Á dögunum samþykkti meirihluti bæjarstjórnar á Akureyri að banna lausagöngu katta frá 1. janúar 2025.
Hefur þessi ákvörðun vakið mikla athygli og líklegast ekki farið fram hjá mörgum. Sitt sýnist hverjum um þessa samþykkt bæjaryfirvalda og hafa ófáir tjáð sig um málið.
Fjölmiðlamaðurinn, Logi Bergmann, skrifaði pistil er birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hann lýsir yfir óánægju með þessa ákvörðun.
„Mér er ekki sama þegar fólki dettur svona vitleysa í hug. Í fyrsta lagi er ég kattavinur og tel mig skilja þessi dýr og í öðru lagi er ég tengdasonur Akureyrar og hef tekið það hlutverk alvarlega. Það er reyndar óvíst að ég endist lengi sem slíkur ef þetta ágæta fólk ætlar að taka upp á því að elta Húsvíkinga í þessari vitleysu,“ skrifar Logi í pistli sínum.
Segist hann ekki vera neinn David Attenborough, en segist þó vita að kettir séu „stórkostlega merkileg dýr,“ eins og hann kemst sjálfur að orði.
„Þeir eru sjálfstæðir, einstakir og skemmtilegir. Það hefur verið sýnt fram á með fjölda rannsókna að gæludýr styrkja ónæmiskerfi. Ekki síst kettir sem fá að fara út,“ skrifar Logi og heldur áfram. „Þeir eru frjálsir til að tala við eigendur sína þegar þeir vilja, þeir eru frjálsir til að leggja sig þar sem þeim hentar og þeir eiga að vera frjálsir til að fara út þegar þeir vilja. Þetta ættu allir að skilja en svo óheppilega vill til að sjö af ellefu bæjarfulltrúum Akureyrar virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því.“
Logi viðurkennir að kettir séu vissulega rándýr og að þeir eigi það til að veiða fugla. „Það er leiðinlegt og stundum pínu sorglegt en svona er náttúran. Þetta er ekki gerendameðvirkni. Þetta er eðli þeirra en það er hægt að gera þeim erfiðara fyrir með bjöllum og litríkum kraga.“
Þá tengir Logi hið umdeilda mál, staðsetningu flugvallarins, við kattamálið mikla og segir staðsetningu flugvallarins í Reykjavík valda dauða fugla, þar sem hann standi við mikið varpland, það er Vatnsmýrina. „Það hefur nefnilega lengi verið eitt helsta baráttumál Akureyringa að flugvöllurinn í Reykjavík þurfi að vera límdur við miðbæinn.“
Endar Logi pistil sinn á því að bjóða Akureyringum að gera samkomulag. „Við Reykvíkingar skulum hafa þennan flugvöll sem þið viljið endilega hafa í miðbænum okkar, gegn því að þið leyfið köttum að hafa sína hentisemi.“