Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi. Þolandi hlaut minniháttar meiðsli en ekki er vitað hver gerandi er. Fyrr um kvöldið hafði lögregla sinnt örðu sambærilegu útkalli í Breiðholti en samkvæmt dagbók lögreglu er vitað hver gerandinn er í því máli. Mikið var að gera hjá lögreglu í umferðareftirliti og stöðvaði lögregla alls sex ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Þá klippti lögregla skráningarmerki af þremur bifreiðum í miðbænum vegna vanrækslu á aðalskoðun. Ökumenn sem lögðu ólöglega í Vesturbænum í gær fengu sekt frá lögreglu en alls voru 33 sektaðir. Í Árbæ var lögregla kölluð út vegna umferðarslyss. Þegar betur var að gáð reyndist ökumaður annarrar bifreiðarinnar vera undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku en eftir skoðun þar var hann fluttur í fangageymslu.