Lögmaðurinn sem sakaður er um nauðgun á geðdeild þverneitar sök og segir að sambandið við eiginkonu skjólstæðings síns hafi ekki verið nauðung af neinu tagi og ekki af kynferðislegum toga fyrr en eftir að hann heimsótti hana á geðdeild. Hann segir þau hafa átti í vinasambandi um árabil og í framhaldinu hafi verið daðurssamband á milli þeirra.
„Þetta var einfaldlega ástarsamband og mistök af minni hálfu,“ segir lögmaðurinn í samtali við Mannlíf. Hann viðurkennir að málið sé á gráu svæði.
Vísir sagði frá því í uppsláttarfrétt að umræddur lögmaður hefði verið kærður fyrir að nauðga konunni þegar hún var á geðdeild eftir að eiginmaður hennar var hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hefði smyglað tveimur kílóum af kókaíni til landsins og áður umtalsverðu magni af ávanabindandi verkjalyfjum. Eiginmaðurinn var skjólstæðingur lögmannsins en Landsréttur bannaði það samband seinna vegna vináttu þeirra og dæmdi lögmanninn frá málinu. Konan sem um ræðir starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair. Hjónin og lögmaðurinn höfðu átt í áralöngu vináttusambandi.
Lögmaðurinn hefur lagt fram gögn sem sýna að kynferðislegt samband hans við konuna hófst eftir að hún losnaði af geðdeild. Fyrir liggur vitnisburður konunnar og vinkonu hennar sem styðja þann málflutning. Daðurssamband hafði verið á milli hans og konunnar um tíma en sambandið færðist á annað svið daginn eftir að konan losnaði af geðdeild.
Hjónin standa nú í skilnaðarferli en eru sammála um að kæra lögmanninn fyrir atvikin á geðdeild. Hann hefur viðurkennt að þau hafi sýnt hvort öðru atlot en þvertekur fyrir að þau hafi haft samfarir á sjúkrahúsinu. Þá bendir hann á að enginn vitnisburður sé til um annað. Hann fullyrðir jafnframt að hjónin hafi látið berast til sín að málið félli niður gegn hárri greiðslu til þeirra.
Rekin frá Icelandair
Flugfreyjan er grunuð um aðild eða yfirhylmingu vegna kókaínsmyglsins. Smyglið komst upp í október síðast liðnum þegar maðurinn fékk senda tveggja kílóa kókaínsendingu frá Þýskalandi á heimili foreldra sinna í Vogum. Maðurinn nálgaðist efnin og fór með þau ásamt félaga sínum í húsnæði sem er í eigu hans. Þar kom lögreglan aðvífandi og handtók mennina, son hans og eiginkonuna í framhaldinu. Maðurinn þrætir fyrir að hafa vitað hvað væri í pakkanum. Þau voru öll dæmd í gæsluvarðhald ásamt 16 ára syni mannsins. Eftir að gæsluvarðhaldinu sleppti var flugfreyjan innrituð á geðdeild. Hún var send í frí og síðan rekin úr starfi hjá Icelandair.
Auk þessa eru hjónin til rannsóknar vegna meints smygls á ópíóíðalyfjunum sem talið er að hafi verið komið til landsins frá Tenerife í ferðatösku. Umrædd lyfi eru lyfseðilsskyld á Ísland en ekki á Spáni. Gríðarlegur gróði er í sölu á slíkum lyfjum á svörtum markaði. Ekkert hefur sannast í því máli en símagögn eru til grundvallar því máli. Meðal annars er þar samskipti hjónanna þar sem vangaveltur eru uppi um að söluvirðið samsvaraði útborgun í íbúð.
Hörð viðurlög liggju við báðum málum. Reikna má með að verði maðurinn fundinn sekur þá bíði hans allt að þriggja ára fangelsi fyrir kókaínmálið. Sannist sök í máli lögmannsins getur það kostað hann dóm og missi réttinda.
Fréttin hefur verið uppfærð.