Skýrslutaka lögregluembættisins á Akureyri yfir fjórum blaðamönnum, sem hafa réttarstöðu sakborninga, tengist ekki umfjöllun þeirra um skæruliðadeilda Samherja. Það staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins Kjartansson, í samtali við RÚV.
Hin meintu brot blaðamannanna tengjast því ekki Samherja eða meintri notkun þeirra á stolnum gögnum úr síma, nánar tiltekið úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá úrgerðarfyrirtækinu.
Gunnar lögmaður staðfestir jafnframt að gögnunum hafi ekki verið stolið af blaðamanni heldur einhverjum sem hafi engin tengsl við fjölmiðla. „Það er því hægt að setja þá samsæriskenningu upp á hillu,“ segir Gunnar.
Blaðamennirnir fjórir sem hafa nú réttarstöðu sakbornings eru þau Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Kjarnans.
Talið hafði verið að mál þeirra tengdist umfjöllun þeirra um skæruliðadeild Samherja. Gunnar segir það hins vegar tengjast öðrum gögnum sem finna mátti á umræddum síma og að lögreglan hafi upplýsingar um hver hafi stolið símanum af Páli. Lögmaðurinn viðurkennir að upplýsingarnar úr greinargerð lögreglunnar hafi komið bæði honum og Aðalsteini á óvart.