Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Löggan vill að verjandi Antons verði vitni: „Sjaldgæft örþrifaráð að losa sig við lögmanninn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinbergur Finnborgason, lögmaður Antons Kristinns Þórarinssonar athafnamanns, segir að lögreglan vilji losna við sig sem verjanda í rannsókninni á morðinu hrottalega í Rauðagerði um miðjan febrúar. Anton sat áður í gæsluvarðhaldi meðan lögregla rannsakaði tengsl hann við glæpinn en hann er nú í farbanni.

Antoni Kristni var fyrir tæpri viku sleppt úr haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en úrskurðaður í fjögurra vikna farbann. Hann hafði áður setið í tveggja vikna gærsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar á hinu hrottalega morði á Armando Bequiri.

Nú hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gert þá kröfu að Steinbergur lögmaður verði kallaður til yfirheyrslu sem vitni í málinu. Lögmaðurinn telur lögregluna gripa til örþrifaráða og sú skoðun hans kemur fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sem ber yfirskriftina Ljótur leikur lögreglunnar:

„„Í rannsókn á mögulegum tengslum hans við sjálfan glæpinn hefur lögreglan gripið til sjaldgæfra örþrifaráða – að losa sig við lögmanninn.“

Svona er bréf Steinbergs í heild sinni:

Flest viljum við trúa því að íslenska réttarríkið fari ekki í manngreinarálit. Við tökum öll undir einkunnarorð lögreglunnar, „Með lögum skal land byggja“ og við erum líka sammála um það að hver maður sé saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Við eigum öll rétt á sanngjarnri málsmeðferð og sakborningar mega velja sér lögmenn til þess að halda uppi eins góðum málsvörnum og frekast er unnt. Um þetta er almenn sátt í samfélaginu. Lögreglan leitar samt stundum af brigða og beitir jafnvel brögðum til þess að leiða mál til lykta á grundvelli sannfæringar sinnar um sekt fremur en hlutlægri niðurstöðu dómara.

Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að ég er – a.m.k. á meðan þessi orð eru skrifuð – skipaður verjandi sem löggan vill losna við. Ég hef um nokkurra vikna skeið í því verkefni notið skilyrðislauss trúnaðar skjólstæðings míns. Til skamms tíma sat hann í gæsluvarðhaldi og er nú í farbanni vegna gruns um tengsl við alvarlegt sakamál sem mjög hefur verið í fréttum síðustu vikurnar. Í rannsókn á mögulegum tengslum hans við sjálfan glæpinn hefur lögreglan gripið til sjaldgæfra örþrifaráða – að losa sig við lögmanninn. Hefur hún farið fram á það að ég verði kallaður til skýrslutöku sem vitni. Skv. lögum er mér um leið óheimilt að gegna störfum mínum sem verjandi í sama máli.

- Auglýsing -

Þetta er ljótur leikur í stöðunni. Látum vera, þótt sorglegt sé, að þetta er í annað sinn sem þessum hælkróki er beitt á mig – síðast m.a. með fyrirvaralausu gæsluvarðhaldi, húsleitum og f leira sem lögreglan hefur ekki enn bitið úr nálinni með. Alvarlegra er hvernig lögreglan vegur að réttindum og andlegri líðan hins grunaða. Þar er sparkað illa í liggjandi mann. Hann valdi sér lögmann sem hann treysti, hann trúði honum fyrir öllum atriðum sem honum voru kunnug, hann hagaði vitnisburði sínum og svörum að viðhöfðu samráði við lögmann sinn og náði með honum ákveðnum áfangasigrum í vörn sinni gagnvart sakargiftum. Ekki er nóg með að lögreglan ætli að neyða hann til að skipta um lögmann í miðjum klíðum heldur á að leiða trúnaðarmanninn, lögmann hans, í vitnastúkuna þar sem reynt verður að rekja úr honum garnirnar. Væntanlega mun þessi leikur lögreglunnar auka sakborningnum enn frekar áhyggjur og eru þær þó nægar fyrir.

Lögmaður hefur ríkar – og í raun heilagar – trúnaðarskyldur gagnvart skjólstæðingum sínum. Ég endaði að ósekju í gæsluvarðhaldi vegna þess að ég neitaði að svara spurningum sem skaðað hefðu skjólstæðing minn. Ég mun gera það aftur núna. Haldi lögreglan þessum leik sínum til streitu mun ég leita allra leiða til þess að standa á bæði mínum rétti og skjólstæðings míns. Í fyrsta lagi til þess að verja hann áfram og í öðru lagi til þess að geta, með milligöngu dómstóla ef á þarf að halda, vikið mér undan spurningum sem skaðað gætu málsvörn hans.

Vonandi mun svo Lögmannafélag Íslands taka þessa makalausu atburðarás til skoðunar. Það er eitthvað mikið að ef lögreglan getur ítrekað leikið þann leik að breyta verjanda í vitni til þess annars vegar að losna við hann úr málinu og hins vegar að pumpa upp úr honum upplýsingar sem hann kann að búa yfir vegna trúnaðarsambands við skjólstæðing sinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -