Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar var gestur Reynis í Mannlífinu þar sem hann ræddi um árin sín fyrir Norðan, skemmtilegan tíma í hljómsveitinni Skriðjöklum og Samfylkinguna.
Logi er jú að norðan, úr höfuðvígi Samherja. Hvað finnst honum um Samherjamálið?
„Ég held að ég sé á ólíkri skoðun miðað við marga í kjördæminu og ekki síst í sjávarútvegsmálum. Ég hef aldrei farið dult með það að mér finnst sjávarútvegskerfið ósanngjarnt. Mér finnst sjávarútvegskerfið líka hættulegt, vegna þess að í skjóli þessara ódýru aflaheimilda sem útgerðarfyrirtækin fá, þá hafa þau getað vaxið gríðarlega.
Þau hafa getað hreiðrað um sig í alls konar atvinnugreinum og þau ná hreðjatökum á samfélaginu hvort sem þau beiti því meðvitað eða ómeðvitað. Vegna þess að völd eru af mörgu tagi; það er til beint vald, en það er líka til áhrifavald og það er hættulegt. Þannig að ég er ekkert feiminn við að segja það, að þó að Samherji sé í mínu kjördæmi, þó að Síldarvinnslan sé í mínu kjördæmi og þó að Brim sé stór leikandi líka á norðaustursvæðinu, þá telji ég að það þurfi að endurhugsa þetta kerfi með meira réttlæti í huga, þannig að þjóðin fái meira af auðlindinni.
En af því að þú nefndir Samherja, þá geri ég ráð fyrir að þú sért líka að hugsa um Namibíumálið. Það mál er í rannsókn en ýmislegt bendir til þess að þar hafi mjög óhuggulegir hlutir verið framkvæmdir.“
Hverju myndi Logi breyta fyrst í sjávarútvegskerfinu, kvótakerfinu, ef hann hefði völd til þess?
„Það er þrennt sem þarf að koma inn í stjórnarskrá fyrir það fyrsta. Það er ákvæði um sjálfbærni og auðvitað þjóðareignina. Síðan er það ákvæði um tímabindingu aflaheimilda og loks er það ákvæði um gjaldtöku. Ákvæðið sem Katrín lagði ein og sér á borðið síðasta vor talaði meira að segja um það að það mætti taka gjald vegna aflanýtingar í ágóðaskyni.
Ég vil meina að ef hún er búin að skilgreina gjaldtöku vegna veiða í ábátaskyni þá eigi ekki að gefa neinn afslátt frá fullu gjaldi. Fólk getur svo deilt um hvaða leið sé best að því. Er það gert með veiðigjöldum? Ég hallast að því að markaðsleið sé einna gáfulegust til þess. Þar tryggjum við að minnsta kosti að útgerðirnar borgi nógu hátt verð til þess að það sé einhver trygging fyrir því að þjóðin sé að fá það sem hún á skilið.“
Logi Einarsson um fylgishrun Samfylkingar: „Ég held að við höfum færst of mikið í fang eftir hrun“