyndin“; „Þeir eru að taka löggjöf frá hræðilega Evrópusambandinu og nota það sér í hag.“
Sjá einnig: Orkan okkar vill inngrip lögreglu eða Vinnueftirlits í störf þingsins svo Miðflokkurinn fái nægan svefn
Þingmenn ekki hefðbundnir starfsmenn
Í Evrópureglum kemur fram að skilgreining á vinnuveitanda og starfsmanni eigi að vera til staðar. „Það er einhver sem verður að vera í ráðningasambandi, undir stjórn einhvers annars. Það gildir ekki um þingmenn“ segir Dagný. „Hjá hverjum vinna þeir? Þeir eru ekki í hefðbundnu ráðningasambandi.“
Dagný vekur athygli á uppsetningu kærunnar, en fulltrúar Orkunnar kærðu fundarstjórn forseta til Vinnueftirlitsins. „Ég er ekki viss um að forseti þingsins sé atvinnurekandi, ef út í það er farið“ segir hún. „Þetta er ekki hefðbundinn vinnustaður. Hver er þá atvinnurekandinn? Það er ekki Steingrímur J. Sigfússon.“
Vinnueftirlitið hefur ekkert með kæruna að gera
„Hvað á [Vinnueftirlitið] að gera, eiga þeir að loka þinginu? Ég er ekkert viss um að það sé hægt að kæra svona hluti til eftirlitsins“ segir Dagný og ýjar að því aðferðir Orkunnar okkar séu kjánalegar. „Vinnueftirlitið hefur ekkert með þetta að gera. Þeir hafa eftirlit með framkvæmd laganna en það eru engin úrræði.“ Hún segir þá geta beitt dagsektum eða lokað vinnustöðum „Slíkt gerist endrum og eins. Það er í tilfellum þar sem vinnustaðir eru taldir hættulegir“ bætir hún við. Í þeim tilvikum er yfirleitt um leyfisskort eða heilsuspillandi efni á vinnustað að ræða.
Haraldur Ólafsson og Birgir Steingrímsson afhentu Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur forstjóra Vinnueftirlitsins kæruna fyrir hönd Orkunnar okkar. „Við tökum þetta sem almenna ábendingu um vanbúnað á vinnustað, en þá varðar það starfsmenn alþingis en ekki þingmennina sem slíka“ segir Hanna. „Um störf þingsins gilda lög um þingsköp.“
Fyrrverandi ráðherrar á bak við kæruna
Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður hjá Stundinni, gerir grín að kærunni í færslu á Facebook síðu sinni. „[Þau eru] farin að krefjast þess að lögregla stöðvi starfsemi íslenska löggjafarþingsins, að því er virðist af ótta við að Alþingi nýti fullveldisrétt Íslands á hátt sem samtökunum líkar ekki“ segir í færslunni. Hann bendir á að fyrrverandi ráðherrar, þingmenn og stjórnmálaleiðtogar eru meðal stofnenda hópsins Orkan okkar.