Lögregla tók upp klippurnar í nótt og fjarlægði skráningarmerki af þrettán ökutækjum í Kópavogi, Vogahverfi og Árbæ. Ýmsar ástæður voru fyrir því að lögregla fjarlægði skráningarmerkin til dæmis fyrir ranga skoðunarmiða, ótryggða bíla og skoðun ekki verið sinnt sem skyldi.
Klukkan hálf tvö í nótt var karlmaður handtekinn í austurborginni vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Maðurinn var látinn laus að sýnatöku lokinni. Klukkustund síðar handtók lögregla annan karlmann í miðbæ Reykjavíkur en sá er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var einnig sviptur ökuréttindum við akstur ökutækis. Að öðru leyti var nóttin róleg ef marka má dagbók lögreglunnar.